[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Við erum í skemmtanaiðnaði og við þurfum að halda okkur ferskum og á tánum. Það eru ótrúlega spennandi tímar fram undan,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, ÍTF.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Við erum í skemmtanaiðnaði og við þurfum að halda okkur ferskum og á tánum. Það eru ótrúlega spennandi tímar fram undan,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, ÍTF.

Rúmur mánuður er nú í að keppni hefjist á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Miklar breytingar hafa verið gerðar á umgjörð mótsins og tekjustofnum hefur verið fjölgað til muna. Efsta deild karla og kvenna kallast nú Besta deildin, leikjum verður fjölgað og verðlaunagripur mótsins verður skjöldur í stað bikars áður.

Birgir segir að mikil breyting felist í að taka upp nafnið Besta deildin. Þar með sé verið að feta í fótspor annarra deilda sem hætt hafa að kenna sig við einn samstarfsaðila. „Þegar samningurinn við Pepsi Max rann út kom í ljós að við áttum enga fylgjendur á samfélagsmiðlum, þeir fylgdu bara Pepsi Max. Það sýnir hversu skrítið það er að binda sig við einn samstarfsaðila og hanga á hans vörumerki. Hér eftir munum við alltaf markaðssetja okkar nafn, óháð því hverjir samstarfsaðilarnir eru hverju sinni.“ Þrír samstarfsaðilar hafa gengið til liðs við Bestu deildina, Steypustöðin, Nói Siríus og Lengjan. Birgir segir að samningar við þann fjórða séu í vinnslu en auk þess verður Pepsi Max opinber drykkur deildarinnar.

Birgir var ráðinn til starfa hjá Íslenskum toppfótbolta fyrir tveimur árum og þá hófst vinna við að teikna upp hvaða réttindapakka ætlunin var að selja. Í janúar á síðasta ári hófst formlegt söluferli með opnu útboði í sjónvarpsréttindin. Sýn keypti réttinn að Bestu deildinni til fimm ára og segir Birgir að mikill metnaður sé þar á bæ, fjölga eigi leikjum sem eru sýndir á stöðvum fyrirtækisins og allir leikir í karla- og kvennadeildinni verði aðgengilegir. Þá er verið að vinna að því að selja pakka fyrir Lengjudeildina sem er næst efsta deild. Þar verða í fyrsta sinn allir leikirnir aðgengilegir.

„Það er rosalega margt nýtt að gerast í kringum fótboltann og gríðarlega mikil tekjuaukning sem fylgir þessum réttindapökkum. Gamli samningurinn var til sex ára og skilaði tæpum milljarði í tekjur fyrir efstu deild karla. Þessir nýju pakkar, sem ná yfir fleiri deildir, eru að fara að skila okkur 2-3 milljörðum króna á samningstímanum. Það eru að koma miklu meiri fjármunir inn í íslenska fótboltann. Þessir peningar skila sér til félaganna,“ segir Birgir.

Sjónvarpsrétturinn seldur til útlanda í fyrsta sinn

Hann segir aðspurður að hvert félag í efstu deild karla hafa fengið að meðaltali 12,5 milljónir króna í tekjur ár hvert fyrir síðasta sjónvarpssamning. Ganga megi út frá því sem vísu að sú tala verði að lágmarki 20 milljónir króna með tilkomu nýju samninganna. Þá komi í fyrsta sinn tekjur til félaga í efstu deild kvenna og næst efstu deild karla. Reikna megi með að hvert lið í þeim deildum fái um 2,5 milljónir í tekjur en kostnaður gæti komið til frádráttar í Lengjudeildinni.

Þar með er þó síður en svo allt talið því nú verða það ekki bara íslenskir áhorfendur sem geta fylgst með Bestu deildinni.

„Við höfum selt alþjóðlegan sjónvarpsrétt að deildinni í fyrsta skipti. Við gerðumst aðilar að evrópsku deildasamtökunum í október og tókum þátt í alþjóðlegu útboði á sjónvarpsrétti með níu öðrum deildum. Nú verður hægt að horfa á þrjá leiki í hverri umferð Bestu deildarinnar um allan heim í gegnum tvær risastórar streymisveitur, One Football og Eleven Sports,“ segir Birgir en einum leik í hverri umferð verður lýst á ensku.

Þá verður útbúin eins konar upplýsingamiðstöð þar sem öllu efni er snýr að Bestu deildinni verður miðlað. „KSÍ og ÍTF eiga engin réttindi eða upptökur af gömlum leikjum. Þegar sjónvarpsréttur hefur verið seldur hefur rétthafinn alltaf eignast allan rétt. Hér eftir munum við eiga allt efni og getum miðlað því úr þessari miðstöð. Þar verða líka öll sjónvarpsmerki, tölfræði og annað keyrt út. Aðgengi að tölfræði verður bætt til muna og núna fáum við öll gögn beint meðan á leik stendur. Þau gögn getum við selt Stöð 2 sport eða RÚV, sem sýnir bikarleikina, ef vilji er fyrir hendi. Þá er hægt að sjá fjölda skota á mark, hlutfall liða með bolta og svo framvegis sem aðeins hefur verið hægt að sjá eftir leiki til þessa.

Við höfum verið langt á eftir öðrum í þessum málum en með samningi við Genius Sport, sem er alþjóðlegur risi á þessu sviði, tökum við mörg skref nær öðrum deildum. Við erum meira að segja að skoða það að kaupa enn meiri tölfræðigreiningar,“ segir Birgir. Jafnframt verður sett upp heimasíða þar sem ýmis tölfræði verður aðgengileg. Aukið aðgengi að gögnum gerir það líka að verkum að hægt verður að bjóða upp á alvöru Fantasy-leik í líkingu við þá sem notið hafa mikilla vinsælda í öðrum deildum.