Guðný Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 10. júlí 1927. Hún lést á Grund í Reykjavík 7. mars 2022.

Foreldrar Guðnýjar voru Oddný Guðrún Guðmundsdóttir, f. 17. nóvember 1897, d. 9. desember 1980, og Guðjón Sveinbjörnsson, f. 9. desember 1899, d. 18. mars 1980. Systkini Guðnýjar voru Guðmundur Einar, f. 23. mars 1931, d. 23. apríl 1980, og Hulda Guðrún, f. 3. nóvember 1933, d. 12. apríl 2011.

Árið 1959 giftist Guðný Guðmundi Baldvinssyni, f. 30. júlí 1923, d. 9. nóvember 2006. Foreldrar hans voru Sesselja Magnúsdóttir, f. 8. apríl 1879, d. 20. nóvember 1947, og Baldvin Bjarnason, f. 16. júlí 1878, d. 29. desember 1939.

Börn Guðnýjar og Guðmundar eru: 1) Oddný, rekstrarhagfræðingur, f. 11. júlí 1959. Sambýlismaður hennar er Gunnar R. Kristinsson, grafískur hönnuður, f. 22. apríl 1959. Oddný var í sambúð með Alexander B. Þórissyni, f. 2. janúar 1960. Börn þeirra eru Stefán Arnar, nemandi í Kvikmyndaskóla Íslands, f. 24. maí 1992, í sambúð með Kolku Heimisdóttur. Hildur, leikskólaleiðbeinandi, f. 21. janúar 1996, í sambúð með Kjalari Óðinssyni og eiga þau Kára Stein, f. 8. ágúst 2021. Dóttir Gunnars er Sigrún Tinna, læknir, f. 19. júlí 1988, gift Tómasi Birni Guðmundssyni og eiga þau tvö börn, Guðmund Kristján og Elínu Rósu. 2) Sesselja, sérfræðingur í barnahjúkrun, f. 29. september 1961. Maki hennar er Hannes Sigurðsson, listfræðingur, f. 3. mars 1960. Börn þeirra eru Guðný, þrívíddarlistamaður (3D artist), f. 14. september 1994, í sambúð með Tom Lempert. Hugrún, sérfræðingur í tölvuöryggi, f. 26. mars 1997, í sambúð með Sindra Páli Andrasyni. 3) Örn, arkitekt í París, f. 18. febrúar 1964. Sambýlismaður hans er Elie Bouchard, gagnastjóri, f. 12. júlí 1979.

Guðný ólst upp í Reykjavík. Hún stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1941-1945 og eignaðist þar vinkonur fyrir lífstíð. Þær stofnuðu saumaklúbb sem starfaði í tæplega 75 ár. Eftir útskrift vann Guðný sem gjaldkeri við Prentsmiðjuna Eddu frá 1945 til 1959. Árið 1958 stofnuðu Guðný og Guðmundur Mokka-Kaffi og hefur fjölskyldan rekið staðinn síðan. Guðmundur hafði kynnst ítalskri kaffihúsamenningu á námsárum sínum á Ítalíu og tóku þau hjónin sig til og stofnuðu þetta fyrsta kaffihús á Íslandi að ítalskri fyrirmynd og fluttu af því tilefni inn forláta espressovél. Mokka var ævistarf þeirra hjóna. Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitti Guðnýju þakkarviðurkenningu árið 2015.

Guðný flutti á Hjúkrunarheimilið Grund árið 2017.

Útför Guðnýjar verður gerð frá Landakotskirkju í dag, 14. mars 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Penninn er máttugri en sverðið, segir máltækið, en hann má sín einskis andspænis dauðanum. Til hvaða gagnslausu orða skal grípa til að kveðja hana Guðnýju Guðjónsdóttur tengdamóður mína, sem var mér svo tengd um margra áratuga skeið, og þakka henni fyrir allar góðu samverustundirnar? Við vorum í óvanalega nánum tengslum því við bjuggum lengst af í sama húsi á Skólavörðustíg, sú gamla beint fyrir ofan okkur hjónin.

Guðný lifði löngu og farsælu lífi og var af gamla skólanum. Sú menntun sem hún hlaut í Kvennó nægði til að landa henni góðu starfi sem gjaldkeri hjá virtu fyrirtæki og kom í góðar þarfir eftir að hún og eiginmaður hennar, Guðmundur Baldvinsson, stofnuðu Mokka-Kaffi árið 1958. Hún hélt fast um taumana og fylgdist eins og herforingi með öllu sem fram fór á þessum nú rótgróna og sígilda kaffistað. Hún kallaði hann „litla barnið sitt“.

