Ragnar Ragnarsson fæddist 27. desember 1944. Hann lést 24. febrúar 2022.

Útför Ragnars fór fram 8. mars 2022.

Elsku afi Ragnar er skyndilega fallinn frá. Það er erfitt að venjast tilhugsuninni. Hann var ekki maður margra orða en hann hafði risastórt hjarta. Það fór ekki mikið fyrir honum en hann skildi eftir stórt spor í hjörtum okkar allra. Hann var svo ljúfur, skipti sjaldan skapi, sallarólegur, alveg sama hvað á gekk, alltaf til staðar. Hann var kletturinn okkar. Svo var hann bráðskemmtilegur. Hann tók hlutunum eins og þeir voru, dæmdi aldrei. Það var svo gott að halla sér að honum og hann var líka fyrstur til að rétta fram hjálparhönd ef þurfti. Hann sýndi væntumþykju sína ekki í orðum heldur í verki og barnabörnin hans fóru svo sannarlega ekki varhluta af því.

Afi minn var rosalega góður maður. Hann var alltaf í góðu skapi og mikill brandarakall. Mér fannst svo gott að koma til Íslands af því afi beið alltaf eftir okkur brosandi á flugvellinum. Ég sakna hans og þess að horfa með honum á fótboltann í sjónvarpinu.

Ívar Alexandre Ruiz Kolbrúnarson.

Nú er afi ekki með okkur lengur. Ég mun aldrei gleyma honum og hvernig hann var. Hann var góður og fyndinn maður. Alltaf að fylgjast með íþróttunum og spyrja mig hvernig mér gengi í fótboltanum í Noregi. Honum þótti kaffi líka mjög gott og drakk oft bónuskaffi úr pínulitlum bolla. Þegar hann var spurður út í þetta var honum mjög skemmt og sagði að dýrt kaffi væri vont á bragðið. Svo fór hann inn á skrifstofu með kaffibollann sinn í náttfötunum. Afi minn var ljúfur og góður maður. Alltaf í góðu skapi. Ég mun alltaf sakna hans.

Alvar Áki Ruiz

Kolbrúnarson.

24. febrúar var fallegur sólríkur dagur. Ekki átti ég von á því að elsku bróðir minn Ragnar yrði bráðkvaddur þá um kvöldið. Við mannfólkið fáum engu að ráða. Ragnar var svo lánsamur að eiga 77 ár að baki. Það má þakka fyrir það.

Við systkinin erum fjögur, tvennir tvíburar með rúmlega þremur árum á milli eldra setts, Ólafur Hinrik og Oddný Margrét og yngra setts, Kristín Ragnhildur og Ragnar Ragnarsbörn. Foreldrar okkar voru Ragnar Ólafsson hæstaréttarlögmaður og endurskoðandi og Kristín Ólafsson húsmóðir.

Ragnar hafði einstaklega góða nærveru, var hugulsamur og kappsamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, yfirvegaður og traustur, vildi öllum vel. Hann minnti á föður okkar. Frá unga aldri stundaði hann íþróttir, borðtennis varð hans hugðarefni. Byrjaði í bílskúrnum heima í Hörgshlíð 28 að spila. Varð margfaldur meistari í borðtennis. Vinnuherbergi hans ber vott um það, bikarar og gull o.fl. en hæverskur var hann, talaði ekki um sín afrek eða sigra.

Ragnar var mjög vinnusamur og mikill námsmaður, varð stúdent frá MR 1964 og útskrifaðist verkfræðingur frá HÍ og Kaupmannahöfn. Starfaði lengst af hjá Fjarhitun, var meðeigandi þar. Sá um útgáfu Árbókar verkfræðingafélagsins. Seinni árin kennari hjá HR um tíma og síðar starfaði hann með Óla bróður okkar í fyrirtæki hans Patice ehf. Ragnari tókst að klára niðjatal forfeðra okkar frá Kanada fyrir jól 2021 eftir mikla útrás og vinnu. Honum var augljóslega ætlað að klára það verkefni.

Á okkar yngri árum sagði Ragnar við mig í gríni að kona hans skyldi vera falleg, vel greind og myndarleg húsmóðir. Þau fundu hvort annað en í kaupbæti var hún mjög tónelsk og spilaði á píanó sem var góður kostur. Þau eignuðust yndislegar dætur, Kolbrúnu Rut fræðimann og kennara og Kristínu Björgu fiðluleikara og kennara. Fyrir átti Dóra Ástvald Zen Traustason tónlistarmann og skólastjóra og Ragnar átti Ásgeir Ragnarsson lögfræðing. Ragnar og Dóra áttu hamingjusamt hjónaband, vel uppalin börn og yndisleg barnabörn sem voru þeim mikils virði. Þegar stórfjölskyldan kemur saman er alltaf glatt á hjalla, spilað og sungið og barnabörnin taka þátt, eru mjög áhugasöm í tónlistinni og spila á hin ýmsu hljóðfæri. Ragnar missti ekki af þeirra tónleikum þó að hann sleppti öðrum.

