Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
Eftir Helga Áss Grétarsson: "Í Reykjavík á að gera vel við eigendur íbúðarhúsnæðis í hópi elli- og örorkulífeyrisþega. Borgin á þar að vera í fararbroddi en ekki reka lestina."

Með álagningu fasteignagjalda sveitarfélaga er reynt að blanda saman skilvirkri skattheimtu og sanngjarnri. Mælt er fyrir um þessi opinberu gjöld í lögum. Meginreglan er sú að allir fasteignareigendur greiða þessi gjöld að fullu. Elli- og örorkulífeyrisþegar hins vegar geta fengið þessi gjöld felld niður eða fengið af þeim afslátt. Þessi undantekning á við um þá elli- og örorkulífeyrisþega sem búa í eigin húsnæði og hafa lágar tekjur. Hvert sveitarfélag hefur svigrúm innan ramma laga til að ákveða þau tekjumörk sem skera úr um hvenær gjöldin eru alfarið felld niður og hvenær tekjur elli- og örorkulífeyrisþegans eru orðnar það háar að enginn afsláttur sé veittur af gjöldunum.

Hví er Reykjavíkur eftirbátur nágrannasveitarfélaganna?

Þegar rýnt er í tölur frá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, um niðurfellingu fasteignagjalda og afslætti frá þeim, kemur í ljós að Reykjavíkurborg stendur lakast að vígi. Sem dæmi falla þessi gjöld í ár alfarið niður í Reykjavík hjá einstaklingi þegar viðkomandi hefur meðaltalsmánaðartekjur á ársgrundvelli upp að kr. 379.667 en í Hafnarfirði er sambærileg fjárhæð kr. 529.167. Hjá samsköttuðum einstaklingum eru tekjumörkin á þennan mælikvarða í Reykjavík kr. 529.167 en kr. 677.083 í Hafnarfirði. Sé tekið meðaltal af sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu eru kjörin í Reykjavík með tilliti til niðurfellingar fasteignagjalda annars vegar 81,4% af meðaltalinu (einstaklingar) og hins vegar 87,6% (samskattaðir einstaklingar).

Með öðrum orðum: af sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu koma fasteignagjöld Reykjavíkurborgar minnst til móts við elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa lágar tekjur og búa í eigin húsnæði. Svona hefur þetta verið um langt árabil. Hvers vegna?

Í fararbroddi í stað þess að reka lestina

Fyrir tiltekinn hóp elli- og örorkulífeyrisþega geta fasteignagjöld í Reykjavík valdið búsifjum, ekki síst fyrir þá eldri borgara sem misst hafa maka og eiga erfitt með að afla sér viðbótartekna. Í krafti stærðar Reykjavíkurborgar á að koma sem ríkulegast til móts við fasteignareigendur í hópi elli- og örorkulífeyrisþega. Í þessum efnum, sem og öðrum, á borgin að vera í fararbroddi en ekki reka lestina.

Breytinga er þörf. Það tryggjum við í borgarstjórnarkosningunum í vor með góðum árangri Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur óskar eftir stuðningi í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. helgigretarsson@gmail.com

Höf.: Helga Áss Grétarsson