Ingveldur Hafdís Guðmundsdóttir fæddist í Keflavík 23. desember 1923. Hún lést á Hrafnistu, Nesvöllum í Reykjanesbæ 6. mars 2022.

Foreldrar hennar: Sigurðína Ingibjörg Jóramsdóttir, f. 1903, d. 1975, og Guðmundur Júlíus Magnússon, f. 1897, d. 1975. Systkini Ingveldar: Sigurður Breiðfjörð, f. 1922, d. 1996, Ingvar Guðmundur, f. 1928, d. 2021, Svanhildur, f. 1933, Jórunn, f. 1941, og Guðrún, f. 1945.

Eiginmaður Ingveldar var Sighvatur Jón Gíslason, f. 1920, d. 2001. Foreldrar hans: Steinunn Stefanía Steinsdóttir, f. 1895, d. 1944, og Gísli Sighvatsson, f. 1889, d. 1981. Ingveldur og Sighvatur bjuggu öll sín búskaparár í Keflavík og lengst af á Suðurgötu 49 þar í bæ. Börn þeirra: 1) Gísli Steinar, f. 1943. K. Ólöf Steinunn Ólafsdóttir, f. 1949. Dætur þeirra: a) Inga Sif, f. 1968. M. Sigurþór Þórarinsson, f. 1966. Börn þeirra: Sigurþór Ingi og Ólöf Jóhanna. Fyrir átti Inga Sif soninn Gísla Steinar Sverrisson. b) Ólöf, f. 1969. M. Björn S. Stefánsson, f. 1968. Börn þeirra: Stefán Ingi og Rakel Dís. K. Stefáns Inga er Signý Antonsdóttir. Börn þeirra: Helena og Björn Fannar. M. Rakelar er Kristófer Kristjánsson, barn þeirra: Klara Sif. c) Helga Hafdís, f. 1975. M. Styrmir Freyr Böðvarsson, f. 1971. Synir þeirra: Ólafur Ingi og Birgir Þór. 2) Sigrún, f. 1945. M. Karl Georg Magnússon, f. 1949. Börn þeirra: a) Hilmar Þór, f. 1973. K. Halldóra Hálfdánardóttir, f. 1974. Börn þeirra: Diljá, Hálfdán og Darri. b) Ingveldur Hafdís, f. 1976. M. Hlöðver Geir Tómasson, f. 1976. Börn hennar: Orri og Sóldís. c) Guðlaug Björk, f. 1977. M. Birgir Guðfinnsson, f. 1972. Börn þeirra: Karl Ísak og Sigrún María. 3) Steinunn, f. 1950. M. Gunnar Þórarinsson, f. 1949. Börn þeirra: a) Guðni Þór, f. 1971. K. Guðrún Pálsdóttir, f. 1975. Börn þeirra: Árni Þór, Halldór Daði, Gunnar Páll og Hanna Steinunn. b) Sighvatur Ingi, f. 1975. K. Þóra Kristín Sveinsdóttir, f. 1979. Börn þeirra: Ingi Þór, Steinunn Ástrós, Viktor Logi og Eva Dís. c) Guðlaug Sunna, f. 1979. M. Bjarni Sæmundsson, f. 1977. Börn þeirra: Elín, Brynjar og Sæmundur. Fyrir átti Bjarni soninn Breka. 4) Guðmundur Ómar, f. 1958. K. Kristín Haraldsdóttir, f. 1958, d. 2008. Börn þeirra: a) Haraldur Freyr, f. 1981. K. Freyja Sigurðardóttir, f. 1981. Börn þeirra: Aron Freyr, Emil Gauti og Kristín. Fyrir átti Freyja soninn Jökul Mána Jakobsson. b) Bryndís, f. 1988. M. Róbert Örn Ólafsson, f. 1992. Börn þeirra: Ólafur Kári og Guðmundur Helgi. c) Íris, f. 1990. M. Ingvar Jónsson, f. 1989. Börn þeirra: Kristín og Elvar. Sambýliskona Guðmundar Ómars er Erna Reynaldsdóttir, f. 1965.

