Búskapur Hænsnahaldið hefur algjörlega slegið í gegn meðal nemenda og foreldra,“ segir Sigrún skólastjóri
Búskapur Hænsnahaldið hefur algjörlega slegið í gegn meðal nemenda og foreldra,“ segir Sigrún skólastjóri — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Margrét Þóra Þórsdóttir maggath61@simnet.is „Við erum alltaf opin fyrir nýjungum og hér er sífellt verið að þróa eitthvað nýtt og skemmtilegt,“ segir Sigrún Hulda Jónsdóttir, skólastjóri á heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi.

Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

„Við erum alltaf opin fyrir nýjungum og hér er sífellt verið að þróa eitthvað nýtt og skemmtilegt,“ segir Sigrún Hulda Jónsdóttir, skólastjóri á heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi. Undanfarið eitt og hálft ár hefur leikskólinn haldið sex landnámshænur sem börnin hjálpast að við að hugsa um á skólatíma og með foreldrum um helgar og á helgidögum.

Heilsustefna í daglegu starfi

Urðarhóll er að sögn Sigrúnar fyrsti heilsuleikskóli landsins. Árið 1995 setti þáverandi leikskólastjóri, Unnur Stefánsdóttir, ásamt kennurum fram skólastefnu sem hafði að markmiði að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun. „Ég var svo heppin að byrja minn starfsferil hjá Unni heitinni og tók þátt í því að móta og þróa heilsustefnuna,“ segir Sigrún.

Alls starfa nú 23 leikskólar um landið eftir stefnunni.

„Við teljum að auka megi vellíðan barna með hollum mat, mikilli hreyfingu og útiveru. Sköpun er einnig góð aðferð til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar, með söng, leiklist, dansi og að skapa óhindrað úr verðlausum og opnum efnivið,“ segir Sigrún. Allir þættir heilsustefnunnar fléttast inn í daglegt leikskólastarf, mikil áhersla er lögð á holla og góða næringu og sem minnst af viðbótarfitu, -sykri eða -salti í matnum. Í hreyfingunni er stefnt að aukinni samhæfingu, jafnvægi, krafti og þori auk þess að styrkja sjálfsmynd, auðvelda samskipti og læra hugtök.

Hvað sköpun varðar er í Urðarhól áhersla á að örva tjáningu og auka hugmyndaflug og sköpunargleði barnanna. Í Urðarhóli er horft til nýbreytni og þróunarstarfs. Í leikskólanum er unnið að margvíslegum verkefnum sem til framþróunar séu í starfinu. Sigrún nefnir sem dæmi verkefnin börn og tónlist, starfagaldur, leik að bókum, útinám og textílmennt auk sjálfbærniverkefnis sem gengur út á að halda landnámshænur. Það verkefni segir hún að gangi meðal annars út á að sporna gegn matarsóun, hænurnar fá afgangsmat og þær gefa af sér egg sem nýtt eru á leikskólanum og heima um helgar og á helgidögum hjá börnunum.

„Hænurnar hafa glætt starfið okkar mikið og eflt samstarf við foreldra barnanna,“ segir hún.

Hænsnahald slegið í gegn

Foreldrar lögðu hönd á plóg þegar hænsnakofanum var komið upp en allt starf við það var unnið í sjálfboðaliðavinnu þeirra. Þá hafa foreldrar komið sterkt inn í umhirðu hænsnanna um helgar og yfir helgidaga. „Við skiptum þessu upp á milli deilda, hver deild hefur ákveðinn tíma til að hugsa um hænurnar, opna á morgnana, þrífa og taka eggin. Fyrir helgar auglýsum við eftir sjálfboðaliðum og skemmst er frá því að segja að það fyllist allt á augabragði, svo mikill er áhuginn. Það má segja að hænsnahaldið hafi algjörlega slegið í gegn og þó að við höfum haft þær þetta lengi hefur áhuginn á umhirðunni um helgar ekkert minnkað,“ segir Sigrún skólastjóri