Reynsla Jón Daði Böðvarsson og Hörður Björgvin Magnússon verða tveir af reyndustu leikmönnum landsliðsins í komandi verkefnum þess.
Reynsla Jón Daði Böðvarsson og Hörður Björgvin Magnússon verða tveir af reyndustu leikmönnum landsliðsins í komandi verkefnum þess. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðið Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Landsliðið

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, byggir að langmestu leyti á þeim hópi sem lék síðustu landsleiki ársins 2021, gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu, þegar Ísland mætir Finnlandi og Spáni í vináttulandsleikjum á Spáni dagana 26. og 29. mars.

Af þeim sem tóku þátt í þeim tveimur leikjum vantar aðeins Ara Frey Skúlason og Birki Má Sævarsson sem ákváðu báðir að þeim loknum að leggja landsliðsskóna á hilluna, og Mikael Egil Ellertsson, sóknarmann SPAL á Ítalíu, sem hefur verið frá keppni undanfarnar vikur vegna meiðsla.

Hörður Björgvin Magnússon snýr aftur í landsliðið eftir eins árs fjarveru. Hann lék síðast gegn Þýskalandi og Liechtenstein í mars 2021 en varð síðan fyrir alvarlegum meiðslum og er nýkominn aftur inn í hóp rússneska liðsins CSKA.

Það er því nokkuð ljóst að Arnar telur sig vera búinn að finna þann kjarna leikmanna sem hann hyggst byggja á liðið fyrir Þjóðadeildina í sumar, og í framhaldi af því undankeppni Evrópumótsins 2024 á næsta ári.

Atli fyrir Ara Frey

Af þeim 22 leikmönnum sem fóru í janúarverkefnið og mættu Úganda og Suður-Kóreu í Tyrklandi eru aðeins fjórir í þessum hópi. Það eru tveir af þeim reyndustu, Jón Daði Böðvarsson og Arnór Ingvi Traustason, og þeir Alfons Sampsted, sem hefur átt góðu gengi að fagna með Bodö/Glimt í Sambandsdeildinni í vetur, og Atli Barkarson, sem er nýkominn til SönderjyskE í Danmörku frá Víkingi og lék sína fyrstu landsleiki í janúar. Hann hefur verið færður upp úr 21 árs landsliðshópnum til að fylla skarð Ara Freys.

Jón Daði, sem spilaði ekkert með landsliðinu í haust, var kallaður inn í leikina í janúar þótt hann hefði þá verið úti í kuldanum hjá þáverandi liði sínu, Millwall, síðan í júlí. Það skilaði sér, Jón Daði skoraði gegn Úganda, gekk í kjölfarið til liðs við Bolton og hefur náð ferlinum aftur í gang með góðri frammistöðu þar.

Persónulegar ástæður

Þrír gáfu ekki kost á sér í þetta verkefni af persónulegum ástæðum, þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Sverrir Ingi Ingason og Mikael Anderson, og þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Jón Guðni Fjóluson, Mikael Egill Ellertsson og Rúnar Már Sigurjónsson hafa allir verið frá keppni með sínum félagsliðum vegna meiðsla undanfarnar vikur og mánuði. Einhverjir þeirra munu væntanlega koma inn í hópinn á ný fyrir leikina í Þjóðadeildinni í júnímánuði.

Af leikmönnum sem ekki eru valdir má helst nefna Viðar Örn Kjartansson og Willum Þór Willumsson sem báðir glímdu við meiðsli á síðasta ári.

Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson eru allir út úr myndinni vegna mála sem komust í hámæli á síðasta ári og óvíst er á þessari stundu hvort einhver þeirra eigi afturkvæmt í landsliðið. Aron spilar alla leiki með sínu félagsliði í Katar en Gylfi hefur ekki leikið knattspyrnu síðan í júlí og er enn í farbanni á Englandi þar sem engin ákæra hefur verið birt á hendur honum enn sem komið er. Kolbeinn lék síðast í ágúst en hann er án félags eftir að hann fór frá Gautaborg fyrir áramótin.

Bætir leikjametið rækilega

Birkir Bjarnason er langreyndasti leikmaður íslenska liðsins í dag og verður væntanlega áfram fyrirliði eins og í fjórum síðustu leikjum ársins 2021. Hann var sá eini sem lék alla þrettán landsleiki ársins 2021 en Birkir lék sinn 105. landsleik gegn Norður-Makedóníu í nóvember og sló þá met Rúnars Kristinssonar. Birkir hefur leikið af miklum krafti með Adana Demirspor í Tyrklandi í vetur og mun að óbreyttu bæta leikjametið rækilega á þessu ári.

Birkir, Jón Daði og Arnór Ingvi eru nú einir eftir af þeim sem tóku þátt í EM-ævintýri Íslands í Frakklandi árið 2016. Þeir Hörður Björgvin og Hjörtur Hermannsson voru einnig í þeim hópi án þess að spila.

Leikur Íslands og Finnlands fer fram í Murcia á Spáni laugardaginn 26. mars klukkan 16 að íslenskum tíma. Leikurinn við Spánverja fer fram í Coruna þriðjudagskvöldið 29. mars klukkan 18.45.

Landsliðshópur Íslands

MARKVERÐIR

Rúnar Alex Rúnarsson, Leuven 12

Elías Rafn Ólafsson, Midtjylland 4

Patrik S. Gunnarsson, Viking S 0

VARNARMENN:

Hörður B. Magnússon, CSKA 36

Hjörtur Hermannsson, Pisa 25

Guðmundur Þórarinsson, AaB 12

Brynjar I. Bjarnason, Vålerenga 10

Alfons Sampsted, Bodö/Glimt 8

Daníel Leó Grétarsson, Slask 5

Atli Barkarson, SönderjyskE 2

MIÐJUMENN:

Birkir Bjarnason, Adana Dem. 105

Arnór Sigurðsson, Venezia 16

Ísak B. Jóhannesson, Köbenhavn 10

Andri F. Baldursson, Köbenhavn 8

Aron Elís Þrándarson, OB 8

Stefán T. Þórðarson, Silkeborg 7

Þórir J. Helgason, Lecce 7

SÓKNARMENN:

Jón Daði Böðvarsson, Bolton 62

Arnór I. Traustason, New England 43

Albert Guðmundsson, Genoa 29

Jón Dagur Þorsteinsson, AGF 16

Sveinn A. Guðjohnsen, Elfsborg 10

Andri L. Guðjohnsen, Real Madrid 6