Guðjón Weihe fæddist 4. júní 1945. Hann lést 26. febrúar 2022.

Útförin fór fram 11. mars 2022.

Jæja, elsku pabbi minn.

Þetta er án efa eitt það leiðinlegasta verkefni sem mér hefur verið falið, að skipuleggja útför elsku besta pabba sem til er. Frá því ég man eftir mér var alltaf hægt að leita til þín með öll þau mál sem brunnu á manni og maður þurfti leiðsagnar við. Stundum hlustaði maður en í þeim tilfellum sem maður gerði það ekki hefði maður átt að gera það. Alltaf var það þessi yfirvegun, hógværð og góðmennska sem þú bjóst yfir og var þitt aðalsmerki sem skein í gegn í öllum okkar samskiptum.

Bíltúrar suður á eyju, ótal ferðir í Brimurð, Svörtuloft og undir Löngu voru ómetanlegar stundir. Fyrstu fjallgöngurnar mínar fór ég sitjandi á háhesti á þér og það helsta sem þú kvartaðir yfir var þegar ég hélt fyrir augun á þér.

Ekki var ég gamall þegar við fórum saman í lunda í Sæfellinu, Dalfjallinu og á fleiri staði, saman veiddum við mörg þúsund lunda á þessum árum og var ómetanleg sú kennsla sem ég fékk í lundaveiði og fjallamennsku og bý ég að henni enn í dag. Þegar ég ákvað að fara til Rvk. að læra bifvv. studdir þú mig heils hugar og sagðist ætla að fá vinnu hjá mér við að sópa þegar ég opnaði verkstæði sjálfur.

Þegar Guðjón Þ. afaprinsinn þinn og nafni fæddist 2008 þá eignaðist hann þann besta vin sem hægt er að hugsa sér. Frá fyrsta degi smulluð þið saman og voruð óaðskiljanlegir. Hann gat ekki beðið eftir að komast til ykkar mömmu á vorin eftir að skóla lauk. Hann sagði oft „afi hefur alltaf tíma fyrir mig og gerir allt með mér“. Það voru mörg símtöl og samtölin á milli ykkar. Það var eins og að hlusta á tvo fullorðna menn tala saman þegar þið tveir rædduð málin. Mér er það minnisstætt eitt sinn þegar við vorum þrír saman að veiða niðri á bryggju og Ævar vinur pabba kemur þar að. Hann segir við Guðjón Þ. hvað hann sé heppinn að vera að veiða með afa sínum á bryggjunni. Ekki stóð á svarinu hjá litla prinsinum þínum og segir hann: „Hann er ekki bara afi minn, hann er besti vinur minn.“ Þetta er kannski besta lýsingin á sambandi ykkar. 100% virðing og væntumþykja á milli ykkar.

Þegar ég hóf nám í lögfræði við HA 2020 sýndir þú því alltaf mikinn áhuga og spurðir alltaf hvernig gengi og stoltið leyndi sér ekki. Um síðustu jól þegar ég sagði þér frá einkunnunum mínum sagðist þú vera svo stoltur af mér. En þú þurftir ekki að segja það ... ég fann það.

Ég hitti þig daginn sem þú varst fluttur til Reykjavíkur.

Þegar vélin var opnuð og þú sást mig tók ég eftir hvað lifnaði yfir þér og þú brostir og svo tókumst við í hendur áður en þér var ekið á spítalann. Þar varstu í tvo daga áður en þú fórst. Ég held að svona hafir þú viljað hafa það. Þú varst vanur að gera allt á þínum forsendum og í rólegheitum.

Við hugsum um mömmu fyrir þig og ég mun segja Guðjóni Þ. frá öllu því sem við gerðum saman og halda minningu þinni á lofti. Við erum ekki aðeins að missa eiginmann, pabba og afa heldur þann allra besta vin sem maður getur eignast. Takk fyrir allt elsku pabbi minn og takk fyrir allt afi minn

Þinn sonur og afaprins,

Haukur Weihe og Guðjón Þorri.

Í dag kveðjum við góðan vin, hann Guðjón Weihe. Við vinirnir Hörður og Henrý erum hnípnir. Guðjón Weihe var mikill hæfileikamaður og að okkar mati var hann stórskáld, listasmiður á lífsins táknmyndir. Okkar leiðir og Gauja lágu fyrst saman þegar hann kom til Eyja eftir að hafa verið á Íþróttaskólanum í Haukadal. Þar lærði hann meðal annars glímu. Hann ákvað eftir námið í Haukadal að flytja fagnaðarerindið til Eyja og kenna ungum mönnum þar íslenska glímu.

