Mæðginin Jónína Ósk Lárusdóttir og Emil Nói Auðunsson í notalegri stund við spil og spjall. Gæðastund til að njóta.
Mæðginin Jónína Ósk Lárusdóttir og Emil Nói Auðunsson í notalegri stund við spil og spjall. Gæðastund til að njóta. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Þau leituðu að sumarhúsi en enduðu í einbýlishúsi á Selfossi. Stutt er í alla þjónustu. Góðir nágrannar. Flutningarnir eru besta ákvörðun fjölskyldunnar.

Fjölskyldan var fljót að festa rætur á Selfossi og hjarta okkar slær hér. Stemningin hér er líka einstök, sveitarómantík í bæ sem stækkar stöðugt. Hér í götunni minni láta nágrannarnir sig líka hvern annan varða, sem er ótrúlega dýrmætt,“ segir Jónína Ósk Lárusdóttir.

Mikil umskipti

Þau Jónína og Auðunn Örn Gunnarsson eigimaður hennar voru að svipast um eftir sumarhúsi á Suðurlandi til kaups þegar í samtölum þeirra kom upp sú hugmynd að setjast að á Selfossi. Þetta gekk eftir; fyrir íbúð í fjórbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu fengu þau stórt og rúmgott einbýlishús í grónu hverfi á Selfossi. Kostakaup!

„Að flytja hingað er besta ákvörðun sem fjöskyldan hefur tekið. Hingað fluttum um um páskana 2018 og héðan úr Furugrund, sem er austast í bænum, er eiginlega stutt í allt sem sækja þarf; vegalengdir hér innanbæjar eru ekki meiri en svo. Á Völlunum í Hafnarfirði, þar sem við bjuggum áður, má eiginlega segja að hafi verið langt í allt. Umskiptin að þessu leyti eru mikil,“ segir Jónína sem er smíða- og myndmenntakennari við Stekkjarskóla. Auðunn Örn er flugmaður hjá Atlanta. Er í úthöldum um heiminn þveran og endilangan í nokkrar vikur í senn en heima þess á milli. Þau eiga þrjá syni og hjá þeim býr sá yngsti; Emil Nói sem er ellefu ára.

„Okkur reyndist auðvelt að komast inn í samfélagið hér, en slíkt er væntanlega mjög undir hverjum og einum komið. Strákurinn okkar er virkur í íþróttum og við hjónin erum í Golfklúbbi Selfoss sem er með frábæran völl hér rétt ofan við bæinn. Einn þann besta á landinu sem stendur til að stækka. Í stórum bæ þarf alltaf uppbyggingu og framfarir,“ segir Jónína Ósk:

Nýjan skóla og sundlaug

„Núna er til dæmis orðið aðkallandi að byggja fjórða grunnskólann hér á Selfossi og ný sundlaug til viðbótar þeirri sem hér er fyrir hlýtur að verða reist á allra næstu árum. Styrkingu innviða þarf að fylgja fjölgun íbúa og efld þjónusta. Þar mætti sveitarfélagið gera betur. Nýi miðbærinn hefur orðið einstök lyftistöng fyrir svæðið, bæði eflt fyrirtæki sem hér voru fyrir og eins þau sem hér hasla sér völl í vaxandi bæ.“

Fjölgun íbúa í Árborg er jöfn og stöðug. Samkvæmt spánýjum tölum frá Þjóðskrá eru bæjarbúar nú 10.869 og hafði fjölgað um 75 frá 1. desember síðastliðnum, en sú dagsetning er jafnan viðmiðunarpunktur í manntali Íslendinga. Á fyrstu mánuðum síðasta árs voru íbúar í Árborg 10.510 og á sama tíma árið 2017 8.550. Fjölgun síðan þá til dagsins í dag er um 18,7% En hvað ræður þessari þróun? Hagstætt verð á húsnæði segja sumir, en einnig að vel sé tekið á móti nýbúum í Árborg og þar sé sömuleiðis auðvelt að gerast virkur þátttakandi í því sem býðst í fjölbreyttu samfélagi. Þá séu atvinnumöguleikar almennt góðir. Ekkert tiltökumál heldur að sækja atvinnu á höfuðborgarsvæðið, líkt og fjöldi fólks gerir dag hvern. Við tókum fólk tali!