Gunnar Jóhannesson
Gunnar Jóhannesson
Eftir Gunnar Jóhannesson: "Sá sem segir að allt tilkall til sannleika sé valdasýki getur ekki undanskilið sína eigin staðhæfingu."

Ég – eða öllu heldur kristin trú og kirkja (sem ég mæli nú með) – fékk ekki háa einkunn í spjalli sem ég átti við kunningja einn um daginn: Kristin trú, eins og öll trú, sagði hann, er bara fyrir þræla! Kirkjan heldur að hún hafi einhvers konar einkaleyfi á sannleikanum og að allir verði að trúa því sem hún og þú trúir. Þú mátt ekki trúa neinu öðru. Þvílíkur þrældómur. Hvernig gerir svoleiðis sannleikur nokkurn frjálsan? Það er ekkert eitt satt!

Jamm, það er það. Er það þá satt? Á það þá líka við um þína „trú“ og þann „sannleika“ sem þú gengur út frá, hefði ég getað spurt.

Var það ekki Foucault sem sagði að sannleikurinn væri fyrirbæri þessa heims sem væri haldið uppi í krafti allskonar skilmála, þvingana og takmarkana, ekki síst til þess að tryggja að valdið héldist í höndum þeirra sem vilja fara með valdið og til þess að halda hinum svo í skefjum í krafti þess valds. Margir taka undir eitthvað í þeim dúr.

Það er vissulega oft raunin að fólk taki „sannleikann“ í sína þjónustu, með eigin hagsmuni fyrir augum og á kostnað annarra. En það á auðvitað ekki við um trúað fólk frekar en annað fólk. Maðurinn er eins og hann er á öllum tímum.

En rök Foucaults og félaga ganga ekki upp enda verður sannleikshugtakinu ekki ýtt til hliðar svona auðveldlega. Eins og C.S. Lewis minnir á í einni bóka sinna mundi maður annars sitja í ómögulegri súpu:

„Þú getur ekki haldið áfram að ,útskýra burt´ út í hið óendanlega. Þú kæmist á endanum að því að þú værir búinn að útskýra útskýringuna sjálfa burt. Þú getur ekki endalaust ,séð í gegnum‘ hluti. Tilgangurinn með því að sjá í gegnum hluti er sá að sjá eitthvað annað í gegnum þá. Það er gott að glugginn er gagnsær vegna þess að gatan eða garðurinn handan hans er það ekki. En hvað ef þú sæir í gegnum garðinn líka? ... Heimur sem væri að öllu leyti gagnsær mundi vera ósýnilegur heimur. Að ,sjá í gegnum´allt er það sama og að sjá ekki neitt.“

Sá sem segir að allt tilkall til sannleika sé valdasýki getur ekki undanskilið sína eigin staðhæfingu. Sá sem segir að sannleikurinn með stóru essi sé ekki til vill engu að síður meina, býst ég við, að sú staðhæfing (skoðun, trú eða lífsskoðun eða hvað þú vilt kalla það) sé sönn og þar með staðhæfing sem ég og aðrir eigum að beygja okkur fyrir. Ef tekið er undir með Freud (læriföður Foucaults) um að allar staðhæfingar um trú sem gera tilkall til þess að vera sannar (svo sem staðhæfingin að Guð sé til o.s.frv.) sé ekkert annað en sálfræðileg flækjuleið mannsins til að takast á við eigin sektarkennd og angist frammi fyrir lífinu og eigin dauðleika (o.frv.) þá á það auðvitað líka við um staðhæfingar Freuds um trú. Sumsé: Að sjá í gegnum allt er það sama og að sjá ekki neitt. Ósamkvæmnin er augljós.

Það eru til margar útgáfur af Freud og Foucault í okkar íslenska samfélagi sem tefla fram málflutningi sínum sem sannleika (jafnvel heilögum sannleika) um leið og þeir hafna eða afneita (meðvitað eða ómeðvitað) tilvist sannleikans sem slíks – oftar en ekki til að ryðja úr vegi því sem fellur ekki að skoðunum þeirra.

Svo spurningin er ekki hvort eitthvað sé raunverulega satt, í hlutlægum skilningi (þ.e. satt fyrir alla), heldur hvað! Eins og ég sagði við kunningja minn: Annað hvort er Guð til eða ekki! Annað hvort hefur þú sem guðleysingi rétt fyrir þér í grundvallaratriðum eða ég sem guðstrúarmaður. Það er engin millivegur þar. Og ég hafði mikinn áhuga á að spinna umræðuna áfram og bauð kunningja mínum upp á það, þ.e. spurninguna um Guð og hvort til til væru skynsamlegar ástæður til að ætla að hann væri til. Hann hafði hins vegar ekki áhuga á því.

Það minnti mig á það sem Chesterton gamli sagði eitt sinn:

„Hinn nýi uppreisnarmaður er efahyggjumaður sem treystir engu ... og þess vegna getur hann aldrei verið sannur byltingarmaður, því öll andmæli og sérhver afneitun fela í sér siðferðiskenningu af einum toga eða öðrum. Nútímamaðurinn sem er í uppreisn er því í raun orðinn vita gagnslaus sem uppreisnarmaður. Með því að rísa upp gegn öllu hefur hann misst réttinn til að rísa upp gegn nokkru. Það er til hugsun sem stöðvar hugsun og það er eina hugsunin sem ætti að stöðva.“

Það mælist í öllu falli misjafnlega vel fyrir, í samfélagi sem í sívaxandi mæli aðhyllist afstæðishyggju (þar sem litið er svo á að staðhæfing verði sönn við það að einhver velji að trúa henni), að tala fyrir sannleika sem sé í eðli sínu hlutlægur, þ.e. sé ekki breytilegur frá einum til annars eða frá hópi til hóps, heldur eitthvað sem við uppgötvum fremur en að skapa eða búa til sjálf, og að það sé einfaldlega hvernig veruleikanum er í raun og veru háttað sem gerir satt að sönnu.

Höfundur er prestur.

Höf.: Gunnar Jóhannesson