Ingibjörg Sólbjört Guðmundsdóttir fæddist 2. júní 1931. Hún lést 1. mars 2022.

Útför Ingibjargar Sólbjartar fór fram 16. mars 2022.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég minnist Ingibjargar, fyrrverandi tengdamóður minnar.

Ingibjörg var gædd mikilli manngæsku og réttlætiskennd, hafði ákveðnar skoðanir á málefnum líðandi stundar og var ófeimin við að láta þær í ljós.

Ingibjörg hafði afar þægilega nærveru og var ávallt gaman að spjalla við hana um hluti sem voru í brennidepli þá stundina. Ég heimsótti hana stundum í Gullsmárann og þar voru alltaf gómsætar veitingar á boðstólum.

Eftir að hún flutti á hjúkrunarheimili fækkaði heimsóknum mínum sem mér þótti miður. Dætrum mínum og barnabörnum þótti afar vænt um ömmu og langömmu sína og er söknuðurinn mikill.

Ingibjörg var frábær kokkur og var steikta lambalærið og kjúklingarnir í uppáhaldi hjá mörgum í fjölskyldunni ásamt ísnum góða og nýbökuðum kökum.

Allt lék í höndunum á Ingibjörgu, hún hafði yndi af sauma- og prjónaskap ásamt því að mála á fallega hluti og jólakortin hennar eru sannkölluð listaverk sem ég varðveiti á góðum stað.

Ég átti því láni að fagna að ferðast með Ingibjörgu og Hjálmari heitnum ásamt Birnu og dætrum okkar á erlendri grundu. Leigðum við okkur bíl og ókum um fallega staði í Austurríki og Þýskalandi. Þetta var ferðamáti sem okkur öllum líkaði.

Einnig hafði Ingibjörg mikið yndi af því að ferðast um Ísland og var sveitin hennar fagra, Snæfellsnesið, í miklu uppáhaldi enda fegurðin engu lík og var hún mikill fróðleiksbrunnur um sögu og staðhætti. Ég er afar þakklátur fyrir það að hafa átt Ingibjörgu að tengdamóður sem var greiðvikin og yndisleg manneskja.

Tíminn flýgur áfram og minningabrotin hrannast upp.

Vil ég að lokum votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Ingibjargar.

Halldór.

Elsku amma mín. Elsku hjartans Sólbjörtin mín. Millinafnið þitt á vel við þig, það lýsir þér vel. Þegar ég minnist þín er það kærleikur, óendanleg væntumþykja, stuðningur, hlýja, góðmennska, þakklæti og glettni sem kemur upp í hugann.

Það var svo hlýtt að koma til ykkar Hjálmars afa í Safamýrina. Hlaupa inn á bangsateppið, fela sig í skápnum, spila ólsen og laumast í kandís. Oft um helgar kom ég með mömmu þar sem ég horfði á ykkur með stjörnur í augunum meðan þú litaðir á henni augabrúnirnar í fallega baðherberginu ykkar.

Eftir að þú fluttir í Gullsmárann komstu oft að horfa á fótbolta í Smáranum, ég var sannfærð um það þegar þú mættir á leikina með svörtu derhúfuna, að þú værir algjört „happa“ því við unnum oftast leikina þegar þú komst. Þegar ég gisti hjá þér, man ég eftir að vakna við þig að breiða yfir mig, þú vildir ekki að mér yrði kalt, umhyggjan alltaf í algjöru fyrirrúmi.

Eftir því sem ég varð eldri dafnaði og dýpkaði vináttan. Þegar ég var í menntaskóla kom ég til þín eftir skóla á föstudögum, við fengum okkur flatkökur, kaffi og súkkulaðirúsínur og spiluðum rommý, fastir liðir eins og venjulega. Hlustuðum á Ragga Bjarna og þú sagðir oft, taktu til við að tvista, teygja búkinn og hrista. Hlustuðum á Álftagerðisbræður, spiluðum og töluðum um daginn og veginn. Það var alltaf gott að tala við þig um það sem manni lá á hjarta. Þú varst ein merkilegasta kona sem ég veit um, þótt þú hafir stundum verið mjög hlédræg með þitt, en þín ævi er svo ótrúlega merkileg. Ég er þakklát fyrir stundirnar sem ég átti þig fyrir mig og gat spurt þig að svo mörgu í þínu lífi.

