Páll Pálmar Daníelsson
Páll Pálmar Daníelsson
Eftir Pál Pálmar Daníelsson: "Þrjár öflugar konur koma til greina í prófkjörinu þótt ein þeirra hafi af lítillæti gefið kost á sér í annað sæti, vitandi samt vel að fjöldi fólks vildi hana í fyrsta sæti – reynda og víðsýna. Virðingarverða."

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík mun tefla fram konu í oddvitasætinu í sveitarstjórnarkosningunum fram undan. Það er orðið ljóst því þrjár öflugar konur koma til greina í prófkjörinu um næstu helgi, þótt ein þeirra hafi af lítillæti gefið kost á sér í annað sæti, vitandi samt vel að fjöldi fólks vildi hana í fyrsta sætið – reynda og víðsýna. Virðingarverða.

Fyrst gaf kost á sér kona sem vill láta borgina „virka“ en var samt sú eina í hópi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem studdi tillögu meirihlutans um að gera Laugaveg að göngugötu allt árið af því að það er svo „skemmtilegt“ að sögn eins píratans.

Svo kom fram afar efnileg og metnaðarfull þingmannsdóttir, varaborgarfulltrúi sem veit áreiðanlega hvað stefnir í – en gleymdi að lýsa yfir stuðningi við Reykjavíkurflugvöll í annars ágætri grein á þessum vettvangi um daginn, þótt hún styðji hann að sjálfsögðu. Stuðningur við flugvöllinn og algjör andstaða gegn „þungu“ borgarlínunni verður að vera skýr afstaða allra frambjóðenda flokksins, auk ýmiss annars auðvitað.

Þriðja konan sem kemur til álita í þetta mikilvæga sæti er reyndur borgarfulltrúi – kemur úr menntasamfélaginu með stjórnunarreynslu og svo víðsýn að hún kom fram með stefnumarkandi tillögu um sveigjanlega aldursbyrjun í grunnskóla. Frá sex ára niður í fimm skilst mér, e.t.v. af þeirri einföldu meginástæðu að „sum börn eru eldklár en önnur óttalegir sauðir“, eins og einhver orðaði það um árið. Algjörlega á skjön við átrúnað kommúnista um „skóla án aðgreiningar“. Svo má bæta við tillögu hennar um afnám fasteignaskatta eldri borgara í mjög góðri grein sl. laugardag í Morgunblaðinu.

Síðan verður að velja einhvern í annað sætið. Karlmann formsins vegna finnst mér þótt femínisti teljist. Þá kemur Þorkell Sigurlaugsson sterkur inn þótt fatlaður sé. Einn duglegasti maður sem ég hef hitt á lífsleiðinni, skarpgáfaður og reyndur á mörgum sviðum. Kjartan Magnússon kemur vitaskuld upp í hugann en hann hefur sýnt sig í því að verða mikilvægur alþingismaður og ætti ekki að þurfa að þreyta sig á borgarmálunum. Nær væri t.d. að tryggja Ólafi Guðmundssyni umferðarsérfræðingi öruggan stuðning, samgöngumálin eru jú einna brýnust. Og hvað með Helga Áss Grétarsson eða Viðar Guðjohnsen gæti einhver spurt. Ritað báðir mjög góðar greinar í Morgunblaðið nýlega. Eða Björn Gíslason sem gefur kost á sér í þriðja sætið, langreyndur í borgarmálunum.

Fjöldi annarra frambærilegra karla og kvenna er í framboði og magnað að venjulegum kjósendum flokksins sé gert kleift að hafa áhrif á röð hans – sem á endanum mun ráða úrslitum á kjördag. Við sem ætlum að taka þátt í prófkjörinu verðum að vera örugg um að valkosturinn okkar verði í algjörri andstöðu við núverandi meirihluta í Reykjavík.

Höfundur er leigubílstjóri.

Höf.: Pál Pálmar Daníelsson