Jón Björn Steingrímsson fæddist í Reykjavík 14. desember 1970. Hann var bráðkvaddur 15. febrúar 2022.

Móðir hans er Elsa Einarsdóttir, f. 1942. Faðir hans var Steingrímur Skagfjörð Björnsson, f. 1941, d. 2015.

Eftirlifandi eiginkona hans er Marta Guðrún Guðmannsdóttir, f. 1973. Börn hans eru Magnús Freyr Jónsson Morthens, f. 1989, Ívar Guðmann Jónsson, f. 1992, Baldur Gauti Jónsson, f. 1996, og Rakel Sera Jónsdóttir, f. 2001.

Útför hans fór fram 24. febrúar 2022.

Bjössi mágur minn og vinur. Nokkur orð um góðan dreng. Missirinn er mikill fyrir veröldina og okkur öll.

Við sem vorum svo heppin að fá að kynnast og þekkja Bjössa persónulega vitum að hann var sannur, hann var gull af manni, hann var dýrari týpan.

Fágætur er góður vinur.

Sennilega mun okkur aldrei skiljast til fullnustu hvers vegna Bjössi var kallaður frá okkur svo fljótt, minning hans er svo sannarlega ljós í lífi fólksins sem var honum kærast, barnanna hans fjögurra og klettsins hans hennar Mörtu.

Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst Bjössa í gegnum systur mína sem er best í öllum heiminum. Það var svo auðvelt að líka vel við Bjössa, hann féll vel í kramið hjá öllum í tengdafjölskyldunni, pabbi og hann voru miklir mátar og gátu endalaust hlegið og skemmt hvor öðrum.

Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa og gera allt sem hann gat fyrir okkur fjölskylduna; ef einhver voru vandkvæðin gat Bjössi alltaf fundið út úr því, því meiri gruflara var erfitt að finna.

Þegar sorgin knýr að dyrum hugsar maður um að samverustundirnar hefðu mátt vera fleiri síðustu ár. Við Bjössi vorum einstaklega góðir vinir í gegnum tíðina, töluðum oft mikið saman um lífið og tilveruna.

Húmorinn var á réttum stað hjá Bjössa og glettnin alltaf til staðar, stríðinn, skemmtilegur, fyndinn og ljúfur.

Ég mun hugsa til hans með þakklæti og virðingu fyrir allar góðu stundirnar, fíflaganginn, húmorinn, brandarana og ekki síst gleðina, ástina og samstöðuna sem hann og Marta áttu svo fallega saman. Nokkrar af lífsreglum þeirra voru samvera, upplifun, friður og ró, ekki má gleyma reglunni gerum allt saman.

Elsku Marta og Bjössi, þið voruð frábær fyrirmynd.

Svo viðkvæmt er lífið sem

vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann

allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla

stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Elsku Marta systir, Magnús, Ívar, Baldur, Rakel, tengdabörn og barnabörn,

Bjössi verður aldrei gleymdur, hann mun lifa í hjarta okkar um aldur og ævi.

Kveðja,

Kristín Soffía

Guðmannsdóttir (Stína).

Með söknuði í hjarta minnumst við vinar og vinnufélaga okkar, sem var hrifinn burt frá okkur allt of snemma.

Jón Björn hóf störf hjá BAUHAUS á upphafsári fyrirtækisins og átti stutt í tíu ára starfsafmæli þegar hann féll frá. Jón setti sitt mark á starfsemi fyrirtækisins og vinnudaga okkar allra. Starfsemi fyrirtækisins var honum hugleikin og varði hann löngum stundum í að huga að hagsmunum þess.

Í vinnunni var Jón maður fárra orða, hann var einstaklega hnyttinn, réttsýnn, traustur, ósérhlífinn og vinnusamur. Hann var alltaf fyrstur til að rétta fram hjálparhönd og var þá ekki spurt að stað eða stund, Jón var tilbúinn til að hjálpa. Jón var góður mannþekkjari, sem kom sér vel við ýmsar aðstæður.

Með einstakri lund, nærveru og hlýju náði Jón til allra sem hann vann með, óháð aldri eða stöðu.

Við leiðarlok og hinstu kveðju er efst í huga sú jákvæðni sem Jón smitaði frá sér. Þegar á móti blés var viðkvæðið ávallt: Höldum áfram, verkin vinna sig ekki sjálf. Dagarnir gátu verið langir og verkefnin mörg en Jón fór ávallt á undan með góðu fordæmi og sýndi hug sinn í verki. Við munum sjá til þess að bera minningu Jóns áfram á vinnustaðnum.

Jón var einstakur og skilur hann eftir stór spor sem ekki verða fyllt.

Með söknuði kveðjum við Jón og þökkum góð kynni. Minningin um góðan vin lifir með okkur.

Við sendum Mörtu, börnunum og öðru samferðafólki sem eiga um sárt að binda samúðarkveðjur.

Fyrir hönd vina og vinnufélaga í BAUHAUS,

Ásgeir Bachmann,

Daníel Sigurðsson Glad,

Snæfríður Dröfn

Björgvinsdóttir.