Við systkinin vorum mjög samrýnd og fylgdumst hvert með öðru í gegnum árin. Í tugi ára höfum við hist á kaffihúsi og rætt málin. Þá vorum við í gamla fasanum og létum í okkur heyra. Ef Ragnari fannst við ganga of langt stoppaði hann okkur af alltaf jafn rólegur og yfirvegaður. Makar voru með öðru hvoru. Minnisstæð er ferð í sumarbústað Ragnars og Dóru í Fljótshliðinni. Eina skiptið sem við höfum verið öll saman átta yfir nótt. Makar: Geir Gunnlaugsson, Hrafnkell Ásgeirsson og Jóhanna María Lárusdóttir. Höfðinglegar móttökur og ógleymanleg ferð

Við fjölskylda mín kveðjum okkar elskulega Ragnar með hlýju og söknuði en með góðar minningar sem lifa. Elsku Dóra og fjölskylda. Megi góðir vættir vernda ykkur og styrkja í þessari miklu sorg og erfiðu tímum.

Oddný M. Ragnarsdóttir.

Tíminn er hverfull. Það sannaðist er við fengum fréttir af því að góður vinur okkar væri látinn.

Ragnar Ragnarsson verkfræðingur var vinur sem gott er að minnast og hugurinn leitar til elsku Dóru og allra góðu samverustundanna í gegnum áratugina sem við höfum átt með þeim. Raggi, eins og hann var oftast kallaður, var ljúfur í vinahópi, skarpgreindur og vel að sér á mörgum sviðum og ekki var verra þegar húmorinn og glettnin fylgdu með.

Þær eru eftirminnilegar stundirnar sem við áttum með Ragga og Dóru á heimili þeirra og í hinu fallega sumarhúsi sem þau byggðu, allt frá því að grunnur var lagður á sínum tíma. Seinna glöddumst við með þeim yfir gróskumiklum vexti trjánna sem þau gróðursettu og Raggi skipulagði af mikilli natni sem honum einum var lagið.

Raggi var mikill fjölskyldumaður og lifði fyrir eiginkonu sína, börnin og tengdabörnin þegar þau komu til sögunnar. Gleðin yfir barnabörnunum var einlæg og hafði hann mikla ánægju af því að fylgjast með þroska þeirra og njóta samvista við þau. Fráfall hans er því þeim öllum mikill missir.

Við hjónin þökkum fyrir allar hugljúfar samverustundir og vottum elsku Dóru, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að gefa þeim styrk í sorginni.

Hvíldu í friði, góði vinur!

Sólveig Helga og

Einar Long.

Allt í einu fór hann, öllum að óvörum, félagi okkar Ragnar Ragnarsson. Liðsmaður okkar í baráttunni við stirða liði. Gefandi þeirrar gleði sem litla hvíta kúlan gefur á snúinni hraðferð sinni yfir net og borð fram hjá spaðanum hinum megin. Hann var íþróttamaður, borðtennismaður, einn af frumkvöðlum íþróttarinnar sem keppnisgreinar fyrir svo sem hálfri öld. Keppnisliðin voru þá að skjóta upp kollinum víða um land, í Keflavík, Akranesi, Akureyri, það var Gerpla og það var KR, Fram, Víkingur og Örninn. Lúppið og smassið, bakhönd og forhönd voru nýyrði að taka sér stöðu og ryðja sér til rúms í hugarheimi ungra manna og kvenna. Hjalli og Hjálmtýr, Bjössi og Birkir, Tommi og Ásta, Sveina og Karólína, Stebbi, Nonni Sig. og Hjörtur og miklu fleiri tóku að skrá sig í einliðaleik, tvíliðaleik, tvenndarkeppni. Íslandsmót og flokkakeppni. Það var líf og fjör og þeir Nixon og Maó sáu til þess að velja þurfti landslið til keppni við Kínverja. Ragnar var einn af þeim og hann fór til Finnlands eða Færeyja, landsliðsmaður. Fyrsta Íslandsmót Borðtennissambands Íslands var háð 1973 og Ragnar var þar og Íslandsmeistari 1976 í tvíliðaleik með Gunnari Finnbjörns. Og ferill sigra varð langur og farsæll.

Ekki lifir íþróttahreyfing á sigrum einum saman. Til þarf þá sem eru tilbúnir til þess að axla ábyrgð, skipuleggja og miðla málum. Þar átti hreyfingin traustan mann í Ragnari, dómara, formann Arnarins, þekkingarbanka um íþróttina um allar jarðir, tilbúinn til liðveislu um lífs síns daga. Leiðsögn hans var hógvær, kímnigáfan kankvís, nærvera hans veitti traust á báðar hendur. Það er ekki annað að gera en horfast í augu við þá döpru staðreynd að hann er farinn, kemur ekki aftur. Við söknum hans og sveiflu töskunnar á sinn stað, stöku sinnum seinn en ævinlega velkominn, styrkur hverjum hópi. Fátækari kveðjum við hann, félagarnir gömlu, og sendum aðstandendum samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Eiríksson.