Tímamót Símamastrið víkur fyrir nýrri byggð á svæðinu.
Tímamót Símamastrið víkur fyrir nýrri byggð á svæðinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í gær hófst nýr kafli í uppbyggingarsögu höfuðborgarinnar þegar þrjátíu metra hátt fjarskiptamastur var tekið niður að Eirhöfða 11, m.a. að viðstöddum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Í gær hófst nýr kafli í uppbyggingarsögu höfuðborgarinnar þegar þrjátíu metra hátt fjarskiptamastur var tekið niður að Eirhöfða 11, m.a. að viðstöddum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Halldór Eyjólfsson þróunarstjóri fasteignafélagsins Klasa segir í samtali við Morgunblaðið að viðburðurinn hafi gengið eins og í sögu. Hann marki tímamót. Verið sé að fara úr þróunar – og skipulagsfasa yfir í framkvæmdafasa á stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur næstu ára sem staðsett sé í nýjum borgarhluta á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. „Mastrið er í eigu Mílu en var búið að þjóna sínum tilgangi mjög vel í á þriðja áratug. Nú víkur það fyrir nýrri borgarþróun og nýrri íbúðabyggð. Við segjum bæði í gamni og alvöru að við séum að einhverju leiti að skila höfðanum aftur til borgarinnar og íbúa hennar.“

Sautján ára gömul hugmynd

Sá hluti uppbyggingarinnar sem Klasi sér um kallast Borgarhöfði. „Nú er ekkert að vanbúnaði að hefja uppbygginuna. Við hjá Klasa erum búin að vera með þessa framtíðarsýn í undirbúningi í sautján ár. Við höfum því lengi átt okkur þann draum að þessi staður yrði nýr borgarhluti. Okkar hluti, Borgarhöfðinn, verður fyrsti fasinn í þessu.“

Á Krossmýrartorgi, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, verður tengistöð Borgarlínu við Austurborgina að sögn Halldórs. „Þar byggjum við upp verslun og þjónustu og atvinnustarfsemi fyrir hverfið og austur borgina. Þetta verður allt að fimmtán þúsund manna hverfi.“

Halldór segir að víkjandi starfsemi á svæðinu sé búin að vera í startholunum að fara á brott síðustu 5-7 ár, bílasölur, einingaverksmiðja og þungur iðnaður, m.a. „Þessir aðilar eru ýmist farnir eða fara seinna á árinu. Innan okkar svæðis verða 1.250 íbúðir og 50 þúsund fermetrar af verslunar-, atvinnu- og menningarhúsnæði.“

Aðspurður segir Halldór að 400 íbúðir verði komnar í uppbyggingu á þessu ári og þær fyrstu tilbúnar til afhendingar snemma árs 2024.“