Ásta Salvör Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 4. janúar 1941. Hún lést á heimili sínu 7. mars 2022.

Foreldrar Ástu voru Sigríður Jónsdóttir saumakona, f. 25.7 1909 í Varmadal Mosfellsveit, d. 1995, og Þórður Björnsson prentari, f. 19.11. 1904 í Reykjavík, d. 1971.

Systkini Ástu eru Elsa Þórðardóttir, f. 18.9. 1936, búsett í Noregi, og Einar Grétar Þórðarson, f. 17.12. 1933, d. 30.4. 2017. Samfeðra þeim er Björn Þórðarson, f. 4.9. 1927, d. 15.6. 2021.

Ásta giftist Oddi Ragnarssyni bifvélavirkja 26. mars 1959, f. 14.9. 1937, d. 10.8. 2001. Börn Ástu og Odds eru: 1) Ragnar rekstrarráðgjafi, f. 3. ágúst 1959, kvæntur Hönnu P. Gunnarsdóttur. Þeirra börn eru Haukur og Signý Bára. Þau eru öll búsett í Noregi. 2) Drengur, f. 5. maí 1961, andvana. 3) Sigríður Elsa Oddsdóttir leikskólakennari, f. 4. ágúst 1962, gift Guðmundi Snorrasyni, búsett í Reykjavík. Þeirra börn eru Berglind, búsett í San Francisco, Snorri, búsettur í Kópavogi, Ásta Hrund, búsett í Noregi, og Brynja, búsett í Reykjavík. Langömmubörnin eru orðin tíu.

Ásta ólst upp í Reykjavík og gekk í Miðbæjarbarnaskólann. Hún sinnti lengst af húsmóðurstörfum og síðar starfaði hún til margra ára hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þau Oddur bjuggu lengst af á Meistaravöllum 9 í Reykjavík en eftir að Oddur féll frá fluttist Ásta í Kópavog og bjó síðustu árin að Þverbrekku 4 þar í bæ.

Útför Ástu fór fram í kyrrþey að hennar eigin ósk.

Elsku amma Ásta.

Þú hefur verið mikilvæg manneskja í lífi okkar alveg frá því við fæddumst. Yndisleg amma, svo hjartahlý og góð.

Takk fyrir að þú varst alltaf til staðar fyrir okkur. Þegar við vorum börn og bjuggum heima þá komstu oft í heimsókn. Þú varst alltaf tilbúin að passa okkur og bjóst stundum heima hjá okkur þegar mamma og pabbi fóru í ferðalög. Þá dekraðir þú við okkur og eldaðir dásamlegan mat enda mikill meistarakokkur. Alltaf mættirðu með páskaegg til okkar um páskana og færðir okkur sumargjafir á sumardaginn fyrsta. Þú passaðir gæludýrin okkar þegar við þurftum á því að halda.

Við þökkum ógleymanlegar ferðir í sumarbústaðinn ykkar, Karrakot, lautarferðir, tókum upp kartöflur á haustin, og spiluðum saman. Hápunkturinn var þegar þið afi gerðuð Karrakots-tívolí fyrir okkur á pallinum, þar sem þið nýttuð leiktækin sem voru til staðar og hugmyndaflugið fékk að ráða för.

Þið afi elskuðuð að ferðast um heiminn. Ykkur tókst heldur betur að koma okkur skemmtilega á óvart þegar við fjölskyldan vorum í sumarfríi á Krít og þið birtust allt í einu fyrir utan hótelið og eydduð restinni af fríinu með okkur.

Þú varst einstaklega þakklát fyrir allt sem við gerðum fyrir þig, þótt það væri bara að skipta um ljósaperu eða hjálpa þér með Netflix. Svo bauðstu í kaffi og gott spjall á eftir, rifjaðir upp gamla tíma eða ræddir heimsmálin, enda fylgdistu vel með öllu sem var að gerast í heiminum.

Þú gerðir bestu kjötsúpu í heimi og það var föst hefð hjá þér að bjóða fjölskyldunni í beinlausa fugla á annan í jólum, sem þú náðir að kenna Snorra að búa til fyrir síðustu jól. Eftir að við systurnar urðum grænmetisætur þá passaðirðu alltaf að eiga mikið úrval af góðum grænmetismat þegar við komum í heimsókn til þín og oft fannstu upp þínar eigin skemmtilegu uppskriftir. Þér fannst ekkert sjálfsagðara en að taka tillit til allra og dekra við okkur með þínum eigin hætti.

