Sánkti Pétursborg Ung kona handtekin í gær í mótmælum gegn stríðinu.
Sánkti Pétursborg Ung kona handtekin í gær í mótmælum gegn stríðinu. — AFP
Hernaðarátökum Rússa í Úkraínu var víða mótmælt út um allt Rússland í gær. Blaðamaður AFP -fréttaveitunnar sem sendir út fréttir frá Moskvu varð vitni að fjölda handtaka í höfuðborginni.

Hernaðarátökum Rússa í Úkraínu var víða mótmælt út um allt Rússland í gær. Blaðamaður AFP -fréttaveitunnar sem sendir út fréttir frá Moskvu varð vitni að fjölda handtaka í höfuðborginni. Ung kona sem kallaði „Friður á jörð“ var stuttu síðar dregin í burtu af tveimur lögreglumönnum. Margir lögreglumenn merkja hjálma sína með bókstafnum Z, sem er stuðningstákn stjórnvalda í Kreml og er nú orðið almennt tákn stuðnings við innrásina í Úkraínu.

Lögreglan í Moskvu sagðist hafa handtekið 300 manns og fært í fangageymslur fyrir borgaralega óhlýðni. Samkvæmt upplýsingum frá AFP -fréttaveitunni voru margir blaðamenn handteknir í gær.

Í næststærstu borg landsins, Sánkti Pétursborg, var einnig fjöldi manna handtekinn og sást þegar einn mótmælandi var dreginn af lögreglunni eftir götunni. Aðalgata borgarinnar, Nevskí-breiðgatan var lokuð og fjölmargir lögreglubílar við götuna. Einn mótmælenda, hin tvítuga Kristina, var með gulan hatt og í bláum jakka, sem eru fánalitir Úkraínu. „Ég er hrædd við að fara út. Þeir eru að handtaka okkur og margir vina minna hafa verið handteknir undanfarna daga og sumir reknir úr háskólanum,“ sagði hún í samtali við AFP -fréttaveituna.

Helgina þar á undan voru yfir fimm þúsund mótmælendur handteknir í Rússlandi. Talið er að tæplega 15 þúsund mótmælendur hafi verið handteknir í Rússlandi frá því innrásin hófst 24. febrúar sl.