Meðal dagskrárliða á Iðnþingi í ár var samtal Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra SI.
Meðal þess sem Sigurður spurði um voru þau tækifæri sem stjórnvöld sjá í því að gera Ísland sjálfbært og sjálfstætt í orkumálum. Benti Sigurður á að atburðir undanfarinna vikna sýni jafnframt að orku- og öryggismál haldast í hendur:
„Það er auðvitað grundvallarhugmyndin þegar við kynnum fyrstu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum 2018, að ná loftslagsmarkmiðum gerir orkuskiptin þar einn af lykilþáttunum. En það mun líka skipta máli fyrir okkar efnahagslegu stöðu að vera ekki háð innflutningi á óendurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði Katrín. „En síðan má segja að öryggisumræðan hafi orðið æ sterkari, og ekki síst eftir þá hræðilegu atburði sem hafa átt sér stað í Úkraínu og minna okkur á að það er ákveðið fullveldismál að vera okkur sjálfum næg um orku. Er orkuöryggi í Evrópu eitt af því sem hefur verið ofarlega á baugi í þeim samtölum sem ég hef átt við kollega mína undanfarnar tvær vikur.“
Minnti Katrín einnig á þau áhrif sem ástandið í Úkraínu hefur á öðrum mikilvægum sviðum atvinnulífs og iðnaðar, og hvernig orkumálin tengjast ótal þáttum daglegs lífs: „Ég held að þetta veki okkur til umhugsunar um matvæla- og fæðuöryggi. Við erum í þeirri stöðu, að mínu viti, að við getum gert miklu meira í matvælaframleiðslu á Íslandi. Mér hefur fundist ótrúlega merkilegt að sjá hvernig stefnumótun stjórnvalda, ákveðnir hvatar og ákveðnar áherslur, hafa í raun og veru orðið til þess að við erum að sjá ótrúlega marga nýja sprota verða til hringinn í kringum landið. Það segir mér að ef stjórnvöld myndu skerpa enn betur á þessum áherslum myndum við sjá enn meiri grósku. Þetta er auðvitað öryggismál en líka byggðamál og spurning um fjölbreytni í atvinnusköpun og efnahagslífi. Það er kannski sá lærdómur sem við getum tekið af hagsögunni, eins og við öll þekjum, að þessi fjölbreytni skiptir öllu máli fyrir lítið og opið hagkerfi eins og okkar.“
Setji markmið í sameiningu
Einnig barst í tal hve mikilvægt er fyrir loftslagsmálin að gott samspil eigi sér stað á milli aðila, þar sem stjórnvöld setja markmiðin og móta umgjörðina en fyrirtækjunum er látið það eftir að finna bestu lausnirnar:„Þar höfum við verið að horfa til nágrannalanda okkar. Það hefur alltar verið okkar sýn, og mín sýn í þessu, að við náum ekki þessum árangri nema allir taki þátt. Þá er ég að tala um allar greinar atvinnulífsins, sveitarfélögin, ríki, stofnanir og svo framvegis. Það sem við sjáum fyrir okkur í þessu er að við nánast setjumst niður, með hverri og einni atvinnugrein og setjum niður markmið í sameiningu: að stjórnvöld átti sig á því hvaða hvatar skipta máli fyrir viðkomandi grein, og viðkomandi grein setji sér um leið markmið,“ segi Katrín. „Þetta er það sem við höfum verið að færa okkur út í og við erum búin að vera að vinna að með sjávarútveginum, og einnig átti í samtali við álverin en við skrifuðum undir yfirlýsingu með þeim. Við þurfum að fullnusta þessa hugmyndafræði.“
Einnig varaði Katrín við því að láta umræðuna um umhverfis-, loftslags- og orkumál fara út öfgar: „Hún fer dálitið út í þessar hefðbundnu skotgrafir, um að virkja eða virkja ekki, og hvort þá er verið að fórna allri náttúru. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að staðan hefur verið eins og hún hefur verið. Þess vegna segi ég að við þurfum þetta samtal. Loftslagsmarkmiðin og náttúruvernd eru ekki og eiga ekki að vera andstæður. Við eigum að geta náð okkar loftslagsmarkmiðum og geta líka staðið undir þeirri skyldu að vernda okkar ósnortnu náttúru til hagsbóta fyrir almenning allan, vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni – en við þurfum að finna þetta mikilvæga jafnvægi.“