Kjartan Bjarni Bjarnason fæddist 23. maí árið 1951. Hann lést 22. febrúar 2022.

Útför Kjartans fór fram 11. mars 2022.

Elsku pabbi, nú er komið að kveðjustund þann 11. mars og langar mig að minnast þín í fáeinum orðum. Ég mun minnast föður míns með hlýhug og mun ávallt geyma hann í hjarta mínu.

Hans verður ávallt minnst sem góðs föður og heimakærs fjölskyldumanns sem lagði áherslu á að skapa öruggt og hamingjusamt heimili. Sérstaklega voru jólin skemmtilegur tími því pabbi var mikið jólabarn sem skreytti heimilið frá toppi til táar.

Hann var hjarthlýr og gjafmildur en dulur og ekki maður marga orða varðandi tilfinningar sínar en var skemmtilegur sögumaður og man ég sögur hans frá æskuárunum á Ísafirði er hann gætti kinda pabba síns eða skíðabrekknanna á Ísafirði.

Síðustu misseri mun ég minnast tíma stórfjölskyldurnar í sumarbústaðnum sem pabbi nýtti til hins ýtrasta og var hápunktur ársins hjá honum.

Ég mun minnast samverustunda okkar með hlýhug og þakka fyrir allt elsku pabbi. Þín verður sárt saknað.

Ég vildi ég væri engill pabbi minn

þá myndi ég klæða blómum himininn

og loftin myndu óma af ljúfum söng

sem leiftraði af gleði kvöldin löng.

Og af því þú ert þreyttur vænginn minn,

þú fengir til að hvílast; enn um sinn.

Sængin þín verður öll mín ást og allt

sem saman áttum við; ef þér er kalt

og koddann færðu úr skýjaslæðum þeim

sem sjálfur Drottinn gerði höndum tveim

og stjörnurnar ég set á koddann þinn

og sólina við hjartað, ljúfurinn.

Sofðu í friði pabbi, sofðu rótt.

Sofðu, ég vaki það er komin nótt.(Alvar Haust)

Bjarni Jóhann Kjartansson.

Í hinsta sinn þann 11. mars kvaddi ég elsku pabba minn. Ég mun ávallt minnast þín með miklum hlýhug og minnast þín eins og þú varst svo lengi sem ég lifi, sem yndislegs, örláts, gjafmilds, stríðins, glettins og góðs pabba og afa sem gerði margt fyrir okkur fjölskylduna. Þú gerðir margt fyrir mig, elsku pabbi, meira en þú gerðir þér grein fyrir og þakka ég þér fyrir það og allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Mikið jólabarn var hann pabbi, þar skein örlætið og gjafmildin hans í gegn og hann skreytti íbúðina frá lofti niður í gólf. Jólin munu ekki verða eins án þín, elsku pabbi, en ég mun reyna að halda í hefðina þína á jólunum.

Ég mun einnig minnast allra sumarbústaðaferða fjölskyldunnar því það var eitt af því sem pabba fannst skemmtilegast að gera og hann dýrkaði að fara í þessar ferðir. Meira að segja rétt áður en hann dó sagði hann við mig að hann hlakkaði svo mikið til sumarsins því þá myndum við fara í sumarbústað saman og hann taldi dagana þangað til næsta ferð hæfist.

Tíminn sem ég fékk með þér, elsku pabbi minn, var mér mjög dýrmætur. Ég mun alltaf vera þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér, sérstaklega eftir þú hættir að vinna þá fengum við mun meiri tíma til að eyða saman og eftir fráfall mömmu þá varst þú mín stoð og stytta og við gerðum okkar besta til að vera sterk fyrir hvort annað á þessu erfiða tímabili og er ég mjög fegin að hafa fengið aukalega 4 til 5 ár með þér þó að sá tími væri allt of og stuttur þá er ég samt fegin að hafa fengið hann því hann gerði okkur nánari en við vorum þegar.

Mér þótti innilega vænt um þig, elsku pabbi minn, og mun alltaf gera. Elskaði þig meira en orð geta lýst.

Ég mun aldrei nokkurn tímann gleyma þér og ég mun sakna þín á hverjum einasta degi meðan ég lifi og þangað við hittumst á ný. Þegar minn tími kemur sameinast ég ykkur mömmu. Mun ég geta huggað mig við það að þú og mamma séuð saman á himnum og munið fylgjast með okkur fjölskyldunni af himnum ofan. Minning þín mun lifa áfram í huga og hjörtu fjölskyldu þinnar. Með sorg í hjarta kveð ég þig hinsta sinn, elsku yndislegi pabbi minn. Þín mun verða sárt saknað af fjölskyldunni þinni.

Ég ætla að láta fylgja með fallegt ljóð:

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Ó, pabbi minn, þú ávallt tókst mitt svar.

Aldrei var neinn svo ástúðlegur eins og þú.

Ó, pabbi minn, þú ætíð skildir allt.

Liðin er tíð, er leiddir þú mig lítið barn.

Brosandi blítt, þú breyttir sorg í gleði.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson.)

Elísabet Kjartansdóttir.