Óskar Magnússon lögmaður mun á aðalfundi Eimskips í dag taka sæti í stjórn félagsins í stað Baldvins Þorsteinssonar, fráfarandi stjórnarformanns.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tekur Óskar við sem stjórnarformaður Eimskips að aðalfundi loknum. Hann er vel kunnugur málefnum félagsins en hann hefur ýmist setið í stjórn eða varastjórn þess sl. þrjú ár og unnið náið með forstjóra þess, Vilhelm Þorsteinssyni, og fráfarandi stjórnarformanni. Eins og áður hefur verið greint frá mun Baldvin taka sæti í varastjórn og hafa þeir Óskar því sætaskipti.
Að öðru leyti verður stjórn félagsins óbreytt. Auk Óskars eru Guðrún Blöndal, Lárus L. Blöndal, Margrét Guðmundsdóttir og Ólöf Hildur Pálsdóttir tilnefnd í stjórn. Jóhanna á Bergi er ásamt Baldvini tilnefnd í varastjórn. Þær Margrét og Ólöf Hildur komu inn í stjórn félagsins í fyrra, en aðrir hafa setið lengur.