[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Ekki verður séð af svörum heilbrigðisáðherra á Alþingi að nokkur undanþága hafi verið veitt fyrir því að gestir við afhendingu bókmenntaverðlauna á Bessastöðum þyrftu að bera andlitsgrímur líkt og sóttvarnareglur kváðu skýrt um. Bæði forsetaritari og útvarpsstjóri héldu því fram í janúar að einhver slík undanþága ætti við. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands baðst síðar afsökunar á því að reglunum hefði ekki verið framfylgt í sínum húsum.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um undanþágur frá sóttvarnareglum og framkvæmd þeirra í upphafi febrúar. Í svari Willums Þór Þórssonar um liðna helgi kom m.a. fram að tæplega þrjú þúsund slíkar beiðnir hefðu borist í faraldrinum. Vegna annmarka á skjalastjórnunarkerfi ráðuneytisins lægi hins vegar ekki fyrir hversu margar beiðnir hefði verið fallist á, en þær væru töluvert færri.

Töluvert var fjallað um hvernig gestir brugðu frá sóttvarnareglum við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins (Rúv.) frá Bessastöðum 25. janúar. Þá voru í gildi strangar sóttvarnareglur, sem meðal annars mæltu fyrir um skilyrðislausa grímunotkun gesta á slíkum samkomum, þar sem fleiri en tíu væru samankomnir. Talsvert fleiri voru í Bessastaðastofu þar um kvöldið, um 40 manns samkvæmt forsetaembættinu.

Þegar spurst var fyrir um hvernig á því stæði var sagt að Rúv. hefði varanlega undanþágu „Rúv. má í þessum upptökuskilyrðum, miðað við að það sé viðeigandi bil á milli fólks, vinna með 40 manns í rými,“ sagði Sif Gunnarsdóttir forsetaritari við mbl.is.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði daginn eftir í samtali við mbl.is að Rúv. hefði ekki sótt um sérstaka undanþágu hjá heilbrigðisráðuneytinu fyrir verðlaunaafhendinguna. Hins vegar hafi áður verið sótt um almenna undanþágu fyrir starfsemi Rúv. til þess að geta sent beint út frá viðburðum af þessu tagi.

„Það gengur erfiðlega að senda út stærri viðburði í tíu manna samkomutakmörkunum. Við höfum sótt um slíka undanþágu þegar þörf hefur verið á því,“ segir Stefán í samtali við Morgunblaðið. „Það er langt síðan það lá fyrir frá ráðuneytinu að reglurnar sem gilda um sviðslistir gilda líka um útsendingar og framleiðslu á sjónvarpi og kvikmyndum og slíku.“

Í svari ráðherra kom hins vegar fram að engar varanlegar undanþágur hafi verið veittar frá sóttvarnareglum.

Willum sagði einnig að engar undanþágur hefðu verið veittar vegna sérréttinda einstaklinga eða fyrirtækja sem önnur lög kunni að veita. „Undanþágur [hafa] verið veittar til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra, vegna samfélagslega ómissandi innviða sem ekki mega stöðvast, vegna kerfislega og efnahagslega mikilvægrar starfsemi og þegar sérstaklega hefur staðið á.“

Vandséð er að bein útsending Ríkisútvarpsins á verðlaunaafhendingu falli þar undir, hvorki til tímabundinnar né varanlegrar undanþágu.