Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Ásgeirsson
Eftir Ásgeir Ásgeirsson: "Er það álit margra að borgin sé búin að glata þeim sjarma sem hún hafði og orðin ansi kuldaleg fyrir margar sakir."

Á hvaða leið er höfuðborgin Reykjavík? Eftir því sem ég hef séð úr fjarska þá er hún á uppleið, en ekki þeirri uppleið sem ég hefði viljað sjá.

Það hafa verið rifin hús sem jafnvel eru friðuð. Með breyttu skipulagi, sem hefur verið sveigt í valdi peninga gráðugra byggingarverkataka, geta þeir byggt sín háhýsi og makað krókinn. Hvers vegna dettur engum af þessum verktökum í hug að byggja eitthvað fyrir fólk sem hefur skoðanir á hvað það vill varðandi útlit, umhverfi, leikvelli, þjónustu og fjölskylduvænt umhverfi en þurfa ekki að kaupa íbúðir í blokkum með flötum þökum sem jafnvel leka af því að framboð er ekki á öðru húsnæði? Hefur jafnvel flutt inn í hálfkláruð hús að utan með ófrágenginni lóð enda verktakinn of upptekinn við að selja fleiri eignir.

Verslanir og önnur fyrirtæki hafa verið flæmd í burtu vegna skertrar aðkomu og hækkunar á fasteignagjöldum. Hvað er mikið af verslunarhúsnæði tómt og/eða til sölu í dag?

Ummæli kaupmanns sem flutti af Laugaveginum, Bolla Kristinssonar: „Ég gæti trúað því að allt að 70 duglegir kaupmenn hefðu flutt sig eða orðið gjaldþrota eftir að Dagur B. tók þessa vondu ákvörðun.“

Eitt frægasta hús Reykjavíkur, Bankastræti 2, Bernhöftsbakarí byggt 1834, átti að víkja fyrir einhverju nýrra; almenningur, arkitektar og sjálfboðaliðar tóku saman höndum og forðuðu því frá niðurrifi. Richard Nixon kom í heimsókn stuttu eftir að Torfan var máluð og dáðist að því hvað gömlum húsum væri vel við haldið (Torfan). Eru þeir sem eru í skipulagsnefnd á aukalaunum hjá verktökum? Nú á dögum fer flest fram á Facebook, skoðanaskipti sem annað sem fólki er kært um og vill ræða. Síða var stofnuð til þess að geta tjáð sig um byggingar í höfuðborginni og er álit margra að borgin sé búin að glata þeim sjarma sem hún hafði og orðin ansi kuldaleg fyrir margar sakir. Oft er ráðist á arkitekta; þeir hanna fyrir þá sem hafa peningavaldið og borga verk þeirra. Einstaka hús og byggingar falla mjög vel að umhverfinu og er það vel.

Gamli bærinn er á hröðu undanhaldi fyrir gráum kössum. Hvað þarf til þess að yfirvöld vakni upp af ljótum draumi og hugsi eitthvað um álit og vilja almennings um hvernig hann vill hafa borgina?

Það er of seint að byrgja brunninn eftir að barnið er fallið ofan í!

Þolir Reykjavík annað kjörtímabil með Dag B. í forystu?

https://www.facebook.com/groups/arkitekturuppreisnin

Ég bara spyr?

Höfundur er rafsuðukarl, grafískur hönnuður, skiltagerðarmaður, trésmiður, módelsmiður og frístundaarkitekt. DifferentCreations@gmail.com

Höf.: Ásgeir Ásgeirsson