Kópavogur Eignir í nýju hverfunum efst í bænum er afar vinsælar.
Kópavogur Eignir í nýju hverfunum efst í bænum er afar vinsælar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nauðsynlegt er að vinnu við skipulag á fyrirhuguðum nýbyggingasvæðum í Kópavogi ljúki á næstu mánuðum, svo rjúfa megi þá kyrrstöðu sem nú er á húsnæðismarkaði í bænum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nauðsynlegt er að vinnu við skipulag á fyrirhuguðum nýbyggingasvæðum í Kópavogi ljúki á næstu mánuðum, svo rjúfa megi þá kyrrstöðu sem nú er á húsnæðismarkaði í bænum. Þetta segir Vilhjálmur Einarsson, löggildur fasteignasali hjá Eignaborg. Hann var annar eigandi fyrirtæksins fram á síðari ár, hefur starfað við sölu fasteigna í alls 45 ár og sérstaklega sinnt Kópavoginum.

Seldist á engri stundu

„Í dag eru um 500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, sérbýli og fjölbýliseignir, á söluskrá. Fjöldi þeirra sem sinna fasteignasölu á svæðinu er svipaður og því verður svolítið sérstakt ástand á markaðnum,“ segir Vilhjálmur. „Þegar framboð af eignum í sölu er lítið rýkur verðið líka upp vegna eftirspurnar. Fyrir nokkrum dögum var opið hús í klukkutíma þegar ósköp venjuleg blokkaríbúð í Smárahverfinu var til sölu. Fólk í alls þrettán hópum, litlum sem stórum, kom til að skoða og þessi íbúð seldist á engri stundu.“

Svæði í Kópavogi, þar sem hefja á uppbyggingu á næstu árum, eru þrjú. Þar nefnir Vilhjálmur svonefnd Gustssvæði ofan Reykjanesbrautar, Rjúpnahæð og síðasta hluta Vatnsendahverfis. Nokkuð á annað þúsund íbúðir eru fyrirhugaðar á þessum svæðum. Ljóst er þó að einhvern tíma mun taka að ganga frá skipulagi þar og svo byggja svo ferlið héðan í frá gæti tekið 2-3 ár.

Verðmunur er horfinn

„Lengi var verðmunur á fasteignum í Reykjavík og Kópavogi 10-15%. Núna er þetta bil nánast horfið, enda hefur öll þjónusta og innviðir hér í bæ verið styrkt. Mikil hækkun eignaverðs á síðustu árum er samspil margra þátta. Laun hafa rokið upp og vextir voru mjög lágir á tímabili. Kaupmáttur hefur vaxið og því hafa verktakar og aðrir getað hækkað verð eigna,“ segir Vilhjálmur.