Starfsfólki borgarinnar hefur fjölgað um 20 prósent á undanförnum fjórum árum. Því fjölgaði sum sé mun meira en borgarbúum á sama tímabili.
Fulltrúar atvinnulífsins hafa gagnrýnt þessa útþenslu sem bitnar oft á fyrirtækjum en sem dæmi má nefna samráðsleysi borgarinnar við upplýsingatækniiðnaðinn þegar kemur að stafrænni umbreytingu Reykjavíkur. Verkefnið er eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og ljóst þykir að fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaði hafa misst frá sér starfsfólk til hins opinbera vegna þess að borgin kýs að ráðast í samkeppni við einkaaðila í stað samstarfs.
Skrifstofustjóri yfir skrifstofustjóra
Í barnslegri bjartsýni mætti ætla að þjónusta og upplýsingagjöf borgarinnar hefði batnað við allar þessar mannaráðningar, þar sem skrifstofustjóri er ráðinn yfir skrifstofustjóra, verkefnastjóri yfir verkefnastjóra og upplýsingafulltrúi yfir upplýsingafulltrúa – það er þó fjarri lagi. Í að verða þrjá áratugi hefur Samfylkingin haldið nær óslitið um stjórnartauma borgarinnar. Á þeim tíma hafa skuldir vaxið gríðarlega, kerfið þanist út og starfsfólki fjölgað án þess þó að íbúar borgarinnar hafi orðið varir við bætta þjónustu eða upplýsingagjöf. Á sama tíma hafa grunnskólar borgarinnar grotnað niður og myglað vegna viðhaldsleysis og ekki að sjá að yfirvöld hafi skeytt um heilsu barna eða starfsfólks skólanna. Biðlistar leikskólanna lengjast í borginni og á meðan flest sveitarfélög landsins setja sér markmið um að innrita börn á leikskóla við 12 mánaða aldur eða yngri setur borgin sér það viðmið að innrita börn um 18 mánaða aldur og auk þess gengur illa að fá starfsfólk.
Þjónustum borgarbúa en ekki báknið
Þjónusta við fólkið í borginni hefur mætt afgangi þótt sífellt meiri peningum sé eytt í að stækka báknið. Ég trúi því að með nýrri og lausnamiðaðri hugsun megi leysa vanda fjölskyldufólks, bæði húsnæðisvandann og seinagang í borgarkerfinu, og eyða ákvarðanafælni. Undanfarin tvö ár hafa minnt okkur á það hvað borgir eiga að leggja áherslu á en það er þjónusta við fólk. Ég vil leggja mitt af mörkum til að taka til í borginni og bæta þjónustu við borgarbúa.Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.