Við (Hörður og Henrý) ákváðum, ásamt fjölda annarra Eyjapeyja, að læra þessa merku íþróttagrein hjá þeim Gauja og Kjartani bróður hans. Kennslan fór fram í leikfimisal barnaskólans. Hörður var lengur við æfingar en Henrý og taldi sig hafa náð umtalsverðri færni, eða þar til hann reyndi sig á æfingu við Hjálm Sigurðsson, þáverandi glímukóng Íslands. Hörður segir sjálfur svo frá í gríni, að hann teldi sig vera stærsta kúst sem Hjálmur hefði sópað íþróttagólf með. Honum fannst það heldur ójafn leikur. Við félagarnir höfum lengi átt þann draum, að Guðjón Weihe vinur okkar yrði tilnefndur bæjarlistamaður í Vestmannaeyjum, fyrir allan sinn frábæra kveðskap. Við nefndum þetta við hann fyrir fáeinum vikum. Okkur fannst svo nauðsynlegt að vekja athygli á því hversu frábær hann er í þessum efnum. Eftir hann liggur mikið úrval af ljóðum, kvæðum og textum við þjóðhátíðarlög, eins og t.d. „þú veist hvað ég meina mær“, einnig kveðskapur þar sem hann og Hilmir Högnason frá Vatnsdal kváðust á, og margt, margt fleira. Þegar við nefndum þetta við hann var hann algerlega mótfallinn því að við værum að vekja máls á þessu. Hann vildi ekki vera að gera mikið úr verkum sínum, var hógvær og lítillátur. Við félagarnir vorum ekki sammála honum, en við það sat.

Gaui var mikill hagleiksmaður og allt lék í höndum hans. Hann var einstaklega heilsteyptur og góður maður, og góður vinur var hann. Það var auðvelt og skemmtilegt að gleyma sér í spjalli við hann langtímum saman um lífið og tilveruna. Hann hafði alltaf sína sýn á málin, skoðun sem var oft krydduð meitluðu málfari.

Okkur fannst alltaf gefandi að sækja þau heim, hann og Erlu, hans yndislegu konu. Þau höfðu einstakt lag á því að láta mann finna sig velkominn.

Nú er vinur okkar fallinn frá, snöggt og ótímabært, en hann skilur eftir ótal góðar minningar.

Í kveðskap Guðjóns mun lifa hvernig hann gæddi mannlíf og umhverfi Eyjanna lífi og litum.

Kæri vinur, þín verður sárt saknað. Við munum minnast þín fyrir hve þú varst góður maður og góð fyrirmynd. Við þökkum þér fyrir einstaka vináttu.

Guð blessi Erlu og fjölskylduna alla.

Hörður og Marentza,

Henrý og Inga.

Við systkinin settumst niður og minntumst afa okkar og allra minninganna sem við áttum með honum. Tímarnir sem við eyddum saman í Eyjum voru auðvitað frábærir. Fersk í minni eru skiptin sem við, smápeyjar, fengum að fara með afa í körfubílinn. Það var alltaf jafn gaman, taka bíltúr niður á Rafveitu og prófa að fara jafn hátt og ljósastaur í körfubílnum. Það var spennandi að vera með afa í spröngunni, kenna okkur grunninn í sprangi og ekki var síður flott að sjá hann spranga. Maður fann sér alltaf eitthvað skemmtilegt að gera með afa. Þegar maður kom til eyja var öruggt að fá að sjá a.m.k. þrjár Tomma og Jenna-spólur eða eina Die Hard-mynd. Í bílskúrnum var alltaf hægt að smíða eða mála eitthvað með afa. Hann kenndi okkur að saga, negla og hvernig átti að meðhöndla ýmis verkfæri.

Eins gaman og það var að vera í Vestmannaeyjum hjá ömmu og afa var æðislegt að fá þau í bæinn. Í Efstaleiti vörðum við bræður miklum tíma. Tölvuskjárinn hans afa var alltaf blár með hvítum stöfum en þar var hann að skjalfesta ættfræði landans ef okkur skjátlast ekki. En alltaf var hann tilbúinn að sinna okkur strákunum. Hann hallaði sér gjarnan aftur í sófanum og sagði „jæja drengur minn“ og það var oftast byrjunin á einhverri magnaðri sögu úr Eyjum. Það var engu líkt að spila borðtennis við afa en þá mátti að vísu aldrei telja, þetta átti sko alls ekki að vera keppni heldur átti maður að dunda sér í borðtennis og æfa sig að slá á milli. Á kvöldin fengum við oft að fara í göngutúr með afa og hundinum Max. Afi beið oft með hundinn og við bræður hlupum áleiðis og földum okkur og svo áttu afi og Max að finna okkur. Það tók oftast mjög skamman tíma enda þeir báðir með framúrskarandi þefskyn.

