Sókn Garðbæingurinn David Gabrovsek sækir að Keflvíkingnum Jaka Brodnik í Smáranum í Kópavogi í undanúrslitum VÍS-bikarsins í gær.
Sókn Garðbæingurinn David Gabrovsek sækir að Keflvíkingnum Jaka Brodnik í Smáranum í Kópavogi í undanúrslitum VÍS-bikarsins í gær. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Smáranum Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Stjarnan tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarsins, með mögnuðum 95:93-sigri á Keflavík.

Í Smáranum

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Stjarnan tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarsins, með mögnuðum 95:93-sigri á Keflavík. Leikurinn var sannkallaður spennutryllir þar sem framlengingu þurfti til þess að knýja fram úrslit. Karlalið Stjörnunnar er því komið í úrslit bikarkeppninnar fjórða árið í röð. Árin 2019 og 2020 unnu Garðbæingar bikarmeistaratitilinn en á síðasta ári laut liðið í lægra haldi fyrir Njarðvík.

Keflvíkingar hófu leikinn ögn betur og leiddu með fjórum stigum að loknum fyrsta leikhluta, 19:23. Stjörnumenn sneru taflinu hins vegar við sér í vil í öðrum leikhluta þar sem tæplega fjögurra mínútna kafli án þess að skora reyndist Keflvíkingum erfiður. Staðan í hálfleik 41:36, Stjörnunni í vil. Áfram voru sveiflur í leiknum og Keflavík sneri taflinu aftur við. Staðan að loknum þriðja leikhluta 60:62.

Í fjórða leikhluta var því allt í járnum þar sem liðin skiptust á að ná naumri forystu. Stjarnan var þremur stigum yfir, 82:79, þegar 8,3 sekúndur voru eftir á leikklukkunni. Í næstu sókn setti Jaka Brodnik niður þriggja stiga körfu fyrir Keflavík og jafnaði metin í 82:82. Enn var 6,1 sekúnda eftir af leiknum en lokasókn Stjörnunnar rann út í sandinn.

Því þurfti að grípa til framlengingar. Í henni byrjaði Keflavík mun betur og voru 88:93 yfir þegar mínúta var eftir. Stjarnan svaraði hins vegar með tveimur þristum frá Gunnari Ólafssyni og Robert Turner. Staðan orðin 94:93 og nokkrar sekúndur eftir. Lokasókn Keflavíkur klikkaði hins vegar og Stjarnan fékk tvö vítaskot í kjölfarið. David Gabrovsek skoraði úr öðru þeirra og tryggði nauman tveggja stiga sigur.

Eins og úrslitin gefa til kynna hefði leikurinn getað fallið hvoru megin sem var. Bæði lið léku afar vel, sér í lagi í vörninni framan af og þá fór báðum liðum að ganga betur í sókninni síðari hluta leiksins. Afar lítið bar á milli en Stjarnan reyndist hlutskarpari og tekur því þátt í enn einum úrslitaleiknum. Þar mætir liðið annaðhvort Þór frá Þorlákshöfn eða Val, en sá leikur var nýhafinn þegar blaðið fór í prentun.