Valdimar Víðir Gunnarsson fæddist í Reykjavík 21. nóvember 1940. Hann lést á heimili sínu 1. mars 2022. Foreldrar hans voru Gunnar Svavar Guðmundsson, f. 25. apríl 1922, d. 8. janúar 2014, og Sigríður Valdemarsdóttir, f. 13. september 1921, d. 14. september 1979. Fósturmóðir Valdimars var Þorgerður Erna Friðriksdóttir, f. 1929, d. 11. nóv. 2017. Valdimar var elstur í hópi 10 systkina.

Eftirlifandi eiginkona Valdimars er Dagrún Björnsdóttir, f. 5. október 1946. Börn þeirra eru fjögur. 1. Erna Valdimarsdóttir, f. 13. ágúst 1963. Maki hennar er Friðmar M. Friðmarsson, f. 11. nóvember 1953. Börn þeirra eru: a) Linda Friðmarsdóttir, f. 22. maí 1990. Sambýlismaður hennar er Sebastian Andersen, f. 3. júní 1995. b) Atli Örn Friðmarsson, f. 30. maí 1992. Unnusta hans er Nína Björg Ottósdóttir, f. 3. desember 1992. Börn þeirra eru Kara Rut Atladóttir, f. 24. maí 2019. Snorri Björn Atlason, f. 17. janúar 2022. 2. Gunnar Freyr Valdimarsson, f. 21. nóvember 1965. 3. Kristinn Bjarni Valdimarsson, f. 17. október 1971. Maki hans er Sylvía Rut Jónasdóttir, f. 27. október 1980. Börn þeirra eru: a) Karen Helga Kristinsdóttir, f. 10. mars 1995, maki hennar er Gunnar Páll Einarsson, f. 23. maí 1993, börn þeirra eru: Einar Andri Gunnarsson, f. 22. júní 2017, og Hugrún Tinna Gunnarsdóttir, f. 24. september 2019. b) Fannar Þór Benediktsson, f. 2. maí 2000. c) Dagrún Ásta Kristinsdóttir, f. 29. júlí 2001. d) Ágústa Embla og Amelía Erna Kristinsdætur, f. 25. janúar 2010. 4. Bryndís Valdimarsdóttir, f. 20. febrúar 1974. Maki hennar er Axel Axelsson, f. 18. október 1974. Börn þeirra eru: a) Aníta Björk Axelsdóttir, f. 8. febrúar 1996. Sonur hennar er Úlfar Þór Anítuson, f. 20. mars 2020. b) Axel Örn Axelsson, f. 15. september 1998, og c) Hanna María Axelsdóttir, f. 18. júní 2008.

Valdimar fæddist í Reykjavík en ólst upp á Fáskrúðsfirði þar sem hann bjó hjá móðurfjölskyldu sinni til unglingsára. Flutti til Reykjavíkur og kynntist þar eiginkonu sinni. Þau bjuggu í Reykjavík til ársins 1998 en þá fluttu þau búferlum til Danmerkur og bjuggu þar til ársins 2011. Um ævina vann Valdimar hin ýmsu verkamannastörf.

Útförin fór 15. mars 2022.

Þú ert farinn frá okkur elsku pabbi. Sárt er og erfitt að lýsa tilfinningunum sem fylgja því að hugsa til allra góðu stundanna okkar saman. Alltaf brosandi, stutt í glensið. Þú settir alltaf upp spes augnráð og blikk með þegar þú sást að við skildum sneiðina. Sérstaklega var gaman þegar mamma var nálægt og hún mátti ekki heyra neitt; því þá sagði hún alltaf: „Víðir hættu þessu nú.“ Það fannst okkur svo fyndið og þú hlóst inni í þér því hún mátti ekki heyra það. Svo mikill húmoristi alltaf.

Fjöldi fólks hefur haft samband við okkur systkinin, símleiðis og í gegnum samfélagsmiðla til að votta samúð yfir fráfalli þínu. Margar fallegar kveðjur og orð um góðar minningar sem svo margir eiga með þér. Allir sem við höfum talað við eru sammála um að ljúfari mann var vart að finna. Þú varst heill í gegn, alltaf svo góður og hjartahlýr við alla sem voru nálægt þér.

Þú varst svo bóngóður og alltaf til staðar þegar þurfti hlýjan faðm eða þegar við þurftum spjall um eitthvað sem okkur lá á hjarta. Öll höfum við upplifað að sitja í hlýjum faðminum á þér grátandi, þú alltaf tilbúinn að knúsa og segja að allt færi vel, tíminn lækni öll sár. Aldrei vorum við skömmuð þrátt fyrir að eiga það stundum skilið. Frekar ræddirðu við okkur á þinn rólega máta. Alltaf skilningsríkur og svo hlýr. Þannig varstu bara.

Við munum sakna þess að heyra þig spila á nikkuna. Við minnumst góðra stunda þegar þú sast við orgelið og spilaðir lög sem þér voru kær. Þú varst líka ansi góður að spila á gítar og munnhörpu. Það var mikil músík í þér og höfum við öll notið góðs af því, tónlist skiptir okkur öll miklu máli. Þetta áhugamál var þér mikilvægt og við erum sannfærð um að margir eiga einnig eftir að sakna þess að heyra þig spila alveg eins og við gerum. Á síðustu árum spilaðirðu fyrir eldri borgara í Gerðubergi og einnig í húsinu sem þú bjóst í með mömmu. Þau koma öll til með að sakna þín eins og mörg þeirra hafa sagt. Þú þekktir alla og þér fannst gaman að kynnast nýju fólki. Þú varst svo opinn og mannblendinn, hafðir svo gaman af því að spjalla við aðra. Það eru bara góðar minningar í huga okkar allra sem tengjumst þér og lífi okkar með þér.

Mikið verður erfitt að sjá þig ekki aftur og knúsa þig og kyssa. Skrítið að hugsa til þess að eftir 60 ár með mömmu sértu ekki lengur hér. Þú varst alltaf svo góður við mömmu og þú hafðir alltaf áhyggjur af öllu sem kom henni við. Þú vildir alltaf vera til staðar fyrir hana og það varstu svo sannarlega. Þið voruð sem eitt og styrktuð hvort annað í gegnum allt ykkar líf, sem bæði hefur litast af gleði og sorg. Mamma átti þig alltaf að og þú sagðir alltaf við okkur að þú elskaðir hana svo mikið. Hennar missir er mikill og hún saknar þín svo sárt. Við lofum því að við munum alltaf passa hana fyrir þig og sjá til þess að henni líði vel og hafi það sem best.

Elsku pabbi okkar, við sjáumst næst á staðnum sem við förum öll á að lokum. Ef einhver fær inngöngu í himnaríki þá ert það þú.

Þín elskandi börn,

Bryndís, Erna og Kristinn Bjarni.