Þegar við vorum flutt að heiman og sáum þig sjaldnar en áður þá varstu dugleg að hringja í okkur og hafa samband. Við eigum sérstaklega eftir að sakna þess að þú hringir í okkur þegar við eigum afmæli og syngir afmælissönginn fyrir okkur.

Nú ertu komin í Sumarlandið til afa. Við vitum að hann hefur tekið vel á móti þér, og sjáum fyrir okkur hvernig þú ert himinlifandi yfir að vera komin í faðm hans á ný, enda var hann stóra ástin í lífi þínu og þinn allra besti vinur allt ykkar líf saman. Kysstu afa frá okkur.

Við höfum lært mikið af þér elsku amma. Við munum gera okkar allra besta til að halda góðu sambandi við okkar nánustu, alveg eins og þú gerðir allt þitt líf. Við munum dekra við börn okkar og barnabörn. Baka súkkulaðiköku með bananakremi og gera tívolí á pallinum. Og við ætlum öll að passa upp á að muna afmælisdaga okkar nánustu og syngja afmælissönginn í símann þegar við erum of langt frá hvert öðru til að hittast. Þannig munu góðu minningarnar sem þú gafst okkur lifa áfram.

Við eigum eftir að sakna þín mikið. Takk fyrir allt.

Þín barnabörn,

Berglind, Snorri,

Ásta Hrund og Brynja.

Skyndilegt fráfall Ástu kom á óvart þrátt fyrir að hún ætti við alvarlegan sjúkdóm að etja, sem hún glímdi við af æðruleysi. Hún hafði nýverið fengið niðurstöður rannsóknar sem voru frekar jákvæðar. Nú er Ásta komin til síns heittelskaða Odds. Hún hafði reyndar oft minnst á að hún hlakkaði til þess fundar. Fráfall Odds langt fyrir aldur fram var áfall sem hún komst aldrei yfir enda voru þau mjög samrýnd hjón.

Við hjónin bjuggum í nokkur ár í nágrenni heimilis Ástu og Odds og var þá talsverður samgangur á milli heimilanna. Ásta sýndi okkur mikla umhyggju og vináttu alla tíð. Eftir að Ásta flutti í Kópavoginn var samgangurinn aðeins minni en varla leið sú vika að ekki væri haft samband símleiðis. Svo voru það frænkuboðin og kjötsúpuboðin sem haldin voru þegar Elsa systir Ástu kom í heimsókn frá Noregi. Þá var oft glatt á hjalla. Ásta eldaði annálaða kjötsúpu sem allir kunnu vel að meta.

Við erum afar þakklát fyrir þá ræktarsemi sem Ásta sýndi okkur. Hennar verður sárt saknað en minningin mun ávallt lifa í hjarta okkar.

Við sendum samúðarkveðjur til Sigríðar, Ragnars og fjölskyldna þeirra.

Guð blessi minningu Ástu Þórðardóttur.

Ragnheiður (Raggý) og Örn.

Kveðjustund er komin fyrr en áætlað var. Við höfðum talað saman daginn fyrir andlátið og þá lá svo vel á henni. Ásta hafði um árabil barist við krabbamein en nú leit svo vel út með sjúkdóminn illvíga. Ekki var þörf á áframhaldandi meðferð í bráð og næsta stefnumót við lækni var ekki fyrr en í maí.

Ásta var mágkona mín og allt frá því að ég kynntist Einari bróður hennar fyrir mörgum áratugum höfum við átt mikil samskipti, farið í utanlandsferðir og ótal sinnum glaðst saman á góðri stund.

Ég dvel um stund við endurminningar. Eftir að við urðum báðar ekkjur töluðum við saman í síma því sem næst á hverjum degi. Það var svo gott að tala við Ástu, hún var svo ræðin og æðrulaus andspænis krabbameininu og kvartaði aldrei. Hún talaði aldrei illa um nokkurn mann. Ég mun sakna þess sárt að eiga ekki eftir að heyra í henni.

Þegar Einar bróðir hennar, og eiginmaður minn, lá banaleguna fannst honum svo gott að hafa Ástu systur hjá sér. Hún var alltaf svo róleg og þau gátu bæði spjallað og þagað saman.

Ásta saknaði alltaf eiginmannsins, Odds, sem lést fyrir rúmum tveimur áratugum. Og nú eru þau saman á ný.

Thelma Grímsdóttir.