Stig Arne Wadentoft fæddist 26. apríl 1940. Hann lést 28. febrúar 2022.
Útför Stigs fór fram 11. mars 2022.
Stig mágur minn var einstaklega heilsteyptur maður. Það var ekki að ástæðulausu að félagasamtök og stofnanir treystu honum fyrir alls kyns ábyrgðarstöðum og verkefnum. Hann var traustsins verður.
Ég bjó hjá Einari Þór og Stig á Bræðraborgarstígnum í tæp tvö ár. Bjó hjá þeim þegar ég var á fyrsta ári í stjórnmálafræði og sýndi Stig því nokkurn áhuga. Spurði mig af og til út í ESB, NATO, öryggis- og varnarmál og þess háttar. En hann sýndi ekki á spilin og maður vissi því lítið um hvaða skoðanir hann hafði sjálfur. Eflaust birtingarmynd þess aga sem hann hafði tileinkað sér á starfsferlinum. Með einni undantekningu þó. Það var ekki hernaðarleyndarmál að Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, átti ekki upp á pallborðið hjá Stig.
Þær skyldur sem Stig voru faldar í þágu sænsku þjóðarinnar voru mjög forvitnilegar og því reyndi ég stundum að fiska eftir einhverjum sögum því tengdum. Hann talaði ekki af sér og gerði ekki mikið úr sínu hlutverki. Ég hafði afskrifað þennan möguleika þegar hann sagði mér óvænt skemmtilega sögu þar sem við sátum fyrir framan arineldinn á Traðarstígnum í Víkinni.
Erlendir gestir með blátt blóð í æðum höfðu komið til Stokkhólms í opinbera heimsókn til sænsku konungsfjölskyldunnar. Stig var einn þeirra sem höfðu hlutverki að gegna í þeirri móttökuathöfn allri. Fallbyssuskot að gömlum sið var einn liður í að bjóða gestina velkomna. Nú hef ég ekki skotið af fallbyssu en eitthvað vantaði til að hægt væri að hleypa af, og birgjar sem sænski sjóherinn hafði verslað við áttu ekki til það sem vantaði. Var þá verslað hinum megin við landamærin af Norðmönnum í þetta skiptið í þeirri viðleitni að bjarga málunum. Eitthvað fór úrskeiðis þegar hleypa átti af og kóngafólkið mátti gera sér það að góðu að koma í heimsókn án þess að hleypt væri af fallbyssu. Stig sagði hlæjandi að í strangasta skilningi mætti túlka slíkt sem óvild gestgjafa í garð gestanna en það varð auðvitað ekki niðurstaðan. „Aldrei treysta Norðmönnum,“ bætti hann við og glotti.
Ýmsir skæðir sjúkdómar reyndu að fella Stig á lífsleiðinni en hann hafði lengst af betur. HIV-veiran hjó í hann, krabbamein hjó í hann og hjartasjúkdómar hjuggu í hann. Stig rétti alltaf úr sér aftur og hélt einhverri makalausri reisn sem ekki er svo auðvelt að útskýra. Hann var yfirleitt glæsilegasti maðurinn í herberginu og þarf nú töluvert til að slá Einari bróður við í þeim efnum. Alzheimer-sjúkdómurinn er hins vegar grimmur og náði tökum á Stig.
Stig var afskaplega hógvær maður og ég vona að hann fyrirgefi mér þótt ég lofi hann hér á síðum blaðsins. Sjálfur sagði hann stundum í gríni að Íslendingar kæmust ekki til himnaríkis nema um þá væri skrifuð minningargrein í Morgunblaðið.
Ég á eingöngu góðar minningar um mág minn Stig Arne Wadentoft og mun geyma þær nú þegar góður drengur siglir í hinsta sinn. Einn sá allra besti.
Kristján Jónsson.