Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Stríðið hefur verið mér mikið áfall en mér finnst mjög fallegt hvernig Íslendingar nálgast það með því að vilja hlúa að fólkinu sem er fórnarlömb þess. Það skiptir öllu máli að missa ekki vonina og kærleikann,“ segir Alexandra Chernyshova tónlistarkona.
Mikil friðarmessa og styrktartónleikar verða haldnir í Bústaðakirkju á sunnudaginn næsta klukkan 13. Alexandra, sem er sópran, kemur þar fram ásamt einvalaliði tónlistarfólks. Tekið verður við frjálsum framlögum til Hjálparstarfs kirkjunnar og mun fjármagnið renna óskipt til fólks á flótta undan stríðsátökum í Úkraínu.
Alexandra er fædd og uppalin í Kænugarði en hefur verið búsett á Íslandi síðan 2003 og á íslenskan mann og börn með honum. „Ég er fædd í Kænugarði og kláraði tónlistarskóla þar. Áður en ég fylgdi hjarta mínu og flutti til Íslands var ég fastráðin við óperuna í Kænugarði í tvö ár,“ segir söngkonan sem hefur verið búsett víða um land, til að mynda á Bakkafirði, Skagafirði og í Keflavík. Árið 2013 söng hún úkraínsk þjóðlög fyrir Íslendinga undir yfirskriftinni Stúlka frá Kænugarði og nutu tónleikarnir mikillar hylli.
Hún segir í samtali við Morgunblaðið að innrás Rússa í Úkraínu hafi verið sér áfall. Það sé sér mjög ánægjulegt að taka þátt í styrktartónleikunum á sunnudaginn. „Þetta er friðarmessa til styrktar flóttafólki. Það er hluti af þessum kærleika sem þörf er á. Við megum ekki gleyma því að við erum öll manneskjur.“
Alexandra á vini og ættingja í Úkraínu og hefur verið í sambandi við þá eftir innrásina. „Þau eru ekki að flýja úr landi. Þau eru á öruggum stað og vonast til að geta komist aftur til síns heima. Þetta fólk vill bara fá að vinna og búa á sínum heimaslóðum.“
Á tónleikunum í Bústaðakirkju mun þjóðsöngur Úkraínu óma ásamt miskunnarbæn frá Úkraínu, bæn Bortnyanskis og fleiri tónlistarperla. Séra María Guðrúnar Ágústsdóttir leiðir stundina með prestum og starfsfólki Bústaðakirkju og Grensáskirkju en Sveinn Rúnar Sigurðsson læknir flytur ávarp. Alexandra kemur fram ásamt Ragnheiði Gröndal, Guðmundi Péturssyni, Diddú, Grétu Hergils, Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni og Matthíasi Stefánssyni. Kammerkór Bústaðakirkju syngur jafnframt undir stjórn Jónasar Þóris.