Þér fannst svo gaman að vita hvað ég væri að gera og spurðir mikið um tungumálin sem ég syngi á, þér fannst það svo áhugavert. Þú fagnaðir öllum áföngum með mér.

Þú kunnir aragrúa af ljóðum, íslenskum textum við dægurlög og hafðir gaman af músík. Þú sagðir mér frá æskunni þinni á Litla-Kambi, pabba þínum sem söng mikið, dugnaðarkonunni henni mömmu þinni sem og fjölskyldunni þinni stóru og allri góðmennskunni sem hún hafði að geyma og ekki má gleyma hundinum og kettinum, og lambinu Imbu sem sem þér þótti svo vænt um.

Að kynnast Hjálmari umturnaði lífinu, ást ykkar er sú fallegasta sem ég veit um.

Þú varst svo þakklát fyrir allt, þótt það væri bara sunnudagsmatur í Melgerðinu, passaðir alltaf að hrósa matnum og þakka fyrir þig, þú vildir alltaf vera viss um að þú værir örugglega búin að kyssa alla bless og varst alltaf svo ótrúlega fín og vel til höfð. Þykir mér svo vænt um að þú sagðir „njótið þið stundarinnar“ sem er svo falleg og góð áminning.

Það er svo margs að minnast, elsku amma. Mér finnst erfitt að hugsa til þess að eiga ekki fleiri stundir með þér. Það er erfitt að finna eins þakkláta, góða og hjartahlýja manneskju frá dýpstu hjartarótum eins og þig. Það væri gott ef það væru fleiri eins og þú.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í mínu lífi, sem einstaka ömmu og ótrúlega dýrmæta vinkonu.

Elsku hjartans amma mín, dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Þangað til næst.

Þín

Bryndís.

Elsku amma mín, við eigum svo mikið af fallegum og góðum minningum saman. Það sem einkenndi þig svo mikið var yndislega hjartalagið þitt. Þvílíkur söngfugl, ég veit ekki um neinn sem kunni fleiri dægurlagatexta og fannst jafn gaman að syngja þá og þér.

Tíminn með þér og afa í Safamýrinni var svo yndislegur og þið hugsuðuð svo vel um okkur og pössuðuð að öllum liði vel. Við systur fengum mikla athygli, umhyggju og þolinmæði frá ykkur og voru ófá spilin tekin saman og borðaður kandís með.

Nokkrum dögum áður en þú fórst frá okkur vorum við kvenleggurinn þinn að horfa á myndband frá 80 ára afmælinu þínu og það sem þú geislaðir og naust þess að vera með fjölskyldu og vinum. Það eru skemmtilegar minningar um hversu skemmtileg og góð þú varst.

Síðasti dagurinn á Grund með þér, mömmu, systrunum og frænkunum var mjög dýrmætur og fengum við að fylgja þér þinn síðasta spöl. Ég trúi því að þið Hjálmar afi séuð sameinuð og líði vel.

Ég kveð þig elsku amma mín með hjartað fullt af þakklæti og ást.

Þín

Gyða Rut.

