Æfing í Selfosshöllinni eftir skóla hjá 6. flokki hjá knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss. Tilþrif og takta kennir Danijel Majkic sem er þjálfari, auk þess að leika með meistaraflokki.
Æfing í Selfosshöllinni eftir skóla hjá 6. flokki hjá knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss. Tilþrif og takta kennir Danijel Majkic sem er þjálfari, auk þess að leika með meistaraflokki. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íþróttir í Selfosshöll. Uppbygging aðstöðu skilar sér margfalt. Um 1.000 iðkendur mæta í húsið daglega. Sveinbjörn í starfi fyrir knattspyrnuna í 14 ár.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ætla má að um 1.000 manns mæti á hverjum virkum degi í Selfosshöllina, fjölnota íþróttahús sem tekið var í notkun í október á síðasta ári. Höllin er alls um 6.500 fermetrar að flatarmáli og skiptist í æfingaaðstöðu fyrir fjálsar íþróttir og knattspyrnuvöll sem er 64 metrar á breidd og 54 metrar á lengd. Með skilrúmum má svo stúka völlinn í tvennt. Oft er einmitt þörf á slíku því hver stund í húsinu til æfinga er umsetin og mikilvægt að sem flestir fái tækifæri.

Bygging sem bætti úr brýnni þörf

„Hér er iðandi mannlíf frá því fyrir klukkan átta á morgnana og fram á kvöld og hingað kemur fólk á öllum aldri,“ segir Sveinbjörn Másson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss. Deildin hefur fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar umsjón með aðstöðunni á Selfossvelli, útivöllum og nú síðast íþróttahúsinu nýja sem var langþráð. Bygging þess bætti úr brýnni þörf eftir betri aðstöðu fyrir til dæmis iðkendur í yngri flokkum í knattspyrnustarfinu, sem lengi hefur verið mjög öflugt á Selfossi. Sama má segja um frjálsu íþróttirnar. Umhverfis fótboltavöllinn er göngu- eða hlaupabraut, um 200 metra löng, sem er öllum opin.

Yngstu og elstu bæjarbúarnir

„Árborg er heilsueflandi sveitarfélag og margt í bæjarlífinu tekur mið af því. Þannig getur fólk komið hingað og gengið eftir brautunum og tekið þannig út sína daglegu þjálfun. Slíkt hefur verið mörgum mjög kærkomið í því kulda- og vetrarríki verið hefur að undanförnu. Einnig er hér á þriðjudögum og fimmtudögum heilsuefling fyrir eldri borgara, sem hefur slegið alveg í gegn, segir Sveinbjörn og heldur áfram:

„Á morgnana eru hér líka opnir tímar fyrir leikskólana og dagmömmur sem þá koma hingað með krakkana sem hér fá frábært tækifæri til að ærslast og leika sér. Þannig er Selfosshöllin, eins og húsið er kallað, samkomustaður elstu og yngstu bæjarbúanna og allra þar á milli, sem gerir þetta að einstökum stað. Uppbygging íþróttaaðstöðu skilar sér alltaf margfalt til sveitarfélagsins eins og komið hefur á daginn.“

Sveinbjörn hefur starfað fyrir fótboltann á Selfossi og sem vallarstjóri frá 2008. Hann segir að auðvitað hafi gangur mála í fótboltanum verið upp og ofan á þessum fjórtán árum. Þannig sé lífið í sínum fjölbreytileika.

„Annað vegur þó þyngra. Ævintýrið eru samskiptin við fólkið, til dæmis krakka sem hafa náð langt í sínum íþróttagreinum og nefni ég þar til dæmis fótboltamennina Viðar Örn Kjartansson, Jón Daða Böðvarsson og Guðmund Þórarinsson. Raunar koma alveg ótrúlega margir hingað á Selfossvöll til æfinga eða sem áhorfendur; eru blanda sér í leikinn hver með sínu móti og lifa og hrærast í því samfélagi. Það gefur mér mikið,“ segir Sveinbjörn Másson.