Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson fæddist 11. maí 1982 á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu í Reykjavík. Hann lést á lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þann 4. mars 2022.

Foreldrar Óskars eru Ólafur Jón Gústafsson, sjómaður, f. í Borgarnesi 18. mars 1955, og Birna Guðríður Þorleifsdóttir verkakona, f. í Bolungarvík 6. október 1958. Óskar á þrjár systur, Jóhönnu Ólafsdóttur, f. í Bolungarvík 24. desember 1976, Ólöfu Birnu Jensen, f. á Ísafirði 23. febrúar 1980, og Kristbjörgu Árnýju Jensen, f. á Ísafirði 15. mars 1986.

Ástkær eiginkona Óskars er Ágústa Sverrisdóttir, f. í Reykjavík 19. júní 1988, og saman eiga þau Gísla Þór Óskarsson, f.í Reykjavík 1. desember 2017. Óskar og Ágústa giftu sig þann 21. desember 2020. Foreldrar Ágústu eru Sverrir Ingimundarson, matreiðslumaður, f. í Bæ, Reykhólasveit, 7. apríl 1964, konahans er Rósa B. Sæmundsdóttir, sjúkraliði, f. 22. nóvember 1974. Móðir Ágústu er Steinþóra Ágústsdóttir, móttökuritari, f. í Stykkishólmi 21. desember 1969.

Óskar ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð en bjó síðustu ár með eiginkonu sinni og syni á Eyrarbakka. Fyrri ár starfaði hann aðallega tengt útgerðum og þá helst hjá sinni eigin en hann og foreldrarnir ráku saman Útgerðarfélagið Hjallur ehf. og gerðu þau út fiskibátinn Hrönn ÍS 303. Eftir að Óskar flutti á Suðurlandið starfaði hann sem öryggisvörður hjá Securitas. Hann var björgunarsveitarmaður og starfaði bæði með björgunarsveitinni Björg á Suðureyri og björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka. Sérsvið hans í þeim málum voru meðhöndlun flugelda og flugeldasýningar.

Útförin fer fram í dag, 14. mars 2022, kl. 13.

Borinn er til grafar í dag ástkær mágur minn, Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson. Það er svo erfitt að horfa á eftir ungum mönnum í blóma lífsins hverfa yfir móðuna miklu. Hann var fjölskyldufaðir sem lagði sig allan fram um að vera hinn trausti og umhyggjusami faðir og eiginmaður. Hvers vegna spyr maður, en engin svör koma og lífið heldur áfram.

Kynni mín af Óskari hófust í upphafi sambands okkar Jóhönnu fyrir 12 árum þegar við skutumst til æskustöðva hennar á Suðureyri við Súgandafjörð. Þá bjó hann í foreldrahúsum á Hjallveginum. Hann var kannski hlédrægur en alltaf var stutt í góðlega stríðni og glettni. Nettur púkalegur hlátur fylgdi með þegar hann til dæmis benti mér á að ég ætti eftir að loka hurðinni á jeppanum þegar ég arkaði inn pínu kvíðinn að hitta tengdafjölskylduna í fyrsta sinn á heimaslóðum. Mér, hæverska Flóamanninum, fannst dásamlegt að kynnast þessum áköfu og hreinskilnu Vestfirðingum þegar skrafað var og spjallað. Óskar var ekki sá sem heyrðist mest í en fylgdist með og greip fram í þegar hann vissi betur eða sagði sína skoðun á umræðuefninu.

Óskar ólst upp að mestu í faðmi tignarlegra fjallshlíða Súgandafjarðar ásamt foreldrum sínum Ólafi og Birnu og þriggja systra, Jóhönnu minnar, Ólafar og Árnýjar. Þegar þarna var komið sögu var hann í góðum tengslum við fjörðinn og hafið því með föður sínum gerði hann út línubátinn Hrönn ÍS. Hann kunni því vel til sjómannsverka og var í meira lagi verklaginn. Eftirminnilegt var þegar ég var að vandræðast með að skipta um krana við eldhúsvaskinn þar sem aðstæður voru mjög þröngar. Í næstu heimsókn til okkar nefndum við þetta við hann en hann sagði að þetta hlyti að vera lítið mál og fór strax í verkið. Ákveðnin, lagnin og sterkar og liprar hendur hans kipptu þessu í liðinn á örskömmum tíma.

Ég kynntist honum vel þegar hann hleypti heimdraganum og kaus að búa hjá okkur í Ártúninu á Selfossi, heldur en að láta sig hverfa í Reykjavíkinni. Enn betur sá ég þá hvað hann fylgdist vel með málefnum líðandi stundar og oftar en ekki áttum við innihaldsríkar samræður um pólitíkina eða hvað það sem var í umræðunni á þeirri stundu.

Allt í einu var Óskar kominn með kærustu, Ágústu Sverrisdóttur. Bæði miklir húmoristar sem smullu strax saman og ástin blómstraði. Þá var glatt á hjalla enda þau með eindæmum flink á sjá spaugilegar hliðar á öllum málum. Fljótlega, eða árið 2014, keyptu þau íbúð á Eyrarbakka, nálægt sjónum. Þau eignuðust fallega drenginn sinn hann Gísla Þór árið 2017. Úr fjarlægð fylgdist maður með dásamlegri tengingu þeirra feðga þar sem legokubbar og Minecraft voru þeirra ær og kýr ... mann setur hljóðan að þessi tengsl skyldu óvænt hafa verið rofin.

En lífið heldur áfram. Gísli Þór er eins og lifandi eftirmynd pabba síns og hefur tekið við einstakri handlagni hans sem sjást á legobílum og byggingum um allt herbergið hans. Ég bið Guð að styrkja Ágústu og Gísla Þór og nánustu fjölskyldu á þessum erfiðu tímum.

Guðmundur Pálsson.