Nú er verið að reisa fyrsta áfanga nýs varanlegs húss fyrir Stekkjaskóla, sem áformað er að verði tekið í gagnið á hausti komanda. Áætluð heildarstærð er 10.500 fermetrar á tveimur hæðum.
Nú er verið að reisa fyrsta áfanga nýs varanlegs húss fyrir Stekkjaskóla, sem áformað er að verði tekið í gagnið á hausti komanda. Áætluð heildarstærð er 10.500 fermetrar á tveimur hæðum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landnám í nýju hverfi á Selfossi. 103 nemendur í Stekkjaskóla. Umhverfismennt er áhersla, nýsköpun, tækni og jákvæður bragur.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hundrað nemendur og þremur betur eru í Stekkjaskóla á Selfossi; nýjasta grunnskóla landsins. Starfið hófst í ágúst á síðasta ári og var fyrstu mánuðina í bráðabirgðahúsnæði í frístundaheimilinu Bifröst við Tryggvagötu. Er nú komið í klasa timburhúsa við Heiðarstekk á Selfossi sem eru á lóðinni þar sem verið er að reisa glæsilegt skólahús. Ráðgert er að taka í notkun 1. áfanga nýbyggingarinnar seint á þessu ári sem verður rúmir 4.000 fermetrar. Áætluð endanleg heildarstærð hússins verður um 10.500 fermetrar á tveimur hæðum, en undir þaki verða, auk grunnskólans, jafnframt frístundaheimili, leikskóli, tónlistarskóli og íþróttahús.

„Að setja nýjan skóla á laggirnar er mjög áhugavert og skemmtilegt starf, en að sama skapi eru áskoranirnar margar,“ segir Hilmar Björgvinsson skólastjóri. Hann á að baki langan feril sem skólamaður og tók við núverandi starfi í byrjun síðasta árs. Þá var skólinn aðeins áform og áætlun. Ekki ákveðið hvernig standa ætti að kennslu og öðru starfi sem hefjast skyldi haustið 2021. Slíkt skyldi vera hlutverk Hilmars og fljótlega var Ástrós Rún Sigurðardóttir ráðin aðstoðarskólastjóri. Skólastarfið í núverandi mynd er þeirra útfærsla og eðlilega margra fleiri.

Nýjungar í þróun

Í dag sækja Stekkjaskóla nemendur í 1.-4. bekk, það eru börn fædd 2012, 2013, 2014 og 2015. Næsta vetur bætist 5. bekkur við skólann og svo fleiri á næstu árum. Árið 2027 er svo ráðgert að skólinn verði fullsetinn; það er heildstæður grunnskóli frá 1.-10. bekk.

Skólinn er sem fyrr segir við götuna Heiðarstekk, sem er í svonefndu Björkurstykki sem er nýjasta hverfið á Selfossi og í hraðri uppbyggingu nú. Einmitt úr þeirri byggð koma nemendur skólans sem og úr hverfum syðst og vestast í bænum.

„Í nýjum skóla, þar sem byrjað er frá grunni í orðsins fyllstu merkingu, gefst svigrúm til að koma með ýmsar skemmtilegar áherslur og nýjungar, þróa þær áfram og gera að hefðum,“ segir Hilmar Björgvinsson. Þannig byggist starfið í Stekkjaskóla á fjórum stoðum, það er hópvinna og -kennsla, umhverfismennt, skapandi skólastarf með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti, nýsköpun, tækni, handverk og listir og síðast en ekki síst jákvæður skólabragur þar sem gleði og vellíðan nemenda og starfsmanna skiptir öllu máli.

Samkvæmt þessu er unnið, meðal annars í sérstöku þróunarverkefni undir leiðsögn Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors hjá menntavísindasviði Háskóla Íslands. Verkefnið nýlega fékk styrk úr Sprotasjóði og hefur það fengið nafnið Stekkur til framtíðar .

Spjaldtölvur og vélmenni

„Hér í Stekkjaskóla höfum við einsett okkur að vera framarlega í allri þróun með skapandi skólastarfi. Notum hér fjölbreytt kennslugögn, til dæmis spjaldtölvur, gagnvirka skjái og forritunarvélmenni með öllum þeim skemmtilegu möguleikum sem slíkum tækjum fylgja. Fjölbreytt kennslutæki og teymiskennsla hefur frá fyrstu stundu verið áherslumál hér og þar þurfa allir að vera með í liði. Út frá því réðum við kennara og starfsfólk hingað inn; fólk í 24 störf sem 167 umsækjendur voru um. Við vorum virkilega lánsöm því við fengum framúrskarandi og áhugasamt starfsfólk,“ segir Hilmar og að síðustu:

„Í hópkennslu eru að jafnaði tveir til þrír umsjónarkennarar í samstarfi með nemendahóp en slíkt fer eftir fjölda nemenda í árgangi. Nýbygging skólans mun taka mið af slíku starfi, sem eru orðnir viðteknir kennsluhættir í nútímanum. Annars erum við á góðum vegi í dag, á fyrsta starfsári skólans. Í Stekkjaskóla eru skemmtilegir og glaðir nemendur sem hafa aðlagast nýjum skóla vel. Við höfum átt gott og farsælt samstarf við foreldra í vetur og hlökkum til að að byggja upp öflugt starf í samstarfi við samfélagið.“