Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Fiskistofa vekur athygli á mikilvægi þess að sleppa lífvænlegum hlýra í tilkynningu á vef stofnunarinnar. Hlýrastofninn við Ísland stendur höllum fæti og hefur verið á undanhaldi allt frá árinu 1996.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fiskistofa vekur athygli á mikilvægi þess að sleppa lífvænlegum hlýra í tilkynningu á vef stofnunarinnar. Hlýrastofninn við Ísland stendur höllum fæti og hefur verið á undanhaldi allt frá árinu 1996.

Samkvæmt aflaupplýsingum á vef stofnunarinnar hefur frá upphafi fiskveiðiársins 1. september 2021 þar til dagsins í dag verið landað rétt rúmu 571 tonni af hlýra en það er 194 tonnum umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

„Hlýri er tegund sem á undir högg að sækja, stofninn er lítill og var hlýrinn af þeim sökum settur í aflamark, til að koma í veg fyrir ofveiði á honum. Því er afar mikilvægt að útgerðir nýti heimild til sleppingar lífvænlegs hlýra og skrái í afladagbók,“ segir í tilkynningu Fiskistofu.

Í kjölfar fundar sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og útgerðarmanna árið 2020 var ákveðið að leita heimildar til að sleppa lífvænlegum hlýra og fékkst sú heimild 14. desember sama ár. Frumathugun HAfrannsóknastofnunar hafði sýnt að „hlýri sem veiddur var í botnvörpu virtist þola 1-2 tíma í móttöku eða á færibandi áður en honum var sleppt“.