Jón Hermann Karlsson
Jón Hermann Karlsson
Eftir Jón Hermann Karlsson: "Hvað er stríð? Hvað er stríðsglæpur?"
Stríð er það þegar hópar, þjóðir eða ríki berjast. Stríð standa yfir í mjög mislangan tíma, frá fáum dögum til áratuga.

Innrásarstríð er stríð háð af ríki sem ræðst með herjum sínum inn fyrir landamæri, þ.m.t. landhelgi og lofthelgi, annars ríkis. Nærtækasta dæmið er innrás Rússlands í Úkraínu.

Stríðsglæpir eru skilgreindir sem þær aðgerðir sem eru brot á lögum um vopnuð átök, þ.e.a.s. brot á þeim venjulegu og hefðbundnu alþjóðareglum sem settar eru til að hafa eftirlit með framkvæmd hernaðar og hafa almennt verið viðurkenndar sem stríðsglæpir.

Stríðsglæpamaður telst sá sem sakfelldur hefur verið fyrir stríðsglæpi af viðurkenndum dómstól. Alþjóðasakamáladómstóllinn var settur á laggirnar 1998 eftir að 120 ríki samþykktu hina svokölluðu Rómarsamþykkt. Helstu alþjóðlegu réttarheimildir á svið stríðsglæpa eru Genfarsáttmálinn og Rómarsamþykktin 1998. Sem sagt: það þarf að sanna glæp viðkomandi og dæma til að hann teljist stríðsglæpamaður.

Hafa Rússar þá framið stríðsglæpi á þessum fyrstu tveimur vikum innrásar þeirra í Úkraínu? Eru einstakir hermenn þeirra sekir um stríðsglæpi? Hefur Pútín framið stríðsglæpi í Úkraínu? Er hann sá ábyrgi ef stríðsglæpir sannast á rússneska herinn? Hver dæmir um þetta?

Flokkast það undir stríðsglæp að sprengja sundur barnaspítala, sjúkrahús, skóla og íbúðablokkir? Er beiting efnavopna (ef til kemur) stríðsglæpur eða hryðjuverk? Hver er munurinn á stríðsglæp og hryðjuverki?

Hryðjuverk er umdeilt hugtak án nokkurrar almennt viðurkenndrar skilgreiningar. Algengast er að hryðjuverk sé talið hver sú árás sem af ásetningi er beint gegn almennum borgurum til ógnunar sem framin er í þeim tilgangi að ná fram stjórnmálalegum eða öðrum hugmyndafræðilegum markmiðum. Um það er deilt hverjir fremji hryðjuverk (hvort t.d. ríki geti framið hryðjuverk) og að hverjum þau geti beinst (til dæmis hvort árás á hernaðarleg skotmörk geti verið hryðjuverk). Þarna geta komið upp árekstrar við önnur hugtök á borð við stríð og skæruhernað.

Í landslögum ríkja sem og í þjóðarétti hefur verið reynt að skilgreina hryðjuverk. Til dæmis segir í íslensku hegningarlögunum í 100. grein m.a.:

Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum ...

Þetta er mjög áþekkt skilgreiningu SÞ á hugtakinu (heimild: Wikipedia).

Hver hefur eftirlit með hernaðaraðgerðum Rússa í Úkraínu, því sem telja má stríðsglæpi eða hryðjuverk og kemur ábendingum þar um til þar til bærra aðila (dómstóla)? Hversu hratt getur málsmeðferð gengið hjá viðeigandi dómstólum? Kemst Pútín upp með athæfi sitt þar til öll Úkraína er fallin í hans hendur? Verður hann nokkurn tíma dæmdur?

Höfundur er viðskiptafræðingur á eftirlaunum. jonhk@internet.is

Höf.: Jón Hermann Karlsson