Hátt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu og vitund um gæði þess að búa úti á landi eru meðal skýringa á mikilli íbúafjölgun á Suðurlandi síðustu árin. Þetta segir Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknarflokks og íbúi á Selfossi. Hafdís sem er frá Ísafirði og Andri Björgvin Arnþórsson eiginmaður hennar, sem er frá Breiðumýri í Suður-Þingeyjarsýslu, kynntust í lagadeild Háskóla Íslands. Luku námi þar vorið 2017 og fóru þá strax í kjölfarið í íbúðakaup. Festu sér eign í fjölbýlishúsi við Álalæk við Selfoss. Una sér þar vel með dæturum sínum tveimur sem eru átta og fimm ára.
„Við leituðum fyrst eftir íbúð á höfuðborgarsvæðinu, en fannst verð of hátt. Fórum því nánast af rælni að skoða eignir á Selfossi. Féllum strax fyrir staðnum svo ekki varð aftur snúið. Urðum satt að segja strax ástfangin af staðnum,“ segir Hafdís Hrönn.
Þörf er á nýrri nálgun í samgöngumálum
Alla sína Selfosstíð hafa þau Hafdís Hrönn og Andri sótt vinnu til Reykjavíkur, eins og svo margir aðrir gera. Ferðalögin segir hún venjast fljótt og séu ekkert tiltökumál. Góður fjórhjóladrifinn bíll sé þó nauðsynlegur í ferðum yfir fjallið. Sviptingar í veðráttu að undanförnu með tíðum lokunum á Hellisheiði gefi þess vegna tilefni til nýrrar hugsunar í samgöngumálum. Bæta þurfi Þrengslaveginn sem sjaldnar lokast vegna ófærðar. Þess utan sé verið að efla Þorákshöfn í sessi sem inn- og útflutningshöfn sem aftur krefjist vetri vegteningar við Reykjavík. Úrbætur á leiðinni um Þrengsli séu því mikilvægt verkefni.„Samfélagið hér er mjög opið og auðvelt að gerast þátttakandi í því sem í gangi er. Hafandi áhuga á samfélaginu fór ég að skipta mér af bæjarpólitíkinni hér. Þar leiddi eitt af öðru og kom mér þangað sem ég er í dag,“ segir þingmaðurinn Hafdís Hrönn sem telur sennilegt að mikill vöxtur og íbúafjölgun á Selfossi haldi áfram. Ekkert bendi til þess að breyting verði þar á. Í fjölda landa séu jaðarbyggðir borga að styrkjast í sessi. Að því leyti sé þróun mála á Selfossi þar í kring alveg eftir bókinni.