50 ára Ásmundur fæddist 14. mars 1972 á Húsavík. Hann fór snemma hringveginn því hann flutti eins árs til Reykjavíkur, hóf skólagönguna á Akureyri en var tólf ára kominn aftur til Húsavíkur.
50 ára Ásmundur fæddist 14. mars 1972 á Húsavík. Hann fór snemma hringveginn því hann flutti eins árs til Reykjavíkur, hóf skólagönguna á Akureyri en var tólf ára kominn aftur til Húsavíkur. „Ég hef alltaf verið á kafi í íþróttunum og sérstaklega fótboltanum og var í Völsungi á Húsavík þegar félagið var með lið í efstu deild.“ Ásmundur hefur einnig spilað með Þór á Akureyri og með Fram og Breiðabliki.

Ásmundur lærði sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands og starfar nú hjá Sjúkraþjálfun Íslands í Orkuhúsinu í Urðahvarfi. „Samhliða því menntaði ég mig í knattspyrnuþjálfun og hef starfað við það í um 20 ár. Stærsta hluta þjálfaraferilsins hef ég starfað hjá Fjölni en einnig verið þjálfari meistaraflokks karla hjá Fylki, ÍBV og Fram. En síðasta haust byrjaði ég að þjálfa meistaraflokk kvenna hjá Breiðabliki sem hefur verið ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt.“

Helstu áhugamálin eru öll tengd íþróttum og útivist og Ásmundir segist m.a. hafa mjög gaman af fjallgöngum. Það er við hæfi að hann sé íþróttalega sinnaður enda skírður í höfuðið á afa sínum, Ásmundi Bjarnasyni, fyrrum ólympíufara í frjálsum íþróttum.

Fjölskylda Eiginkona Ásmundar er Ísabella María Markan, leikskólakennari á leikskólanum Núpi, f. 1976. Ásmundur á þrjú börn: Hörð Mána, nema í sálfræði við HÍ, f. 1999; Bergþóru Sól, nema í MS, f. 2003, og Markús Stein, f. 2008. Foreldrar Ásmundar eru hjónin Arnar Steinn Guðlaugsson rafvirki, f. 1948, og Bergþóra Ásmundsdóttir bankastarfsmaður, f. 1951. Þau búa í Mosfellsbæ.