Rithöfundurinn Ragnar Jónasson hefur hlotið Palle Rosenkrantz-verðlaunin 2022 fyrir bestu þýddu glæpasöguna í Danmörku. Þau fær hann fyrir þríleik sinn um lögreglukonuna Huldu, Dimmu, Drunga og Mistur.
Palle Rosenkrantz-verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987. Þetta er aðeins í annað skipti sem höfundur hlýtur þau fyrir fleiri en eina bók en Ruth Rendell fékk þau árið 1994 fyrir Crockodile Bird og King Salomon‘s Carpet.
Ragnar er annar íslenski höfundurinn sem hlýtur verðlaunin. Yrsa Sigurðardóttir var verðlaunuð árið 2017 fyrir DNA.
Í umsögn dómnefndar segir: „Í þríleik Ragnars, Dimmu, Drunga og Mistri, eru bæði náttúra og íbúar Íslands lífshættuleg, sérstaklega úti í auðninni þar sem enginn heyrir þegar hrópað er á hjálp. [...] Meistaraverk sem einnig hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu.“