Í Úkraínu sannaðist að sjái Pútin tækifæri og tómarúm vegna lítilla varna víkur skynsemin til hliðar. Í Úkraínu dreymir Pútin um endurreisn keisaradæmisins. Í norðri lokka náttúruauðæfin.

Í byrjun vikunnar hófst mesta NATO-heræfingin í Norður-Noregi frá því á níunda áratugnum. Sænskir og finnskir hermenn æfa þar við hlið liðsmanna NATO-landa. Rússar sendu að minnsta kosti tvö stór herskip út á Noregshaf, milli Íslands og Noregs, til að minna á sig með skotæfingum.

Fréttirnar minna á tæplega 40 ára gamlar frásagnir sem birtust þegar Keflavíkurstöðin með allt að 5.000 Bandaríkjamönnum gekk í endurnýjun lífdaga. Þar var fullkomnasti hátæknibúnaður til eftirlits í undirdjúpunum og í lofti. Ráðist var í mikla mannvirkjagerð, meðal annars smíði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem var formlega opnuð fyrri hluta árs 1987.

Andstæðingar NATO og varnarsamstarfsins höfðu allt á hornum sér vegna framkvæmdanna við flugstöðina. Til að friða þá á pólitískum vettvangi var ákveðið að flugstöðvarbyggingin, sem Bandaríkjastjórn fjármagnaði að hluta, yrði minni en upphaflega var ráðgert.

Eftir að hætt var að deila um sjálfa veru varnarliðsins hér beittu andstæðingar þess sér gegn einstökum framkvæmdum og eimir enn eftir af þeirri undarlegu afstöðu.

Þótt minningar af þessu tagi vakni nú þegar litið er til NATO-æfingarinnar Cold Response í N-Noregi er pólitíska og hernaðarlega staðan allt önnur en hún var þá. Þrátt fyrir spennu milli austurs og vesturs og stefnu Sovétmanna að heimsyfirráðum í krafti hervæddrar hugmyndafræði sinnar giltu ákveðnar leikreglur: virðing fyrir fullveldi, friðhelgi landamæra og alþjóðalögum.

Stöðugleiki reistur á viðurkenndum grundvallarreglum er nú úr sögunni. Vladimir Pútin Rússlandsforseti svipti sjálfan sig endanlega öllu trausti annarra þegar hann skilgreindi Úkraínu sem ekki-ríki án þjóðar og þar með án landamæra; hann yrði að senda rússneska herinn til „sérstakra aðgerða“ svo að afmá mætti óværuna. Á tveimur dögum ætlaði hann að afvopna Úkraínumenn og afhöfða stjórnendur landsins. Nú er hann fastur í eigin stóryrðum, her hans ræðst á sjúkrahús og griðastaði almennra borgara. Árás var gerð á leikhús í hafnarborginni Mariupol miðvikudaginn 16. apríl þrátt fyrir viðvaranir um að þar dveldust börn. Augljós stríðsglæpur, segja sérfræðingar.

Heimskautasvæðin í Síberíu og vestur að landamærum Noregs og Finnlands hafa sérstakt aðdráttarafl í augum Pútins. Má vitna í fjölmargar ræður hans og ákvarðanir því til stuðnings. Áhuginn á svæðinu vex með aukinni hlýnun jarðar, opnun siglingaleiða og fleiri tækifærum til að nýta auðlindir. Þar vegur jarðefnaeldsneyti, olía og gas, þyngst. Fjárfestingin í þágu vinnslunnar er gífurleg. Landbrot til vinnslu, hafnargerð, lagning flugvalla, vega, lestarteina og leiðslna – að öllu þessu hefur verið unnið fyrir gífurlega háar fjárhæðir. Tekjurnar eru einnig miklar. Í umræðum um orkusölu Rússa til Evrópu eftir að Úkraínustríðið hófst segir að Evrópuríkin greiði Rússum orkureikning sem nemi milljarði evra á dag.

Í fjarræðu í þýska þinginu fimmtudaginn 17. mars sakaði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti Þjóðverja um að taka eigin efnahag fram yfir öryggi Úkraínu í aðdraganda innrásar Rússa. Ekkert tillit hefði verið tekið til gagnrýni Úkraínumanna á Nord Stream 2 gasleiðsluna þótt hún ógnaði bæði öryggi Evrópu og Úkraínu. Meira en helmingur af jarðgasi í Þýskalandi kemur frá Rússlandi.

Nú í mars ákvað framkvæmdastjórn ESB að nokkru fyrir 2030 verði ekkert jarðefnaeldsneyti flutt inn frá Rússlandi. Í ár beinist athyglin að jarðgasi og á að skera innflutning þess niður um þriðjung úr 155 milljörðum rúmmetra í 100 milljarða á ári. Bilið á að brúa með jarðgas-tankskipum frá Bandaríkjunum og Qatar.

Samhliða vaxandi efnahagslegu mikilvægi norðurslóða og siglingaleiðanna í norðri hafa Rússar hervæðst við Norður-Íshaf. Á rúmlega 24.000 km langri strandlengju þeirra eru nú herstöðvar og flugvellir auk hafna á Kólaskaga fyrir rússneska Norðurflotann og kjarnorkukafbáta með langdræga kjarnaodda-flugar, þungamiðju rússneska fælingarmáttarins. Pútin setti þennan herafla í viðbragðsstöðu vegna Úkraínustríðsins, einmitt þegar hvatt var til minni orkuviðskipta við hann.

Á sínum tíma kallaði Mikhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi norðurslóðir „svæði friðar“ og fræðimenn skilgreindu þær sem „undantekningu“, ónæmar fyrir átökum. Fram að innrásinni í Úkraínu lýstu norrænir stjórnmálamenn og fræðimenn norðurslóðum jafnan sem „lágspennusvæði“. Stenst sú lýsing lengur?

Rússar líta á sig sem „leiðandi norðurslóðaþjóð“. Þeir eru í formennsku Norðurskautsráðsins, að nafninu til fram í maí 2023. Að nafninu til vegna þess að hinar norðurskautsþjóðirnar sjö, norrænu þjóðirnar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn, gerðu „hlé“ á starfsemi ráðsins 3. mars 2022. Þær vilja ekki sitja þar við sama borð og Rússar. Norðurskautsráðið er ekki lengur nein undantekning. Rússar eru þar á bannlista eins og annars staðar. Erfitt er að túlka þá þróun alla í anda lágspennu.

Í Úkraínu sannaðist að sjái Pútin tækifæri og tómarúm vegna lítilla varna víkur skynsemin til hliðar. Í Úkraínu dreymir Pútin um endurreisn keisaradæmisins. Í norðri lokka náttúruauðæfin.

Ákveðið hefur verið að NATO auki herviðbúnað sinn á landi, sjó, í lofti, netheimum og geimnum. Hugmyndin er að tillögur um þetta verði samþykktar í júní í sumar. Óhjákvæmilegt er að minnka freistingar til valdbeitinga á norðurslóðum og huga að öryggi gasflutningaskipa yfir N-Atlantshaf telji Pútin þau ögra fjárhag sínum.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is