Steinunn Júlía Friðbjörnsdóttir fæddist 23. október 1928. Hún lést 1. febrúar 2022.

Útför Steinunnar Júlíu var gerð 18. febrúar 2022.

Ég var sex ára gömul þegar ég var svo heppin að fara í sveit til Júllu og Friðjóns frænda míns á Deildarfelli í Hofsárdal í Vopnafirði. Viggi bróðir hafði verið í tvö sumur og nú átti ég loks líka að fá að fara. Mikið sem ég var glöð og spennt. Ein fyrsta minningin er þegar ég fór með Júllu í Kaupfélagið á Tanga og sveitungarnir tóku allir eftir mér. Þeir horfðu á okkur Júllu og spurðu: „Nú, er Vignir enn þá hjá þér?“ Ég var steinhissa þar sem ég var tveimur árum yngri en Viggi, en stuttklippta hárið gerði mig strákalega og lík vorum við jú systkinin. En jafnhissa var ég að sjá Júllu svara hátt og snjallt: „Þetta er ekki Vignir heldur hún Jónína systir hans. Hún var að koma og ætlar að vera í mánuð hjá mér.“ Þetta sýndi mér strax að það var öðruvísi að búa á litlum stað eins og á Vopnafirði og athyglin á því smáa var meiri.

Dvölin þessi þrjú sumur á Deildarfelli var ljúf og full af óvæntum atburðum, góðum minningum, rómantík, Brimkló, útreiðartúrum, Stjörnu, Gránu, Stellu, sveitastemningu, bílaviðgerðum, gestagangi, kaupstaðarferðum á Moskvít eða á dráttarvél í búðina til hans Runa á Ásbrandsstöðum.

Tíminn leið eins og lækurinn því þótt væri líf var ekki hamaganginum fyrir að fara á þeim bænum.

Júlla var b-manneskja og naut kvöldstundanna, en leyfði sér að fara seinna á fætur heldur en karlpeningurinn, enda búin að undirbúa nesti fyrir þá sem þurftu kvöldinu áður. Stundum beið ég spennt eftir henni við eldhúsborðið og sá þaðan hvernig hún sveif ofan af svefnloftinu niður stigann eins og kvikmyndastjarna í bleika þunna siffon-náttsloppnum með pífunni. Hún var oft enn í tröppunum þegar hún byrjaði að tala og segja frá draumum næturinnar.

Júlla var næm og oft berdreymin. Einn draumanna er mér sérstaklega minnistæður. „Jæja, Nína mín,“ segir Júlla. „Nú verð ég að drífa mig í að baka vegna þess að við erum sennilega að fá gesti í dag. Ekki veit ég hverjir eru að koma, en þessi kona hló svo mikið að það var einstakt.“ Svo fékk hún sér kaffi í glasið sitt og byrjaði að baka. Enginn kom gesturinn þann daginn og var Júlla hissa. Seinnipart næsta dags er ég uppi að leika mér þegar ég heyri gesti bera að garði. Ekki leið á löngu uns dynjandi kvenmannshláturinn dundi um allan bæinn og var hláturinn svo mikill og sérstakur að ég hafði aldrei heyrt annað eins. Þetta voru töfrar.

Júlla var mjög athugul og vakandi. Hún hafði gaman af fólki, var mannþekkjari mikill og ég heyrði margar frábærar mannlýsingar frá henni. Stundum brá hún á leik og „lék“ fólk, það fannst mér gaman. Þá skóf hún ekki af sínum skoðunum og lét fólk alveg heyra ef henni mislíkaði eitthvað. Henni þótti vænt um börn og átti auðvelt með að umgangast þau og allt virtist svo einfalt. Og það var svo gott.

Henni Júllu minni er ég ævinlega þakklát fyrir að hafa leyft mér að vera hjá sér í sveitinni. Ég mun ætíð minnast þessa tíma með gleði og þakklæti.

Börnum Júllu, tengdafólki, afkomendum og ættingjum votta ég mína dýpstu samúð.

Jónína Mjöll Þormóðsdóttir.