Guðmundur Kristinn Þórmundsson fæddist 10. september 1942. Hann lést 10. mars 2022.

Útför Guðmundar Kristins var gerð 18. mars 2022.

Kveðja frá Karlakórnum Stefni

Hann hefur kvatt okkur helst til fljótt hann Guðmundur Þórmundsson eftir stutt en snörp veikindi. Við áttum eftir að taka saman lagið að minnsta kosti einu sinni enn. Guðmundur hóf þátttöku í kórstarfinu með Karlakórnum Stefni í Mosfellsbæ árið 1990 og söng 2. bassa. Samtals spannaði ferillinn um 26 ár. Hann gerði smá hlé er vaktir í lyfjafyrirtæki, þar sem hann starfaði sem vélstjóri, voru nokkuð þungar. Þegar hann komst í „fríið góða“ var hann óðar mættur af fullum krafti. Guðmundur hafði mjúka rödd og var afar tónviss og gott var því að hafa hann nálægt sér. Hann var afar jákvæður og ljúfur félagi og alltaf tilbúinn að leggja hönd á plóg þar sem þurfti. Hann átti setu í stjórn og ýmsum nefndum sem settar voru á stofn til að sinna hinum ýmsu verkefnum tengdum starfinu. Ávallt var hann tilbúinn að taka þátt í öllu starfi og á leið í tækifærissöng var gjarnan laust pláss í bíl með honum. Það var alveg sama hvert var verið að fara, félagarnir voru alltaf „í leiðinni“. Nágrannar og félagar úr Garðabæ og Kópavogi lögðu gjarnan saman í ferðir á æfingar í Mosfellsbæinn og skiptust þá á að keyra. Nú syngur Guðmundur án efa í Sumarlandinu með félögum sem farnir eru á undan honum en þar er hann nú í góðum hópi. Að ferðalokum þökkum við Guðmundi samsönginn og sendum við Stefnisfélagar Kötlu og fjölskyldu Guðmundar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Finnur Ingimarsson.