Nú hefur elsku amma mín og nafna farið yfir í sumarlandið. Það var afar dýrmætt að eiga kveðjustund með henni þegar hún skildi við en á sama tíma mikill söknuður sem braust fram. Fallegar og kærleiksríkar minningar streyma fram í hugann á þessari stundu. Ingibjörg Sólbjört amma mín var einstaklega vönduð og góð kona með hjarta úr gulli. Fallegri og kærleiksríkari sál er vandfundin. Hún var ætíð orðvör og hafði svo einstaklega fágaða og fallega framkomu. Hún var sterkur persónuleiki og bjó yfir mikilli manngæsku. Amma hafði umhyggjusama og hlýja nærveru sem gerði það að verkum að fólk laðaðist að henni. Hún gat líka verið mjög hnyttin og skemmtileg í svörum þar sem ekki var langt í kímnina. Amma var alla tíð mjög sjálfstæð og hafði þurft að upplifa tímana tvenna. Allt sem hún tók sér fyrir sér hendur gerði hún vel og fallega. Amma var framúrskarandi handlagin og bar rithöndin hennar þessi merki sem og öll fallega handavinnan sem hún prjónaði og saumaði af mikilli ástríðu í gegnum árin. Amma var mikill dugnaðarforkur og lét verkin tala. Heimilið hennar var ávallt tandurhreint og fínt. Hún var listakokkur og ekkert var betra en að fá lambalæri með brúnni sósu og sykurbrúnuðum kartöflum „a la“ amma eða nýbakaðar pönnukökur og kleinur sem voru þær bestu í bænum. Amma var mikil fyrirmynd og yndisleg vinkona sem gott var að leita til með alla hluti. Henni fannst gaman að lifa og njóta og var alltaf svo glæsileg og vel til höfð. Hún var stemningskona og mikill unnandi tónlistar. Hún samdi mikið af ljóðum og kunni marga íslenska texta. Á síðastliðnum árum áttum við nöfnurnar margar ljúfar og góðar samverustundir í eldhúskróknum í Gullsmáranum þar sem við spjölluðum um heima og geima yfir kaffibolla og stundum var líka gripið í spil. Amma var mikill sælkeri og sagði alltaf að súkkulaði væri svo gott fyrir sálina. Hún elskaði og unni okkur barnabörnunum og langömmubörnunum mjög mikið. Það var svo yndislegt að sjá hvað hún náði góðu sambandi við Ástu Birnu mína þó svo 88 ára aldursmunur skildi þær að. Ömmu fannst alltaf gaman að fá símtal frá útlöndum þegar ég var á ferðalagi og þá sagði hún ávallt þessa fallegu setningu: „Njóttu stundarinnar og guð veri með þér.“ Henni var mikið í mun að vita til þess að hennar fólk kæmist öruggt heim.

Við söknum hennar sárt en minningin um elsku bestu ömmu og langömmu barna minna; Halldórs Andra og Ástu Birnu, mun ætíð vera ljóslifandi í hjörtum okkar. Blessuð sé minning þín, elsku amma mín. Hjartans þakkir fyrir allt og guð geymi þig.

Þín

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir.

Nú þegar elsku fallega og góða amma mín hefur kvatt þennan heim sitja eftir yndislegar minningar sem fara í gegnum hugann. Mikið er erfitt og sárt að þurfa að kveðja. Það er þó gott að geta yljað sér við minningarnar og hvað við vorum óendanlega heppin að eiga þennan gullmola að. Þvílík fyrirmynd í einu og öllu sem hún amma var, heil og góð í gegn.

Amma var einstök kona, svo blíð og góð. Hún var þekkt fyrir að vera með eindæmum snyrtileg og allt í röð og reglu. Fjölmörg handverk liggja eftir ömmu og var unun að sjá hversu vandvirk hún var. Amma kunni marga texta og fannst okkur alltaf gaman að spila íslenska tónlist og syngja með. Hún var umhyggjusöm og stolt af sínu fólki, og hvatti okkur ávallt áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur í lífinu.

Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu og eru ófáar stundirnar sem við áttum saman yfir kaffibolla. Ég minnist yndislegu stundanna sem við áttum í Gullsmáranum, þar var gott að fá ömmukaffi og meðlæti. Hún fylgdist vel með út um gluggann þegar við vorum að fara frá henni, en þá var veifað og sendur fingurkoss. Einnig bað hún okkur um að láta sig vita þegar við værum komin heim.

Mikið væri nú heimurinn fallegur ef allir væru eins og elsku amma. Ég kveð ömmu með miklu þakklæti í huga. Þakklæti fyrir þær yndislegu samverustundir sem við áttum og allt það góða sem amma mín kenndi mér í gegnum lífið.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, sem fengu að kynnast þér.

(Ingibj. Sig.)

Minning Ingibjargar ömmu minnar mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Takk fyrir allt elsku besta amma mín, og takk fyrir alla þá ást og umhyggju sem þú sýndir öllum í kringum þig. Nú eruð þið Hjálmar sameinuð á ný og hann hefur tekið vel á móti þér í sumarlandinu.

Þitt barnabarn,

Hildur.