Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Ráðgert er að 15 fermetra tilraunahús úr hampsteypu rísi á suðvesturhluta landsins í sumar. Allt efnið í smáhýsinu verður náttúrulegt; trefjar úr iðnaðarhampi, kalk og vatn sem saman mynda hampsteypuna, burðarvirkið úr trégrind en engin þörf er á steypustyrktarjárni eins og í hefðbundnum steyptum vegg. Útveggir eiga að anda vel og því ætti ekki að þurfa að glíma við myglu. Sé vilji til að mála húsið er ekkert á móti því, en nota þarf vistvæna málningu sem andar.
Það er Anna Kristín Karlsdóttir arkitekt og samstarfsfólk hennar hjá Lúdika-arkitektum sem standa fyrir verkefninu. Þau hlutu í vikunni einnar milljónar króna styrk frá Hönnunarsjóði sem úthlutaði 28 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 18 ferðastyrkjum. Að þessu sinni var 25 milljónum úthlutað en alls bárust 86 umsóknir um rúmar 188 milljónir í almenna styrki.
Verkefni Lúdika kallast Biobuilding og í umsögn segir: „Tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem kynnir hina aldagömlu aðferð að nota iðnaðarhamp sem nútímabyggingarefni sem ræktað er hér á landi og aðlaga það staðbundnu loftslagi og aðstæðum. Fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni.“
Anna Kristín segir að hampsteypa sé sterkt efni, en í ár verður meðal annars kannað hvernig hún stenst íslenskar aðstæður. „Hún þarf að þola álag eins og veðrið hefur verið í vetur. Í tilraunahúsinu verða álagsfletir bæði með hampsteypu með náttúrulegri múrhúð eða timburklæðningu þannig að við sjáum hvernig mismunandi efni þola veðurálagið. Við höfum fulla trú á að þetta náttúrulega efni standist íslenskar aðstæður.“
Ræktendum hefur fjölgað
Ræktendum iðnaðarhamps hefur fjölgað mjög hérlendis síðustu ár, að sögn Önnu Kristínar, og er ýmist að þessi hávaxna, einæra jurt sé ræktuð á nokkrum hekturum eða minni spildum. Fyrstu skrefin í verkefninu verði að hafa samband við ræktendur og kanna gæði hampsins og mögulegt framboð á efni sem hægt sé að nota í byggingar. Auk þess sem þau hyggjast rannsaka mismunandi byggingaraðferðir og hvernig þær nýtast miðað við íslenskar aðstæður í samstarfi við þverfaglegt teymi. Einkum er fyrirhugað að nota trefjaríkt kurl úr stofni hampsins.Undanþága var veitt 2020 fyrir innflutningi á fræjum iðnaðarhamps og í fyrra var lögunum breytt. Heimild til innflutnings er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%.
Miklir möguleikar
„Við sækjum hugmyndir okkar að hluta til Evrópu, en Frakkland er leiðandi í nýtingu á iðnaðarhampi sem byggingarefni,“ segir Anna Kristín. „Við höfum einnig talað við sérfræðinga í Írlandi, sem hafa verið okkur innan handar. Það er líka heilmikið að gerast í þessu í Skotlandi, Skandinavíu og reyndar víða um heim. Mönnum hefur á síðustu árum sífellt orðið betur ljóst hversu miklir möguleikar eru á nýtingu hampsins.“Í grein á Vísindavefnum 2015 kom fram að iðnaðarhampur er nýttur á ótrúlega marga og ólíka vegu og hátt í 25 þúsund mismunandi vöruflokkar voru þá framleiddir úr honum. Auk þess að nota hampinn sem byggingarefni má nefna að nýtingarmöguleikar afurða geta tengst fatnaði, pappír, eldsneyti, matvælum og snyrtivörum svo dæmi séu nefnd.