Hús Í gær opnaði Húsasmiðjan nýja verslun sína á Akureyri og segir Árni að mikið fjölmenni hafi mætt á staðinn til að kynna sér hina nýju aðstöðu.
Hús Í gær opnaði Húsasmiðjan nýja verslun sína á Akureyri og segir Árni að mikið fjölmenni hafi mætt á staðinn til að kynna sér hina nýju aðstöðu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar segir að fyrirtækið sjái ekki fram á tilfinnanlegan skort á timbri á þessu ári, þrátt fyrir stríðsátök sem nú eru í Úkraínu.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar segir að fyrirtækið sjái ekki fram á tilfinnanlegan skort á timbri á þessu ári, þrátt fyrir stríðsátök sem nú eru í Úkraínu.

Í Viðskiptablaðinu í vikunni kom fram í máli forstjóra Byko, Sigurðar Brynjars Pálssonar, að 40% timburs í Byko væru rússnesk. Í samtalinu bætti hann því við að auðséð væri að framboð á timbri myndi dragast saman og verð hækka vegna átakanna.

Timbur frá Norðurlöndunum

Árni segir að aðeins um kannski tíu prósent af timbri sem selt er í Húsasmiðjunni hafi átt uppruna sinn í Rússlandi. „Stærstur hluti af okkar timbri kemur frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Þó eru einstaka vörur, s.s. síberíulerki, sem mun líklega hverfa hér af markaði um eitthvert skeið.“

Árni segir að mikill skjálfti sé á mörkuðum út af stríðinu. Hann segir að Húsasmiðjan kaupi nánast ekkert timbur beint frá Rússlandi en keppinauturinn Byko starfræki tvær timburverksmiðjur í landinu.

„Bygma-samstæðan, móðurfélag Húsasmiðjunnar, er ekki með neina starfsemi í Rússlandi og heldur ekki í Hvíta-Rússlandi, sem einnig er beitt viðskiptaþvingunum vegna náinna tengsla við Rússa. Það er jafnframt ágætt þar sem við vitum að margir viðskiptavinir okkar og Bygma hafa síður áhuga á því að kaupa rússneskar vörur þessa dagana, eigi þeir annað val,“ segir Árni.

Timburverð var á niðurleið þegar stríðsátökin hófust að sögn Árna. „Við vorum búin að festa einhverja samninga fram í tímann, en það er búist við töluverðum verðhækkunum á næstunni. Óvissan er samt mikil. Mestu áhrifin verða þegar viðskiptabannið tekur gildi. Nú mega framleiðendur enn efna þá samninga sem gerðir höfðu verið fyrir innrás Rússlands í Úkraínu. Síðan fer ákveðið magn timburs út af markaðnum og fleiri aðilar munu slást um minna framboð, sem leiðir líklega til verðhækkana.“

Óvissa meiri á stálmarkaði

Óvissa er enn meiri á stálmarkaði en timburmarkaði. „Olíuverð hefur rokið upp og mikið af stáli á Evrópumarkaði kemur frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Svo virðist sem stórir framleiðendur bíði nú átekta eftir því að verðið hækki verulega áður en þeir bjóða nýja samninga. Hækkandi orkuverð hvetur einnig til áframhaldandi hráefnishækkana.“

Bygma tilkynnti í vikunni að það ætli að gefa andvirði fimm milljóna danskra króna, tæplega 100 milljóna íslenskra króna, til neyðaraðstoðar og hjálparstarfs í Úkraínu „Þessum styrk verður deilt út í Danmörku, á Íslandi og í Svíþjóð. Upphæðinni verður skipt jafnt á milli Rauða krossins í þessum löndum og hjálparsamtakanna Dan Church Aid,“ segir Árni að lokum.