[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólína Þorleifsdóttir fæddist 17. mars 1927 í Neskaupstað og ólst þar upp. Hún var í sveit í Norðtungu í Borgarfirði hjá móðursystur sinni þegar hún var sex ára, og svo á Barðsnesi í Norðfiirði þegar hún var átta ára, en þá var mamma hennar kaupakona...

Ólína Þorleifsdóttir fæddist 17. mars 1927 í Neskaupstað og ólst þar upp. Hún var í sveit í Norðtungu í Borgarfirði hjá móðursystur sinni þegar hún var sex ára, og svo á Barðsnesi í Norðfiirði þegar hún var átta ára, en þá var mamma hennar kaupakona þar. „Ég var frekar feimið barn en þegar ég byrjaði í skóla sagði ég samt við skólastjórann: „Hún mamma mín segir að ég lesi nú svo vel að ég eigi að sleppa fyrsta bekk, og það varð.“ Ólína lauk svo gagnfræðaprófi í Neskaupstað 1942.

Ólína vann sem símastúlka í tvö ár á stríðsárunum. „Þar voru öll skeyti handskrifuð og aðeins einn á hverri vakt en kaupið var gott. Árið 1944 fór ég svo í Samvinnuskólann í Reykjavík og kynntist þar verðandi eiginmanni mínum, honum Björgvini frá Hofi á Eyrarbakka. Við giftum okkur á Eyrarbakka 1946 og bjuggum svo á Selfossi í fimm ár og á Seyðisfirði í 11 ár. Þegar við bjuggum á Seyðisfirði var maðurinn minn kaupfélagsstjóri, alþingismaður, bæjarfulltrúi og konsúll fyrir Norðmenn á síldarárunum. Þar voru mikil umsvif og nóg að gera á þeim árum. Frá Seyðisfirði fluttum við til Reykjavíkur og svo í Kópavoginn þar sem við bjuggum lengst.“

Ásamt húsmóðurstörfum og barnauppeldi sá Ólína um launabókhald fyrir útgerðarfyrirtækið Gletting og rak bókabúðina Norðra sem þau hjónin áttu í nokkur ár. „Þegar börnin voru farin að heiman vann ég í sjálfboðavinnu fyrir Rauða krossinn alllengi, bæði í spítalabúðunum og á bókasafninu, og sat í stjórn kvennadeildarinnar.“ Ólína starfaði líka í kirkjufélagi Digranessóknar og var í Félagi austfiskra kvenna þar sem hún var heiðursfélagi.

„Mér finnst gaman að spila og þá sérstaklega brids. Ég bý nú í Mörkinni í yndislegri íbúð og líkar þar mjög vel og spila brids þegar tækifæri gefst.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ólínu var Björgvin Jónsson, f. 15.11. 1925, d. 23.11. 1997, kaupfélagsstjóri, alþingismaður og útgerðarmaður. Ólína og Björgvin bjuggu víða, m.a. á Eyrarbakka, Selfossi, Seyðisfirði, Reykjavík en lengst af á Hlíðarvegi 2 í Kópavogi. Foreldrar Björgvins voru hjónin Jón B. Stefánsson verslunarmaður, f. 10.2. 1889, d. 19.4. 1960, og Hansína Ásta Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 20.5. 1902, d. 13.3. 1948. Þau bjuggu á Hofi á Eyrarbakka.

Börn Ólínu og Björgvins: 1) Hansína Ásta, f. 18.1. 1946, fyrrverandi kennari og bæjarfulltrúi í Kópavogi, gift Ingva Þorkelssyni, fyrrverandi framhaldsskólakennara. 2) Þorleifur, f. 16.3. 1947, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Þorlákshöfn, kvæntur Ingu Önnu Pétursdóttur, fyrrverandi hárgreiðslukonu. 3) Jón Björgvin, f. 14.1. 1949, fyrrverandi skipstjóri, kvæntur Halldóru Oddsdóttur, fyrrverandi leikskólakennara. 4) Eyþór læknir, f. 31.3. 1953, d. 22.7. 2021. Eftirlifandi eiginkona hans er Ágústa Benný Herbertsdóttir hjúkrunarfræðingur. 5) Sigurður, f. 2.2. 1955, d. 5.2. 1955. 6) Ingibjörg hjúkrunarfræðingur, f. 24.12. 1956, d. 4.11. 2020. Hún var gift Stefáni Baldurssyni, þau skildu. 7) Elín Ebba, f. 12.5. 1961, löggiltur bókari. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Sveinn Halldórsson, skipstjóri og hafnarvörður. Barnabörn Ólínu og Björgvins eru 18 og barnabarnabörn 28 og eitt barnabarnabarnabarn.

Systkini Ólínu: Þorleifur Þorleifsson, f. 2.2. 1929, d. 25.8. 2007, skipstjóri í Þorlákshöfn; Hallbjörg Eyþórsdóttir, f. 2.10. 1941, fyrrverandi afgreiðslustjóri Íslandspósts í Neskaupstað; Elínborg Eyþórsdóttir, f. 5.1. 1943, fyrrverandi gjaldkeri hjá Íslandspósti í Neskaupstað; Eygerður Sigrún Eyþórsdóttir, f. 16.2. 1944, d. 6.10. 1945.

Foreldrar Ólínu voru hjónin Þorleifur Guðjónsson, f. 8.5. 1903, d. 17.12. 1932, skipstjóri í Neskaupstað, og Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 10.8. 1903, d. 14.10. 1988, húsmóðir í Neskaupstað. Stjúpi Ólínu var Eyþór Þórðarson, f. 15.7. 1901, d. 20.7. 2000, kennari í Neskaupstað.