Laxateljari Tölvugerð mynd af stíflunni sem á að byggja í Elliðaánum.
Laxateljari Tölvugerð mynd af stíflunni sem á að byggja í Elliðaánum. — Tölvugerð mynd/OR og Verkfræðistofan Verkís
Fyrirhugað er að endurnýja laxateljarastífluna í Elliðaánum á sama stað og eldri stífla og tilheyrandi mannvirki hafa staðið í námunda við Rafstöðina í Elliðaárdal en sá búnaður sem notaður hefur verið allt frá níunda áratug síðustu aldar er talinn úr...

Fyrirhugað er að endurnýja laxateljarastífluna í Elliðaánum á sama stað og eldri stífla og tilheyrandi mannvirki hafa staðið í námunda við Rafstöðina í Elliðaárdal en sá búnaður sem notaður hefur verið allt frá níunda áratug síðustu aldar er talinn úr sér genginn.

Fram kemur í ósk Orkuveitu Reykjavíkur um heimild til þessarar endurnýjunar til umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar að teljarastíflan er notuð frá og með maí og út september en hún hýsir fiskiteljara sem telur og myndar allan lax sem gengur í Elliðaárnar. Einnig er seiðagildra tengd við teljarastífluna.

„Við byggingu nýrrar stíflu er talin þörf á að koma fyrir tveimur steinsteyptum stöplum í ánni, ásamt steinsteyptum kassa eða hólfi sem hýsa myndi nýjan fiskiteljara. Botn hólfsins yrði

steinsteyptur, en loka má því að ofanverðu með opnanlegum hlera til að hlífa teljarabúnaðinum,“ segir í lýsingu á framkvæmdum við endurnýjun stíflunnar.

Gert er ráð fyrir að hluti hennar verði úr forsteyptum einingum en hluti steyptur á staðnum, sem mun krefjast þess að helmingur árinnar verði stíflaður með pokum og vatni veitt yfir á hinn helminginn meðan á þeirri vinnu stendur.

Öryggi verður betur tryggt

„Stefnt er að því að verkið verði unnið að vetri þegar rennsli er í lágmarki. Ljóst er að umtalsvert auðveldara yrði að umgangast teljarabúnaðinn eftir þessar framkvæmdir en nú er. Jafnframt ber að

taka fram að öryggi þeirra starfsmanna sem þjónusta búnaðinn hefur verið ábótavant

hingað til, en með tilkomu endurnýjaðrar teljarastíflu á þeim grundvelli sem hér er lagður

verður það mun betur tryggt,“ segir þar ennfremur.

Fram kemur að fyrirhuguð teljarastífla muni væntanlega endast í áratugi án teljandi viðhalds.

Verkfræðistofan Verkís hannaði mannvirkið sem til stendur að setja upp í Elliðaánum.