Hægt væri að skrifa langa grein um hvað ekki hefur verið gert í samgöngumálum Reykjavíkur. Samgönguvandi borgarinnar er skólabókardæmi um hvernig athafnaleysi leiðir í ógöngur. Umferðarteppan eykst ár frá ári og svifrykið borðar upp styttingu vinnuvikunnar. Á meðan er meirihluti borgarstjórnar með hendur í vösum og hugsar upp töfralausn við vandanum sem er ætlað að kippa öllu í lag.
Hver er staðan á framkvæmdum í samgöngumálum?
Í samgöngusáttmálanum milli ríkisins og allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins, sem undirritaður var í september 2019, koma fram helstu áherslur í uppbyggingu á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára. En þar er „ markmiðið að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga “. Rúmlega tvö ár eru liðin frá undirritun samgöngusáttmálans. Það bólar hins vegar ekkert á mörgum nauðsynlegum framkvæmdum í samgöngumálum.
Stafræn umferðarstýring
Það stóð til að þegar í stað yrði ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu. Snjallvæðing umferðarljósa hófst fyrst árið 2007 og í dag er um helmingur umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu með miðlæga stýringu. Ekki er að sjá að aukinn kraftur hafi færst í innleiðinguna frá undirritun samgöngusáttmálans, og líkt og oft vill verða er samstarfshópur enn að skoða hvernig sé rétt að útfæra lausnir.
Gatnamót við Bústaðaveg
Framkvæmdir við gatnamót Bústaðavegar áttu að eiga sér stað á árinu 2021. Þær framkvæmdir eru ekki enn hafnar og er unnið að frumdrögum vegna þeirra. Í ræðu innviðaráðherra á alþingi hinn 28. febrúar sl. kom fram að stefnt væri að því að bjóða framkvæmdirnar út á næsta ári. Ekki þarf að fjölyrða meira um seinaganginn sem einkennir málið.
Hvenær hljóma slæmar hugmyndir eins og góðar hugmyndir?
Það hefur skort pólitískan vilja hjá meirihluta borgarstjórnar til að koma lausnum við samgönguvandanum í verk. Pólitísk afstaða meirihlutans birtist í athafnaleysi og framkvæmdaskorti. Þessum uppsafnaða vanda á að kippa í lag með borgarlínu – ýktustu, dýrustu og flóknustu útfærslu hraðvagnakerfis.Það eru hins vegar margvíslegir annmarkar á hugmyndum um borgarlínu sem ekki er hægt að hunsa. Borgarlína felur í sér að þrengt verður að þeim borgarbúum sem vilja kjósa sinn eigin ferðamáta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á valfrelsi og eru samgöngumátar þar ekki undanskildir. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík getur ekki stutt áform sem fela í sér takmörkun á valfrelsi borgarbúa. Þetta þarf að vera skýrt fyrir komandi kosningar.
Við samgönguframkvæmdir þarf að bera virðingu fyrir valfrelsi og þörfum fólks. Núverandi hugmyndir um borgarlínu stangast á við þær undirstöðureglur. Í samgöngumálum þarf að láta verkin tala og taka mið af raunverulegum þörfum fólks. Það þýðir ekki að láta glepjast af töfralausnum.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir 6. sæti í prófkjöri flokksins 18. og 19. mars. egill1990@gmail.com