Albert Guðmundsson
Albert Guðmundsson
Eftir Albert Guðmundsson: "Ég treysti engum betur en Ragnhildi Öldu til að leiða sameinaða sjálfstæðismenn til sigurs í vor."

Á morgun og laugardaginn munu sjálfstæðismenn í borginni ganga til kjörklefanna. Loksins er komið að prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mikið hefur verið fjallað um komandi prófkjör undanfarnar vikur og ljóst að margir bíða spenntir eftir úrslitum þess. Margir frambærilegir einstaklingar sækjast eftir sæti á lista og ánægjulegt er að sjá bæði kunnugleg andlit og ný. Eitt framboð stendur þó upp úr, framboð Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur í oddvitasætið.

Mér er enn þá minnisstætt þegar ég hitti Ragnhildi Öldu, betur þekkt sem Alda, í fyrsta sinn. Það var í Sjávarklasanum, árið var 2016. Ég hafði ákveðið að bjóða mig fram til formennsku í Heimdalli. Þannig var staðan að það bráðvantaði meðframbjóðanda, varaformannsefni, og tíminn var naumur. Ég þurfti að treysta á að ég gæti sannfært hana um að taka við hlutverkinu og koma með mér í þetta strembna verkefni. Frá því að hún gekk inn vissi ég að heiðurinn væri minn, að fá að fara í framboð með henni. Þarna mætti inn sólargeisli og heillaði alla upp úr skónum.

Frá því þetta var höfum við unnið mikið saman. Alda er einhver duglegasta manneskja sem ég hef hitt. Hún brennur fyrir samfélaginu, hefur mikla þekkingu á mönnum og málefnum og vill láta gott af sér leiða. Hún er útsjónarsöm, réttlát, klár og skynsöm. En á sama tíma djörf. Það útskýrir þann mikla stuðning sem hún hefur og þá djörfung að þora að taka þennan slag. Og það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf, það sem Reykjavík þarf.

Húsnæðismál og samgöngumál eru augljóslega brýnustu verkefnin fram undan. Við þeim vandamálum þurfum við útsjónarsamar, skynsamar, en á sama tíma djarfar lausnir. Ég treysti engum betur en Ragnhildi Öldu til að leysa þennan vanda og leiða sameinaða sjálfstæðismenn til sigurs í vor. Standa undir nafni og vera Alda breytinga.

Rétt eins og ég treysti Öldu þá, sem ég sé ekki eftir, ætla ég að treysta Öldu núna í borginni. Ég styð Ragnhildi Öldu í oddvitasæti sjálfstæðismanna í Reykjavík og vona að aðrir geri slíkt hið sama.

Höfundur er fyrrverandi formaður Heimdallar og varaþingmaður.

Höf.: Albert Guðmundsson