Guðný var af þeirri kynslóð sem í bernsku hafði kynnst kreppunni miklu og hafði það varanleg áhrif á viðhorf hennar og lífshætti. Hún var einstaklega nýtin jafnframt því að vera blessunarlega laus við smásálarskap. Meðan sígarettur voru seldar í Mokka hafði hún til að mynda fyrir sið að rífa kartonin niður til að nota sem minnismiða. Á vissan hátt má líta á Mokka sem minnisvarða sem ber þeirri kynslóð sem nú er senn horfin á braut fagurt vitni. Þarna hefur allt verið eins frá upphafi, sama hvað dunið hefur á í heiminum og hvers konar tískubylgjur riðið yfir, líkt og tíminn hafi staðið í stað. Það og notalegt malið í kaffikvörninni, í staðinn fyrir dæmigerða síbylju úr hátölurum, kunna fastagestir vel að meta. Mokka er vin í eyðimörk okkar órólega, einnota samfélags sem engum hefðum eirir. Og á meðan Guðný stóð vaktina komu aldrei neinar breytingar til greina. Hún var ættmóðirin, höfuð Mokka-fjölskyldunnar.

Þegar við hjónin fórum að pússa okkur saman árið 1980 flutti ég fljótlega með annan fótinn inn á heimili þeirra Guðmundar og gerðist hálfgerður kostgangari. Fyrr en varði var ég búinn að koma mér þægilega fyrir og orðinn einn af fjölskyldunni. Upp frá því hefur þetta verið heimili mitt og aðalbækistöð á meðan við hjónin vorum erlendis við nám og bjuggum úti á landi. Ég kynntist því þessum sómahjónum sérstaklega vel og tengdist þeim sterkum böndum. Saman fórum við víða um heim, en eftir að Guðmundur féll frá einskorðuðust þær ferðir að mestu leyti við sumarbústaði og bíltúra um helgar. Þegar Guðný var orðin ein í koti og aldurinn farinn að segja til sín gat ég endurgoldið henni að nokkru leyti allar máltíðirnar sem ég hafði áður þegið og kom hún gjarnan í mat til okkar, enda stutt að fara.

Guðný var trúuð kona. Hún gerðist kaþólsk eftir að hún kynntist eiginmanni sínum sem hafði hrifist af þeim sið þegar hann var við söngnám á Ítalíu. Guðný var sannfærð um líf eftir dauðann þar sem hún myndi aftur sameinast manni sínum og horfnum ástvinum. Um leið og ég þakka Guðnýju kærlega fyrir samferðina bið ég hana að skila hlýrri kveðju til míns góða félaga Guðmundar. Ykkar er sárt saknað.

Hannes Sigurðsson.

Amma mín var yndisleg kona og styrkleiki hennar í gegnum árin engu líkur. Hún var og mun alltaf vera mér til fyrirmyndar. Hún kenndi mér svo margt, allt frá því hvernig laga á kaffi yfir í það hvernig ég ætti að horfa á lífið.

Ég myndi segja að við tvær værum talsvert líkar, enda reynum við báðar sífellt að finna afsökun til þess að drekka gott kaffi og laumast í súkkulaði. Það var alltaf erfitt að segja nei við hana þegar hún bauð manni súkkulaðimola í sinni einkennandi rauðu peysu og með krullaða englahárið sitt. Ég trúi enn að þetta hafi verið hennar leið til að réttlæta það að fá sér sjálf mola, og eins og í öðru tek ég hana mér mér til fyrirmyndar og mun sjálf nýta þessa aðferð til æviloka.

Eitt af því sem einkenndi ömmu var hvernig hún horfði alltaf á lífið eins og Pollýanna og fann alltaf björtu hliðina á hlutunum. Þegar ég var yngri trúði ég því að draugar byggju í húsinu okkar, enda er húsið gamalt og ég svaf uppi á háalofti. Einn daginn hitti ég ömmu og sagði henni frá þessu, í von um að hún myndi segja mér að draugar væru ekki til og að þetta væri ekkert nema ímyndun. Svarið sem ég fékk var hins vegar ekki alveg það sem ég bjóst við, en hún brosti til mín og sagði: „Það eru líklega draugar í húsinu, við skulum bara vona að þeir séu góðir.“ Þetta fékk mig til að hlæja, en gerði mig samt ekkert öruggari. Áður vonaðist ég til að draugar væru ekki til, en núna vona ég að þeir séu það og til staðar í gamla húsinu sem ég bjó í.

Takk fyrir öll yndislegu árin, elsku amma. Ég vona að þú og afi getið sameinast loks aftur, enda er hann búinn að bíða þó nokkuð lengi eftir þér. Þangað til næst. Þín alltaf,

Hugrún.