Afi hneykslaðist oft á því að börn og unglingar í dag mættu ekki hafa vasahníf meðferðis í daglegum önnum lífsins. Þá minntist hann gömlu tímanna þegar hann var peyi í eyjum, þar sem hann komst ekki í gegnum daginn án þess að þurfa að nota hnífinn til að skera á net, hnúta eða annað tilfallandi.

Afi vildi okkur allt hið besta og gaf okkur góð ráð í formi góðrar sögu eða með vísum eins og þessari:

Ég vonir mínar við þig bind,

vertu öðrum fyrirmynd.

Drottinn sér úr hæðum hátt,

hvert þitt verkið stórt og smátt.

(Guðjón Weihe)

Við kveðjum afa okkar með söknuði og munum við aldrei gleyma gæsku hans og virðingu fyrir öllum lífverum. Takk fyrir allt.

Þín barnabörn,

Birkir, Sindri og

Elísa Björnsbörn.

Kæri vinur. Nú ert þú búinn að kveðja þetta jarðlíf og þín verður sárt saknað, en minningin um allar góðu stundirnar sem við áttum saman með ykkur Erlu þinni munu lifa áfram. Þú varst einstaklega vönduð persóna, rólegur að eðlisfari, þægilegur í umgengni, kærleiksríkur maður. Ég minnist þess þegar ég bjó á fastalandinu um tíma og þið einnig og störfuðuð í Efstaleitinu hvað þið reyndust mér vel. Að koma til ykkar í heimsókn eða til að fara á æfingar með kórnum okkar, ÁTVR, til að syngja Eyjalögin, þá var mér iðulega boðið í mat. Einu sinni sagði Gaui við mig að það væri kært að fá mig í mat því þá vandaði Erla sig sérstaklega, en Erla er meistarakokkur og fór létt með að elda fyrir heilu veislurnar ef svo bar við. Hjá Gauja var alltaf stutt í brosið og hvað við gátum hlegið saman, við þrjú, að alls konar vitleysu. En hann gat stundum verið þver og þá hlakkaði í okkur Erlu.

Gaui var mjög hagmæltur og eftir hann liggur mikið safn af ljóðum og einnig texta við Þjóðhátíðarlög átti hann. Er pabbi minn dó þá færði hann mér undurfögur ljóð sem ég setti i ramma ásamt mynd af pabba, þetta færði mér mikinn fögnuð.

Gaui var mikið náttúrubarn og naut þess að ganga um eyjuna eldsnemma að morgni, kíkja eftir fuglum sem hann hafði mikla þekkingu á og svo voru það hreiðrin á vorin, það þurfti að líta eftir þeim.

Við Jónas minn, þú og Erla höfum þekkst stóran hluta af ævinni. Eftir gos voru heimili okkar hlið við hlið, þið í Framnesi og við á Múla, og börnin okkar léku sér saman og við pössuðum hvert fyrir annað þegar á þurfti að halda. Svo kom að því að eignast heimili eftir gosið. Þá byggðum við eins einbýlishús í Dverghamarshverfinu og héldum vinskapinn. Við fórum saman á Norðlendingaþorrablót, elduðum saman í trogin og skemmtum okkur vel. Erla, ástin þín sem þú kynntist þegar hún kom á vertíð i Eyjum sem unglingur, varð konan þín og varð það þín gæfa í lífinu. Þið voruð alla tíð svo samrýnd hjón og áttuð saman þrjú fyrirmyndarbörn.

Elsku vinkona mín sem mér þykir svo vænt um þarf nú að kveðja elskuna sína, hann Gauja sinn.

En þannig er lífið, það gefur og tekur og við, mannfólkið, upplifum það öll að kljást við gleði og sorgir. Jesús Kristur og það sem hann stóð fyrir er sannleikur lífsins. Held að Gaui vinur minn hafi haft hann að leiðtoga lífsins.

Vertu sæll kæri vinur og hafðu þökk fyrir allt. Elsku Erla mín, söknuður þinn er mikill og sár. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Jónas til þín, barnanna ykkar tengdabarna og fjölskyldna þeirra.

Þórhildur Óskarsdottir og Jónas Bergsteinsson.