Ingveldur Hafdís lauk hefðbundnu grunnnámi við barna- og unglingaskólann í Keflavík. Skólaárið 1940-41 stundaði hún nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Á miðjum aldri hóf hún störf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fljótlega í framhaldi af því lauk hún sjúkraliðanámi. Hún starfaði við þá stofnun til starfsloka eða í liðlega þrjátíu ár. Hún kom talsvert að félagsmálum. Var um árabil virk í starfi Kvenfélags Keflavíkur og í Suðurnesjadeild Sjúkraliðafélags Íslands.

Útför hennar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 17. mars 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kær móðir okkar, Ingveldur Hafdís, er látin og komið að kveðjustund. Með henni er gengin mikilhæf og góð kona sem með breytni sinni ávann sér virðingu og vináttu samferðamanna og væntumþykju afkomenda sinna. Heimili okkar stóð við Suðurgötuna í Keflavík og þar ólumst við systkinin upp við ástríki foreldra okkar. Faðir okkar vann lengst af vaktavinnu og var okkur eftirlátur um flest og kom það því fremur í hlut móður okkar að fylgja uppeldinu eftir og lífsspeki þeirra beggja. Að sinna bæri námi og störfum af samviskusemi og trúmennsku. Að vera heiðarleg í framgöngu við samferðamenn og umburðarlynd í samskiptum við náungann með þeim fyrirvara þó að ekki væri gengið á okkar hlut. Móðir okkar var heimavinnandi meðan við systkinin vorum að vaxa úr grasi en á miðjum aldri hóf hún umönnunarstörf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og lauk í framhaldi af því sjúkraliðanámi. Þar starfaði hún til sjötugs og var virt og vinsæl á vinnustað og naut þar mannkosta sinna sem fólust í dugnaði og samviskusemi. Félagslyndi og þörfin fyrir samskipti við annað fólk var rík í fari móður okkar. Hún var ættrækin og gerði sér far um að viðhalda góðum tengslum við ættmenni sín. Hún hafði yndi af því að spjalla um menn og málefni, las mikið og fylgdist vel með öllum hræringum í þjóðlífinu. Og iðulega ræddi hún um æskuár sín í Keflavík. Það var ekki auður í garði á æskuheimili hennar fremur en almennt var á alþýðuheimilum á kreppuárunum kringum 1930. Lífsbaráttan var erfið á þeim árum og óhóf og munaður framandi hugtök en þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem við var að glíma var heiðríkja yfir minningum hennar frá æskuárunum. Hún gat verið þykkjuþung ef henni var misboðið en oftast var það ljúfmennskan, þægilegt viðmót og umhyggjan fyrir sínum nánustu sem var mest áberandi í fari hennar. Hún fylgdist náið með afkomendum sínum, hvatti þá til dáða og gladdist með hverjum góðum áfanga sem þeir náðu í leik, námi og starfi. Hún hafði yndi af hvers konar handverki og var á langri ævi afkastamikil á því sviði og nutu hennar nánustu góðs af listilega gerðum hlutum hennar hvort heldur voru flíkur eða skrautmunir sem hún gaf af örlæti sínu. Eftir lát föður okkar árið 2001 hélt móðir okkar heimili enn um sinn en síðustu ár ævinnar dvaldi hún fyrst á hjúkrunarheimilinu Garðvangi og síðar á Nesvöllum í Reykjanesbæ og undi hag sínum vel á báðum stöðum. Smám saman hin síðustu ár þvarr líkamlegur þróttur og þurfti hún á stuðningi starfsfólksins að halda og sá stuðningur var veittur af alúð og kostgæfni og fyrir það þökkum við systkinin af alhug.

Farsælli og langri ævi er lokið. Með söknuði kveðjum við móður okkar en umfram allt með þakklæti fyrir allt sem hún var okkur. Minningin um stolta kjarnakonu og ættmóður sem bjó yfir andlegum styrk, fádæma vinnusemi og elsku til allra þeirra sem stóðu henni næst mun í heiðri höfð hjá afkomendum hennar um ókomin ár. Blessuð sé minning hennar.

Gísli Steinar, Sigrún, Steinunn og Guðmundur Ómar.

