Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það á að gera þetta á mjög veglegan hátt,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands. Í ár er hálf öld liðin frá einvígi aldarinnar svonefndu, þegar skákmeistararnir Boris Spassky og Bobby Fischer mættust í Laugardalshöll. Skáksambandið hyggst standa fyrir mikilli afmælishátíð af þessu tilefni í lok október. Aðaldagskrárliður hátíðarinnar verður heimsmeistaramót í svokallaðri Fischer-slembiskák. Þátttakendur verða á bilinu 6-10, þar á meðal heimsmeistarinn í skák, hinn norski Magnús Carlsen. Þá segir Gunnar að frágengið sé að núverandi heimsmeistari í slembiskák, Bandaríkjamaðurinn Wesley So, verði meðal þátttakenda auk fulltrúa okkar Íslendinga.
„Magnús Carlsen sjálfur er mikill Íslandsvinur og er sem slíkur ákaflega mikilvægur þegar kemur að undirbúningi og kynningu slíks móts hérlendis. Hann sló fyrst almennilega í gegn á alþjóðlegu móti í Nasa árið 2004 þegar hann gerði sér lítið fyrir og gerði jafntefli við Garry Kasparov og hefur borið miklar taugar til lands og þjóðar síðan. Kasparov yrði boðið að vera með en líklegra er að hann kysi að koma sem gestur,“ segir í kynningu Skáksambandsins á mótinu sem send var til Reykjavíkurborgar þar sem óskað var eftir styrk. Borgarráð sendi styrkbeiðnina til umsagnar í íþrótta- og tómstundaráði og menningar- og ferðamálaráði. ÍTR afgreiddi málið með þeim orðum að umsóknarfrestur um styrki til borgarinnar hefði runnið út í október á síðasta ári og styrkir verið afgreiddir. Erindi Skáksambandsins hlyti því ekki stuðning. Samkvæmt upplýsingum blaðsins verður ákvörðun um styrkveitingu þó á endanum tekin í borgarráði.
Mikill kostnaður fylgir þessari veglegu afmælishátíð og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 195 milljónir króna. Þegar hefur fengist vilyrði frá ríkisstjórninni um 43 milljóna styrk og óskar Skáksambandið eftir sömu upphæð frá borginni. Tæpar 100 milljónir á að sækja til annarra styrktaraðila.
Ýmislegt fleira er á teikniborðinu, til að mynda kvennamót í samstarfi við Alþjóðaskáksambandið en árið 2022 er ár kvennaskákar, sýning á munum úr einvíginu, málþing og fyrirlestrar um einvígið auk gerð heimildarmyndar og fjöltefli Magnúsar Carlsen. Gunnar kveðst gera ráð fyrir því að aðalmótið verði sýnt í beinni útsendingu á RÚV og NRK og að nokkur hundruð erlendra gesta kæmu til Reykjavíkur af þessu tilefni. Leitað er að heppilegu húsnæði fyrir aðalmótið eftir að í ljós kom að Harpa er bókuð á þeim tíma sem það verður haldið.
„Einvígi aldarinnar er sennilega merkasti skákviðburður allra tíma og við þurfum að sýna því viðeigandi sóma. Þess vegna leitum við nú styrkja og stuðnings en umfang viðburðarins fer eftir því hvernig það gengur,“ segir Gunnar.