75 eru látnir og 125 slasaðir eftir að lestarslys varð í suðausturhluta Kongó síðasta fimmtudag. Börn eru á meðal látinna. Tala látinna hefur farið hækkandi en upphaflega var talið að 60 hefðu farist í slysinu.

75 eru látnir og 125 slasaðir eftir að lestarslys varð í suðausturhluta Kongó síðasta fimmtudag. Börn eru á meðal látinna.

Tala látinna hefur farið hækkandi en upphaflega var talið að 60 hefðu farist í slysinu.

Á meðal þeirra 125 sem slösuðust er ástandið mjög alvarlegt hjá 28. Slysið varð þegar vöruflutningalest fór út af sporinu en lestin hafði verið að koma frá bænum Luena og var á leið til námubæjarins Tenke þegar slysið varð.

Að sögn járnbrautarfélagsins SNCC var lestin 15 vagna en þar af voru 12 vagnar tómir. Sjö vagnanna steyptust niður í gil þegar lestin fór af sporinu.

Þrátt fyrir að um vöruflutningalest hafi verið að ræða voru að sögn Marc Manyonga Ndambo, sem starfar fyrir SNCC, nokkur hundruð laumufarþegar um borð í lestinni. Algengt er á svæðinu að fólk hoppi um borð í vöruflutningalestir til að ferðast yfir geysistórt landið, en þar er bæði mikill skortur á farþegalestum og erfitt að ferðast á vegunum.

Lestarteinarnir voru rýmdir snemma í gær en þá átti enn eftir að draga í burtu vagnana sem fóru af sporinu.