Frakkland
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Hafnfirðingurinn Darri Aronsson mun söðla um í sumar og ganga til liðs við franska handknattleiksfélagið Ivry sem staðsett er í París.
Darri, sem er 22 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Ivry sem er með 11 stiga forskot á toppi frönsku B-deildarinnar þegar átta umferðir eru eftir af tímabilinu og virðist fátt geta komið í veg fyrir að liðið leiki í efstu deild á næstu leiktíð enda hefur liðið unnið 21 leik og einungis tapað einum.
Vinstri skyttan er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði og hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu undanfarin ár en hann lék sína fyrstu A-landsleiki á árinu gegn Krótatíu og Svartfjallalandi í lokakeppni Evrópumótsins í janúar sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu.
„Ég er mjög spenntur fyrir þessum félagaskiptum til Frakklands og þau leggjast virkilega vel í mig,“ sagði Darri við Morgunblaðið.
„Mig hefur dreymt um að gerast atvinnumaður í handbolta síðan ég man eftir mér og nú er sá draumur að rætast. Ég er líka mjög spenntur fyrir því að reyna fyrir mér í Frakklandi, og vonandi í efstu deild, enda bendir flest til þess að liðið verði í deild þeirra bestu á næstu leiktíð og það er ákveðinn heiður finnst mér að fá tækifæri til þess að hefja sinn atvinnumannaferil í einni sterkustu deild í Evrópu.
Ég heyrði fyrst af áhuga Ivry í byrjun janúar og hlutirnir gerðust ansi hratt eftir það. Það heillaði mig strax hversu mikinn áhuga þeir sýndu mér og hversu mikla trú þeir virtust hafa á mér. Markmiðið var að reyna fyrir sér í atvinnumennsku að þessu tímabili loknu en ég ætlaði mér ekki að stökkva á hvað sem var. Félagið þurfti að henta mér persónulega og ég vildi fara á stað þar sem mínir hæfileikar myndu nýtast sem best og ég sá Ivry strax sem mjög góðan kost,“ sagði Darri.
Þarf að hafa fyrir hlutunum
Ivry hefur átta sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2007. Þá lék Ragnar Óskarsson með liðinu. Fimm titlanna komu á árunum 1963 til 1971 og þá lék liðið bæði gegn Fram og FH í Evrópukeppni. Frakkarnir slógu Fram út haustið 1970 en töpuðu fyrir FH ári síðar.„Félagið og þjálfarinn sjá mig sem varnar- og sóknarmann og mér er ætlað stórt hlutverk en ég mun þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum og vinna fyrir mínu sæti. Það eru hörkuleikmenn þarna, meðal annars landsliðsmenn í vinstri skyttustöðunni, og þetta er því ekki félag sem þú gengur inn í og færð strax stórt hlutverk upp í hendurnar.
Ég er líka mjög spenntur fyrir því að flytja til Parísar enda er Frakkland mjög spennandi land. Það kitlaði mig líka mikið að fá tækifæri til þess að búa í París enda gerast borgirnar ekki mikið stærri. Það er mikil menning og saga í kringum París og þetta er fyrst og fremst frábært tækifæri líka fyrir mig til þess að víkka sjóndeildarhringinn.“
Darri er af miklum handboltaættum en faðir hans Aron Kristjánsson er þjálfari karlaliðs Hauka og margreyndur landsliðsmaður. Þá er móðir Darra Hulda Bjarnadóttir, fyrrverandi atvinnumaður í handbolta og margreynd landsliðskona.
„Ég er kominn á góðan aldur og tel mig algjörlega tilbúinn til þess að flytja utan og standa á eigin fótum. Foreldrar mínir eru mjög spenntir fyrir mína hönd, þau hvöttu mig vel áfram í öllu þessu ferli og hafa stutt mjög þétt við bakið á mér í gegnum allan minn feril.
Það er bara eitt flug á milli okkar sem telst nú ekki mikið og það er því lítið mál fyrir þau að kíkja í heimsókn hvenær sem er. Þau hafa alla tíð verið mjög meðvituð um það að minn draumur var að gerast atvinnumaður í handbolta og þau hafa bæði verið mér innan handar í öllu þessu ferli sem á undan er gengið.“
Vill kveðja með bikar
Aron og Darri hafa unnið saman hjá Hafnarfjarðarliðinu undanfarin ár. „Pabbi vill Haukunum auðvitað vel en hann vill líka það sem mér er fyrir bestu og á sama tíma hafa Haukarnir líka alltaf staðið mjög þétt við bakið á sínum leikmönnum sem hafa hug á því að reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Stjórnin hefur líka stutt mjög vel við bakið á mér í þessu ferli og ég er gríðarlega þakklátur þeim fyrir það. Ég er grjótharður Haukamaður og ég mun snúa aftur heim í uppeldisfélagið síðar, það er alveg klárt.“Haukar urðu síðast Íslandsmeistarar árið 2016 en liðið lék til úrslita um titilinn í fyrra og árið 2019 en tímabilinu 2020 var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.
„Þegar þú spilar fyrir lið eins og Hauka þá snýst allt um að vinna bikara. Við erum í efsta sæti deildarinnar og í dauðafæri að vinna hana. Það má alveg segja sem svo að vonbrigði síðasta árs sitji enn þá í okkur eftir tapið gegn Val í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn og allir leikmenn liðsins eru staðráðnir í að gera betur í vor.
Við erum með hörkulið sem við teljum að geti farið alla leið og það er nákvæmlega það sem við ætlum okkur. Draumurinn er að sjálfsögðu að enda tímabilið með stæl, verða Íslandsmeistari með Haukum og geta þannig kvatt félagið á eins góðan máta og mögulegt er,“ bætti Darri við í samtali við Morgunblaðið.