Athyglisvert var að sjá viðbrögð frá verkalýðshreyfingunni við orðum formanns Samtaka iðnaðarins á dögunum. Samtökin héldu iðnþing og í tengslum við það sagði Árni Sigurjónsson, formaður samtakanna, að óraunhæft væri að bæta kaupmátt á næstu misserum.

Athyglisvert var að sjá viðbrögð frá verkalýðshreyfingunni við orðum formanns Samtaka iðnaðarins á dögunum. Samtökin héldu iðnþing og í tengslum við það sagði Árni Sigurjónsson, formaður samtakanna, að óraunhæft væri að bæta kaupmátt á næstu misserum. Þetta kom fram þegar hann var spurður út í svigrúm íslenskra fyrirtækja til að greiða hagvaxtarauka 1. maí næstkomandi og í kjölfarið að hækka laun með nýjum kjarasamningum, þegar núgildandi samningar renna út í haust.

Árni sagði Samtök iðnaðarins styðja það að staðið yrði við að greiða hagvaxtaraukann, en sagði svo: „Hins vegar höfum við verið afdráttarlaus í viðræðum okkar við verkalýðshreyfinguna að hækkun launa við þessar aðstæður sé óskynsamleg og muni rýra frekar en auka kaupmátt. Seðlabanki Íslands hefur talað með nákvæmlega sama hætti. Það eru kjaraviðræður fram undan. Atvinnurekendur munu að sjálfsögðu taka tillit til hagvaxtarauka í komandi kjarasamningum. Það eyðir enginn sömu krónunni tvisvar.“

Ekki þarf djúpan skilning á efnahagslegum veruleika eða mikla þekkingu á atburðum síðustu missera og því stríði sem nú geisar til að sjá að formaður Samtaka iðnaðarins hefur lög að mæla. Vart þarf að rifja það upp að heimurinn hefur í rúm tvö ár tekist á við farsótt sem hefur lamað efnahagslíf bæði hér og erlendis og ekki þarf heldur að benda á að hvorki Ísland né önnur ríki hafa náð sér af því mikla áfalli. Og það þarf varla heldur að benda á þá hörmulegu staðreynd að rétt þegar tekið var að rofa til hvað veiruna varðar þá tók forseti Rússlands upp á því að ráðast inn í Úkraínu með þeim efnahagslegu afleiðingum sem allir horfa upp á í fréttum síðastliðnar tæpar þrjár vikur meðal annars með stórlega hækkuðu hrávöruverði.

Fyrirtækin fá augljóslega skell af þessum sökum og hér á Íslandi bætist hann ofan á þær miklu kostnaðarhækkanir sem ítrekaðar og miklar launahækkanir liðinna ára hafa haft í för með sér, að viðbættum hagvaxtaraukanum svokallaða, sem engar forsendur voru fyrir. Eðlilegast hefði verið að semja um að hætta við þá hækkun, sem aðeins kemur til vegna þess að við samningagerðina á sínum tíma datt engum í hug að heimurinn gæti lent í veirufaraldri sem lamaði efnahagskerfi heimsins, hvað þá að þeim faraldri yrði fylgt eftir með stríði sem einnig tæki mikinn efnahagslegan toll.

Verkalýðshreyfingin hafnaði því að sýna þá sanngirni að taka tillit til aðstæðna, en hún getur ekki búist við að í kjarasamningunum sem í hönd fara verði samið án tillits til aðstæðna. Það væri engum til góðs, allra síst almennu launafólki.