Í dag kveðjum við ömmu í Keflavík sem okkur þótti svo vænt um alla tíð. Við systur ólumst upp í Neskaupstað en fengum okkar gæðatíma á sumrin með ömmu og afa í Keflavík en þar eyddi fjölskyldan öllum sínum sumarfríum. Það var tilhlökkunarefni þegar sá tími ársins kom. Síðar kusum við systur að fara í Fjölbraut Suðurnesja og vorum þau árin til heimils hjá ömmu og afa og eigum ljúfar minningar frá þeim tíma. Gæska þeirra og umhyggja fer okkur seint úr minni. Oft áttum við samtöl við ömmu um lífið og tilveruna. Hún hafði sterkar skoðanir og stundum var fjör á heimilinu þegar frændfólk kom í heimsókn og þjóðfélagsmál bar á góma. Amma var kvenskörungur og við minnumst hennar sem konu sem gekk í öll verk hvort heldur sneri að viðhaldi á fallega húsinu þeirra, vinnu í garðinum og svo var hún húsmóðir eins og þær gerast bestar. Amma var mikil handverkskona og fengum við og börnin okkar að njóta þess. Elsku hjartans amma, við viljum þakka þér fyrir alla þá elsku sem þú sýndir okkur systrum og fjölskyldum okkar.

Þínar sonardætur,

Inga Sif, Ólöf (Lóló) og Helga Hafdís.

Nú hefur hún elskulega systir okkar Inga kvatt þennan heim og haldið í sumarlandið, eftir langa og farsæla ævi. Minningarnar hrannast upp, mikið var nú gott að sitja með henni við borðið góða í notalega herberginu hennar að Nesvöllum og horfa yfir til Keflavíkur, spjalla um gömlu dagana og um daginn og veginn, þá var það oft sem hún horfði út og sagði „mikið lifandis ósköp er af bílunum“.

Inga gat verið gamansöm og hnyttin í svörum og sagði umbúðalaust álit sitt á hlutum og málefnum. Nú síðla janúarmánaðar hittum við vel á hana, þar sem við gátum spjallað og hún tekið þátt í umræðunum þó svo hún lægi fyrir. Þegar við kvöddum hana sögðum við í gamni, þú verður nú búin að baka þegar við komum næst, og hún svaraði „æ, ég held ég nenni því ekki“.

Við systkinin vorum sex, öll fædd í Keflavík, bjuggum lengst af á Kirkjuvegi 28 og þar hóf Inga systir sinn búskap í kjallaranum, með manni sínum Sighvati Gíslasyni. Þar fæddust börnin þeirra, Gísli og Sigrún, en þau voru á svipuðum aldri og við yngri systur Ingu.

Inga og Sighvatur fluttu í eigið hús að Suðurgötu 49 í Keflavík og mikið fannst okkur systrunum gaman að heimsækja þau upp á hæð, en það þótti drjúgur spotti að fara í þá daga. Börn Ingu og Sighvatar urðu fjögur, í hópinn bættust Steinunn og Guðmundur. Mikil tengsl eru á milli fjölskyldna okkar, á árum áður héldum við sameiginlegar jólaskemmtanir og fórum í sumarútilegur.

Lífið hjá Ingu var ekki alltaf dans á rósum, hún fékk mörg verkefni að gíma við á sinni löngu ævi, en hún stóð alltaf sína plikt.

Hún fór í sjúkraliðanám þegar hún var um fimmtugt og vann sem sjúkraliði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, allt til starfsloka. Inga var virk í félagi sjúkraliða og bar hlýjan hug til þeirra sem hún kynntist tengt námi og starfi.

Inga systir var ein af fyrstu íbúum sem fluttu inn á Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum, hún hafði oft orð á því hvað allir væru þar góðir við hana og hvað henni liði þarna vel. Nú erum við þrjár systurnar eftir af systkinahópnum, en Sigurður bróðir lést 31. janúar 1996 og Ingvar lést 13. nóvember 2021.

Kæra systir, það var fátt sem þú nenntir ekki að gera, enda var margt sem lífið bauð upp á. Þú kenndir okkur að takast á við lífið af æðruleysi, þrautseigju og væntumþykju. Covid var öllum erfitt, ekki síst þeim sem bjuggu á hjúkrunarheimilum, með takmarkaðar heimsóknir ættingja og vina, þú smitaðist af Covid í febrúar sl., það fór illa með þrek þitt. En nú sjáum við þig frjálsa og geislandi glaða, vitum að það er vel tekið á móti þér af Sighvati, mömmu, pabba, bræðrum okkar og ömmu.

Sendum Gísla, Sigrúnu, Steinunni, Guðmundi og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Svanhildur, Jórunn,

Guðrún og fjölskyldur.