Dagmál Fjórir frambjóðendur sækjast eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri hans um helgina. Þau eru gestir í Dagmálum.
Dagmál Fjórir frambjóðendur sækjast eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri hans um helgina. Þau eru gestir í Dagmálum. — Morgunblaðið/Hallur Már
Karítas Ríkharðsdóttir Stefán Einar Stefánsson Allir frambjóðendur í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru sammála um að núverandi útfærsla á borgarlínunni sé of dýr og taka þurfi áform um hana til algjörrar endurskoðunar.

Karítas Ríkharðsdóttir

Stefán Einar Stefánsson

Allir frambjóðendur í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru sammála um að núverandi útfærsla á borgarlínunni sé of dýr og taka þurfi áform um hana til algjörrar endurskoðunar.

„Það kom fram í skýrslu frá danska greiningarfyrirtækinu COWI að það verða aldrei nema tólf prósent sem munu ferðast með borgarlínu en á sama tíma á að þrengja að annarri umferð,“ segir Marta Guðjónsdóttir.

Friðjón R. Friðjónsson segir að efla þurfi almenningssamgöngur í borginni en segist hvorki fella sig við borgarlínu Dags. B. Eggertssonar borgarstjóra né það sem hefur verið kallað borgarlína „light“.

Þau tvö, ásamt Þorkeli Sigurlaugssyni og Kjartani Magnússyni, eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar og Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum.

Hægt að fara í útboð

„Reykjavík nýtur ekki hagkvæmni stærðarinnar. Það er hægt að bjóða út margvíslega starfsemi,“ segir Kjartan og nefnir sem dæmi hugbúnaðarhús sem reka á af borginni fyrir háar fjárhæðir, spurður hvar hann telur að hægt sé að skera niður í rekstri borgarinnar.

„Ég held að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið á landinu sem ekki býður út sorphirðu hjá heimilum. Þetta er orðið mjög fátítt á Vesturlöndum,“ segir Kjartan enn frekar.

Efla þurfi stjórnun

Þorkell Sigurlaugsson segir að fyrst og fremst þurfi að taka til hendinni í stjórnun og skipulagi borgarinnar. „Þá er hægt að bæta þjónustu við íbúana og þjónustu við fyrirtækin,“ segir hann.

Þorkell segir að hætta þurfi bruðli og hætta að taka að sér verkefni „sem átti að kosta fimmtíu milljónir, en kostar hundrað milljónir þegar upp er staðið“ og efla fjármálastjórnun borgarinnar.

Hræðist ekki uppsagnir

Launakostnaðurinn er langstærsti liðurinn sem kallar á hagræðingu hjá borginni segir Friðjón. Hann segir að ekki sé einungis hægt að láta starfsmannaveltu vinna með sér heldur gæti hagræðing kallað á fækkun starfsfólks og uppsagnir.

„Það verður þá bara að vera, því að það er ekkert hægt að fara inn í svona skrímsli, eins og borgin er, án þess að í alvörunni vera tilbúin til þess að taka heilu deildirnar, jú bjóða þær út og tryggja störf, en það er ekkert hægt að gera án þess að vinna á launakostnaði,“ segir Friðjón.

Hann bendir á að laun hjá borginni hafi hækkað um allt að tuttugu prósent á undanförum árum, langt umfram hinn almenna markað.

Byrji á sjálfri sér

Friðjón og Kjartan eru sammála um að borgarstjórn eigi að byrja á sjálfri sér og fækka borgarfulltrúum aftur úr tuttugu og þremur í fimmtán. Kjartan segir að þegar fjölgunin átti sér stað við upphaf yfirstandandi kjörtímabils hafi þau skilaboð verið send út í allar borgarstofnanir að aukning útgjalda væri í lagi.

Kjartan segir að gjaldtaka sem fylgja á borgarlínunni sem hann kallar „borgarlínuskatt“ muni leggjast þyngra á íbúa í vesturhluta borgarinnar. Hann hafnar alfarið slíkri skatttöku.

Undir þetta tekur Marta Guðjónsdóttir, „ég mun aldrei samþykkja slíka tolla,“ segir hún.

Vill horfa til framtíðar

Þorkell segir það vanta að horfa skipulagslega, rekstrarlega og stjórnunarlega til framtíðar í borginni. „Það er kannski ekki verið að tala um nýjar deildir, þá þyrfti að vera skipulags- og þróunarsvið innan Reykjavíkurborgar sem talar við fyrirtækin í borginni, sem talar við fólkið í borginni, kynnir sér málefni eldri borgara og reyni að þróa borgina þannig að það þjóni sem best þessum hagsmunum,“ segir Þorkell.

Greina má ólíka áherslu frambjóðendanna um hvernig hægt sé að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn geti byggt brýr til annarra flokka og leitt meirihlutasamstarf.

Friðjón segist boða breytt vinnulag og breytta hugsun. Í því felist meðal annars gagnrýni á hvernig tókst til við meirihlutaviðræður flokksins síðast.

Kjartan og Marta segja að stefna flokksins þurfi að vera skýr og hópur frambjóðenda að ganga í takt. Þorkell segist ekki hafa áhyggjur af því að flokkurinn geti ekki myndað meirihluta.