Á mánudag skrifaði Ingólfur Ómar Ármannsson á netið:
Tregða sækir mjög að mér
mikið er það sligandi.
Skítaveður úti er
ekki hundi út sigandi.
Á laugardag skrifaði Sigtryggur Jónsson á Boðnarmjöð:
Víst er nú að vorar enn,
vetur eftir gefur.
Vötn og lækir lífgast senn,
lifnar blóm er sefur.
Hallmundur Guðmundsson fékk sér „Göngutúr“:
Í sandala hress ég hoppaði.
Hind sem væri svo skoppaði.
En mig sótti þreyta
og mátti því leita
- að mjaðarbar sem á droppaði.
Dagbjartur Dagbjartsson spyr: „Hvað er með þessa mánudaga?“
Merkilegt er margt sem skeður
í mannheimum og hér og þar.
Iðulega vanfært veður
verður eftir helgarnar.
Hólmfríður Bjartmarsdóttir veltir þessari spurningu upp: „Var ekki einhver að tala um alþjóðlegan baráttudag kvenna?“
Ef hafa skal á hlutum eitthvert lag
og hjónaband verja doða og falli
þarf að nöldra þrjá tíma á dag.
Þannig stend ég vel í mínum kalli.
Og á sunnudag skrifaði Hólmfríður: „Þessi er úr skúffunni en á við í dag:“
Ef bylrytjan hætti þá blánar hann flóinn
og birkitré kolsvart af skaflinum sér:
sól skína á glugga, glampa á sjóinn.
og glaðlegar öldurnar hvítna við sker.
Ef góðviðrið endist þá grænkar hann móinn
og gæsirnar koma á túnið hjá mér.
Og Ingólfur Ómar: „Nú er sól og blíða á suðvesturhorninu þessa stundina. Er á meðan er.“
Eyðir harmi léttir lund
ljós og varma eykur.
Sólarbjarmi baðar grund
bros um hvarma leikur.
Jón Jens Kristjánsson skrifar: „Það sló í brýnu milli Lilju Alfreðsdóttur og þingmanna Viðreisnar út af veiðigjöldum á þingi í dag:“
Mættu sum í pontu þreytt og þrútin
þar um svörin gerð var skýlaus krafa
með hörðum orðum röktu ræðubútinn
þá reyndist ekki orpið neinum vafa
að allir vildu Lilju kveðið hafa
í kútinn.
Jón Jónsson í Árdal kvað:
Nú er Baula brúnalétt,
búin geisla-myndum.
Kraga um hálsinn hefur sett
hún úr þokulindum.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is